Rjúpa

STJÓRNUNAR- OG VERNDARÁÆTLUN FYRIR RJÚPNASTOFNINN

Mynd: Karlfugl í apríl / Ólafur K. Nielsen

Veiðitímabil 2024

Umhverfisstofnun hefur sent inn veiðistjórnunartillögur fyrir rjúpu árið 2024 til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og lagt til að veiðar verði með eftirfarandi hætti.

Tímabilið hefjist föstudaginn 25. október. Veiðar verði frá og með föstudögum til og með þriðjudögum. 
Veiðidagar eru heilir og skiptast þannig niður eftir landshlutum:

Austurland: 45* (25. okt – 22. des) 
Norðausturland: 20 (25. okt – 19. nóv)
Norðvesturland: 20 (25. okt – 19. nóv)
Suðurland: 20 (25. okt – 19. nóv)
Vesturland: 20 (25. okt – 19. nóv)
Vestfirðir: 25 (25. okt – 26. nóv)
* 43 veiðidagar þar sem lög 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum kveða á um að rjúpa sé ekki veidd eftir 22. desember

Tillögurnar í heild sinni má lesa hér.

Vísað er til stofnmats Dr. Fred Johnsons og draga nýrrar stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpu til rökstuðnings þessara tillaga. Drög að stjórnunar- og verndaráætluninni má finna hér neðar á síðunni.

Stofnmat Dr. Fred Johnson á rjúpu haustið 2024.

Minnt er á að sölubann er á rjúpu. Veiðar eru áfram óheimilar á Reykjanesi (Landnám Ingólfs) en ráðuneytið hefur þó farið þess á leit við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun að leggja mat á afnám friðunar á því svæði.

Hægt er að senda inn athugasemdir varðandi tillögurnar til og með 19. júlí með því að smella á bláa hnappinn hér að neðan. Þau sem hyggjast gera slíkt eru hvött til þess að kynna sér stjórnunar- og verndaráætlunina áður en spurningar eru sendar inn þar sem hún útskýrir fasta stjórnþætti og aðferðafræði við ákvarðanatöku á lengd veiðitímabils.

 

Drög að nýrri stjórnunar- og verndaráætlun

Drög að nýrri stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu er nú í kynningu. Skoða drögin

Rafrænn kynningarfundur 10. júní 2024

Umhverfisstofnun hélt opinn rafrænan kynningarfund vegna nýrrar stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpu. 

Á fundinum var fjallað um nýja stjórnunar- og verndaráætlun fyrir rjúpu og nýtt kerfi veiðistjórnunar sem felur meðal annars í sér svæðisbundna veiðistjórnun, ný stofnlíkön og fleira. 

 Fyrir svörum í lok fundars sátu fulltrúar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar, SKOTVÍS og Fuglaverndar ásamt  Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð.

Upptaka af fundinum:

 

Glærur frá fundinum

Stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu: Samantekt 

Stjórnunar- og verndaráætlanir byggja á lögum um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Stjórnunar- og verndaráætlunin er stjórntæki þar sem lögð er fram stefnumótun til næstu ára ásamt aðgerðum til að ná fram markmiðum áætlunarinnar.  

Rjúpa (Lagopus muta) er eftirsóttasta veiðibráð á Íslandi en árlega ganga að jafnaði fjögur til fimm þúsund manns til rjúpna. Hún hefur verið nýtt frá landnámi, áður fyrr til sjálfsþurftar og tekjuöflunar en síðar meir til sportveiða. Rjúpnaveiðar eru því hluti af menningu Íslendinga, bæði veiðin sem slík ásamt því að rjúpnasteik er algeng á borðum Íslendinga um hátíðarnar.  

