Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Bráðabirgðatölur um losun gróðurhúsalofttegunda 2024

Hér má finna umfjöllun um nýjar bráðabirgðatölur Umhverfis- og orkustofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2024. Þessum gögnum var skilað til ESB júlí 2025 í samræmi við þær ESB reglugerðir sem gilda um losunarbókhald Íslands. Bráðabirgðatölur Umhverfis- og orkustofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hafa sögulega gefið góða vísbendingu um hvernig losunin er að þróast. Tölurnar gætu tekið einhverjum breytingum fram að lokaskilum vor 2026.

Ítarlegri gögnum og gröfum má hlaða niður hér.

Heildarlosun Íslands

Heildarlosun Íslands með landnotkun árið 2024 nam 11,0 milljónum tonna CO2-íg. Það er um 1,4% aukning frá árinu 2023 þegar losunin var 10,9 milljón tonn CO2-íg. Ef miðað er við losun árið 2005 hefur heildarlosun Íslands aukist um 6,6% fram til ársins 2024. Heildarlosun Íslands 2005 til 2055, skipt eftir skuldbindingum, má sjá á Mynd 1.

 

 Mynd 1: Heildarlosun Íslands 2005 til 2055, skipt eftir skuldbindingum. Söguleg losun til og með 2024 og framreiknuð frá og með 2025.

 

Samfélagslosun Íslands

Samfélagslosun Íslands (ESR) árið 2024 nam 2,86 milljónum tonna CO2-ígilda (CO2-íg.). Það er um 2,0% aukning frá árinu 2023 þegar losunin var 2,81 milljón tonn CO2-íg. 

Þessa breytingu má helst rekja til aukningar í losun jarðvarmavirkjana og meiri eldsneytisnotkunar fiskiskipa, fiskimjölsverksmiðja, og til raforkuframleiðslu. Losun minnkaði þó á sama tíma í nokkrum undirflokkum sem falla undir samfélagslosun m.a. vegna minni eldsneytisnotkunar í vegasamgöngum, minni losunar vegna kælimiðla, minni urðunar úrgangs og fækkunar sauðfjár.

Hér að neðan má sjá hvaða undirflokkar sem falla undir samfélagslosun breyttust mest milli áranna 2023 og 2024 (Mynd 2) og hvernig hlutföll undirflokkana skiptast árið 2024 (Mynd 3).

Mynd 2: Helstu breytingar í samfélagslosun Íslands milli áranna 2023 og 2024. 

 

 

 

 Mynd 3: Skipting samfélagslosunar árið 2024 í undirflokka. 

Áætluð skuldbinding gagnvart ESB um samdrátt í samfélagslosun er 41% árið 2030 miðað við árið 2005. Samdráttur frá árinu 2005 er 7,9% árið 2024. Samfélagslosun Íslands frá árinu 2005 má sjá á Mynd 4 í samhengi við væntanlegar skuldbindingar um 41% samdrátt árið 2030. Nánar má lesa um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum hér.

 

 Mynd 4: Samfélagslosun Íslands 2005 til 2024, framreiknuð losun samkvæmt sviðsmynd með núgildandi aðgerðum til 2030 ásamt væntanlegum skuldbindingum um 41% samdrátt árið 2030 miðað við 2005.


Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS)

Losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið) er frá staðbundnum iðnaði á Íslandi, flugi frá flugrekendum í umsjón Íslands og sjóflutningum frá skipafélögum í umsjón Íslands.

Losun frá staðbundnum iðnaði var 1,89 milljón tonn CO2-íg. árið 2024. Það er um 4,2%aukning frá árinu 2023 þegar losunin var 1,81 milljón tonn CO2-íg. Þessa breytingu má helst rekja til aukningar í kísil- og kísilmálmframleiðslu. Losun vegna álframleiðslu dróst saman þó á sama tíma.

Losun frá flugi sem fellur undir ETS-kerfið var 0,63 milljón tonn CO2-íg. árið 2024. Það er um 3,2% aukning frá árinu 2023 þegar losunin var 0,61 milljón tonn CO2-íg. Þessa breytingu má rekja til aukningar í losun hjá flugfélögum. Á móti kom minnkuð losun vegna þess að eitt flugfélag hætti starfsemi.

Losun frá sjóflutningum sem falla undir ETS-kerfið var 0,088 milljón tonn CO2-íg. árið 2024.

Helstu breytingar milli áranna 2023 og 2024 í losun innan ETS-kerfisins má sjá á Mynd 5.


Mynd 5: Helstu breytingar í losun á Íslandi sem fellur ETS-kerfið milli áranna 2023 og 2024. 

 

Landnotkun

Gert er ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda frá landnotkun (LULUCF) hafi staðið nánast í staðmilli áranna 2023 og 2024. Bráðabirgðagögn gefa til kynna að losunin árið 2024 hafi verið 6,27 milljón tonn CO2-íg. en var 6,25 milljón tonn CO2-íg. árið 2023.

Þær aðgerðir sem binda mest eru skógrækt og landgræðsla. Innan skógræktar reiknast binding ársins 2024 um 0,55 milljón tonn CO2-íg. sem er álíkamikil og árið 2023. Binding vegna landgræðslu reiknast fyrir 2024 um 0,68 milljón tonn CO2-íg. en 0,66 milljón tonn CO2-íg árið 2023.

Mesta losun innan landnotkunar var sem áður í mólendi, eða um 78% af losun frá landnotkun, sem aðalega stafar af losun frá framræstu votlendi sem fellur undir þennan flokk, binding innan flokksins kemur aðallega frá fyrrnefndum landgræðslusvæðum. Losun árið 2024 var um 4,86 milljón tonn CO2-íg en árið áður var hún 4,87 milljón tonn CO2-íg. Í ljósi umbóta á losunarbókhaldi landnotkunar hafa töluverðar breytingar orðið á losun vegna landnotkunar samanborið við eldri gögn. Um er að ræða breytingu til mikillar lækkunar á losun frá mólendi og votlendi fyrir öll ár tímalínunnar. Í stuttu máli felast breytingarnar annars vegar í því að nú er losun og binding á beitilöndum í úthögum og afréttum metin eftir ástandi lands og hins vegar í því að nú er ekki lengur talin fram losun frá ósnortnu votlendi ef engin breyting hefur orðið á vatnsyfirborði. Stöðugt er unnið að umbótum á losunarbókhaldinu til að auka nákvæmni þess og þessi breyting er liður í því. 


Bráðabirgðatölur og umbætur

Bráðabirgðatölur Umhverfis- og orkustofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi sem skilað er til ESB í júlí ár hvert hafa sögulega gefið góða vísbendingu um hvernig losunin er að þróast. Tölurnar gætu tekið einhverjum breytingum fram að lokaskilum í apríl 2026. Síðustu lokaskil voru í apríl 2025 og má finna ítarlega samantekt á þeim gögnum í vefsamantekt um losun gróðurhúsalofttegunda. Umhverfis- og orkustofnun mun birta nýjustu gögn hér þegar þeim er næst skilað til ESB.

Sífellt er unnið að endurbótum á losunarbókhaldi Íslands til að auka gæði og áreiðanleika gagnanna og einnig er bókhaldið rýnt reglulega af sérfræðingum ESB og UNFCCC. Þetta gerir það að verkum að reglulega eru gerðar breytingar á losunartölum með það að markmiði að auka nákvæmni bókhaldsins.