Umhverfistofnun - Logo

Algengar spurningar

Hvað þarf ég að gera til að taka þátt í skotvopnanámskeiði?

  • Til að öðlast réttindi þarf viðkomandi að hafa náð 20 ára aldri. Lögregla getur samþykkt einstaklinga á námskeið, sé stutt í að viðkomandi verði tvítugur.
  • Finna tvo meðmælendur og fá undirskrift þeirra á eyðublaðið sem finna má hér á vefnum. Þeir þurfa að vera orðnir tvítugir, en þurfa ekki endilega að hafa skotvopnaleyfi.
  • Skrá þig hér á veidikort.is.
  • Kynna þér viðfangsefnið - lesa bækurnar.
  • Skila læknisvottorði og passamynd inn til lögreglunnar í því umdæmi sem þú átt lögheimili í með góðum fyrirvara fyrir námskeiðið.
  • Sækja um sakavottorð hjá lögreglunni um leið og þú skilar inn læknisvottorði og passamynd.
  • Lögreglan þarf að hafa fengið öll gögn frá þér minnst tvem vikum fyrir námskeiðið til þess að þú eigir möguleika á að vera samþykkt/ur á námskeiðið.
  • Greiða þarf námskeiðsgjaldið minnst viku fyrir námskeið
  • Kynna þér viðfangsefnið vel áður en námskeið hefst.
  • Mæta á námskeiðið og taka próf.


Ég fékk 74% á prófi. Er ekki hægt að sleppa mér með þetta eina prósent?

Ef próftaki fær 72,73 eða 74% á prófi er farið aftur yfir prófið til þess að fyrirbyggja mistök í innslætti. Lágmarkið til að ná prófinu er 75%.

Ég get ekki mætt á þeim tíma sem verklegi hluti skotvopnanámskeiðsins er auglýstur. Get ég mætt á öðrum tíma?

Ekki skiptir máli á hvaða skotvopnanámskeiði farið er í verklega hlutann. Hægt er að fresta honum. Best er að ná samkomulagi við kennarann á skotvopnanámskeiðinu þegar það hefst um annan tíma fyrir verklega hlutann. Hægt er að fá að mæta með þeim hóp sem er á næsta námskeiði þ.e. lögreglan gefur ekki út skírteini fyrr en búið er að staðfesta að viðkomandi hafi lokið verklega hlutanum. Að jafnaði er einkunn ekki send út fyrr en báðum námshlutum er lokið.

Ég er búinn að vera með skotvopnaleyfi í mörg ár og var að veiða fyrir tilkomu veiðikortakerfisins. Hef hinsvegar aldrei verið með veiðikort. Þarf ég að fara á veiðikortanámskeið?

Já. Allir sem hyggjast stunda almennar skotveiðar á Íslandi á öðrum dýrum en sel og mink, þurfa veiðikort. Fyrstu tvö árin, 1995-1997 sem veiðikortakerfið var starfandi var skotvopnaleyfishöfum gefinn kostur á að sækja um veiðikort án þess að fara á námskeið. Eftir þann tíma hafa allir ungir sem aldnir skotvopnaleyfishafar þurft að sækja veiðikortanámskeið.

Þarf ég að eiga byssu til þess að geta farið á skotvopnanámskeið?

Nei. Námskeiðin eru ætluð þeim sem eru að sækja um skotvopnaleyfi og þar af leiðandi hafa þátttakendur ekki leyfi til að eiga byssu fyrr en að loknu námskeiði.

Þarf ég að fara aftur á námskeiðið ef ég næ ekki 75% á skotvopna- eða veiðikortaprófinu?

Nei, þú þarft ekki að sitja námskeiðið aftur. Þú hefur einfaldlega samband við Umhverfisstofnun og pantar upptökupróf.

Hvar og hvenær get ég farið í upptökupróf vegna veiðikorta- eða skotvopnanámskeiðs?

Sjá síðuna um upptökupróf.

Hvað geri ég til þess að fá skírteini þegar ég er búinn að standast skotvopnaprófið?

Þú ferð til sýslumanns- eða lögreglunnar þar sem þú skilaðir inn gögnunum og sækir skírteinið. Sum embætti senda skírteinið strax að námskeiði loknu.

Ég féll á skotvopna- eða veiðikortaprófi. Þarf ég að sitja námskeiðið aftur?

Nei, en þú þarf að hafa samband við Umhverfisstofnun og kanna fyrirkomulag upptökuprófa. Sjá upplýsingar um upptökupróf í samnefndum flipa hér ofar.

Þurfa meðmælendur umsækjanda um skotvopnaleyfi að vera sjálfir með skotvopnaleyfi?

Einfalt svar við þessu. Nei, en þeir þurfa að hafa náð 20 ára aldri.