Tegundin í yfirvofandi hættu

Vísbendingar eru um að til lengri tíma litið hafi rjúpnastofn landsins minnkað og er tegundin á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands sem tegund í yfirvofandi hættu. Að stofninum steðja ýmsar ólíkar ógnir, en þær helstu eru loftslagsbreytingar, skógrækt, landbreyting og veiði. Þessar ógnir eru flestar þess eðlis að erfitt er að stýra þeim og fylgjast með áhrifum þeirra án þess að áherslum í vöktun verði breytt eða aukið fjármagn verði sett í slíka vöktun. Veiði er áhrifaþáttur sem hægt er að stýra og snýr áætlun þessi að veiðistjórnun. Nauðsynlegt er að standa vörð um sjálfbærni rjúpnanytja og er útgáfa stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpu því mikilvægur liður í því ferli.

Aðkoma ólíkra hagsmunaaðila

Í áætluninni er nýtt kerfi veiðistjórnunar kynnt, sagt er frá þróuninni og hugmyndavinnunni á bak við það og aðferðafræði þess útskýrð. Tilgangur þessa nýja kerfis er að hámarka virði rjúpnastofnsins til lengri tíma sem veiðibráðar, lykiltegundar í sínu vistkerfi og yndisauka í íslenskri náttúru.

Markmiðið með vinnu áætlunarinnar er enn fremur að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika veiðistjórnunarkerfisins svo traust ríki á milli opinberra stofnana, hagsmunaaðila og almennings. Í áætluninni er sú undirbúningsvinna sem var unnin til þess að tryggja þessi markmið útlistuð nánar.

Verkefnið var unnið af vinnuhópi sem leiddur var af Umhverfisstofnun og Dr. Fred A. Johnson, bandarískum sérfræðingi í veiðistjórnun og stofnlíkanagerð. Vinnuhópurinn samanstóð af fulltrúum frá:

  • Umhverfisstofnun
  • Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
  • Náttúrufræðistofnun Íslands
  • SKOTVÍS 
  • Fuglavernd

Líkt og gefur að skilja þegar margir aðilar með ólíka hagsmuni koma saman er ekki alltaf einrómur um forgangsröðun ákveðinna þátta eða gilda, svo leitast var eftir því að þróa veiðistjórnunarkerfi sem allir aðilar gátu unað vel við þó hver og einn fengi ekki allar sínar óskir uppfylltar. Ákvörðun var tekin um að nota veiðistjórnunarmarkmið sem eiga að koma í veg fyrir meiriháttar breytingar á stofnstærð rjúpu miðað við stærð stofnsins á árunum 2005-2023.

Helstu þættir nýja veiðistjórnunarkerfisins

  1) Veiðistjórnun á rjúpu verður svæðisskipt 

Landinu verður skipt upp í sex veiðisvæði í stað þess að nota landið í heild sem eitt veiðisvæði líkt og hefur verið gert hingað til. Rjúpan er útbreidd um allt land en fjöldi hennar er mismunandi eftir staðsetningu. Með svæðisbundinni veiðistjórnun er auðveldara að ná því markmiði stjórnunar- og verndaráætlunar um að viðhalda ákjósanlegri verndarstöðu rjúpunnar en jafnframt standa vörð um sjálfbærar veiðar úr stofninum. ;

  2) Lengd veiðitímabils verður 0-45 dagar á hverju svæði 

Hvert veiðisvæði fær fjölda veiðidaga í samræmi við ástand stofnsins á svæðinu. Veiðitímabilið getur verið 0–45 daga langt, hlaupandi á fimm dögum (0, 5, 10, 15 dagar o.s.frv.). Veiðitímabilið hefst fyrsta föstudag á eða eftir 20. október og veitt verður fimm daga vikunnar, föstudag til þriðjudags. 

  3) Ný samþætt stofnlíkön verða tekin til notkunar 

Samþætt stofnlíkön, þróuð af Dr. Fred Johnson, verða notuð til þess að reikna út í hversu marga daga má veiða á hverju veiðisvæði. Líkönin eru þó ekki alvaldar sem fylgt er í einu og öllu, heldur eru niðurstöður þeirra notaðar til þess að taka ákvarðanir. Líkönin byggja á gögnum úr vöktun Náttúrufræðistofnunar Íslands og á veiðigögnum Umhverfisstofnunar.

  4) Aðlögunarveiðistjórnun verður notuð til þess að auka nákvæmni frá ári til árs 

Aðlögunarveiðistjórnun er mikilvægur þáttur í því að besta virkni stofnlíkana og að stuðla að sjálfbærum veiðum úr rjúpnastofninum. Aðlögunarveiðistjórnun þýðir í raun að líkönin eru uppfærð frá ári til árs út frá fyrri ákvörðunum og niðurstöðum og gerir þeim þáttum sem hafa sögu um hátt spágildi hærra undir höfði og öfugt fyrir þá sem hafa lægra spágildi. Með aðlögunarstjórnun er því hægt að taka betri, upplýstari og nákvæmari ákvarðanir á hverju ári.

  5) Neyðarlokanir vegna viðkomubrests 

Veiðitímabil verða ákveðin út frá stofnlíkönum að vori miðað við áætlaða viðkomu vorstofns en ef viðkomubrestur verður á veiðisvæði þarf að vera mögulegt að endurskoða lengd veiðitímabils síðar um sumarið. Mat á viðkomubresti er háð ungatalningum eins og er en eftir því sem fram líða stundir verður vonandi hægt með meiri gögnum að nýta fylgni veðurfars og viðkomu til þess að spara tíma og fjármagn í þessari ákvarðanatöku.

Á heildina litið hefur því verið reynt að hanna veiðistjórnunarkerfi sem ólíkir hagsmunaaðilar geta sammælst um og sem hefur eins fáa óvissuþætti og hægt er. Með því að fækka óvissuþáttum má ætla að ákvarðanataka verða hlutlausari, fyrirsjáanlegri og fljótlegri, enda kerfið orðið gegnsærra og sjálfvirkara. Veiðistjórnunarkerfið byggist á sterkum vísindalegum grunni og aðferðafræði ásamt þekkingu og áliti aðila sem hafa mismunandi sjónarhorn á málið. Þetta kerfi tryggir stöðu rjúpnastofnsins til lengri tíma sem veiðibráðar, lykiltegundar í sínu vistkerfi og yndisauka í íslenskri náttúru.

Drög að stjórnunar- og verndaráætlun verða birt á vef Umhverfisstofnunar á næstunni. 

Um rjúpu

Rjúpa (Lagopus muta) er hænsnafugl (Galliformes) af undirætt orrafugla (Tetraoninae) og er útbreiddur varpfugl um land allt. Hún verpir að mestu á láglendi í móum og graslendi en í september heldur hún til fjalla þar til tekur að snjóa á láglendi. Þá færir hún sig aftur neðar og heldur sig fyrir ofan snjólínu. 

Rjúpan er jurtaæta og étur laufblöð, blóm, ber, fræ, æxlilauka, rekla, brum og sprota. Rjúpur verða kynþroska ársgamlar, frjósemi er mikil og hver kvenfugl verpir að jafnaði 11–12 eggjum. Afföll eru hins vegar hröð og hjá fyrsta árs fuglum eru þau 80–90% og 40–80% hjá eldri fuglum. Til lengri tíma hefur rjúpnastofninum hrakað, en veiði hefur þó minnkað síðan rjúpan var friðuð á árunum 2003 og 2004. 

Rjúpan er vinsælasta veiðibráð á Íslandi og hefur verið nýtt allt frá landsnámi. Rjúpnaveiðar eru hluti af menningu þjóðarinnar, bæði veiðin sem slík ásamt því að rjúpnasteik og ilmurinn af henni eru ómissandi hluti jólahátíðarinnar hjá mörgum Íslendingum.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veita Bjarni Jónasson bjarnij@ust.is og Freyja Pétursdóttir freyjap@ust.is eða í síma 591-2000.

Mynd: Kvenfugl í apríl / Ólafur K. Nielsen