Góð ráð um rétta notkun plöntuverndarvara

 

1. Veldu áhættulitla plöntuverndarvöru 

Þegar kemur að því að velja plöntuverndarvöru til að bregðast við einhverjum vanda er vert að benda á þann valkost að nota vörur sem hafa sem minnst neikvæð áhrif á náttúruna. Á markaðnum eru vörur sem aðeins innihalda náttúruleg virk efni, svo sem pýretrín, sápur eða olíur sem brotna tiltölulega hratt niður í náttúrunni og valda því lágmarksskaða á umhverfinu.

2. Veldu plöntuverndarvöru sem er tilbúin til notkunar

Plöntuverndarvörur geta verið á ýmsu formi svo sem úðablöndur tilbúnar til nokunar, fljótandi þykkni til blöndunar, duft, kyrni o.fl. Með því að velja vörur sem eru tilbúnar til notkunar þarft þú ekkert að gera nema að nota vöruna á réttan hátt. Þannig er hægt að minnka áhættu sem getur skapast ef blanda þarf plöntuverndarvöru fyrir notkun. Má þar nefna að minni líkur verða á því að óþynnt efnablanda hellist út í umhverfið og minni líkur verða á því að þú komist í snertingu við efnablönduna.

3. Fylgdu leiðbeiningum á merkimiða

Mikilvægt er að fylgja nákvæmlega leiðbeiningum um blöndun og meðferð plöntuverndarvara, ekki síst vegna gróðursins sjálfs. Sé notuð of sterk blanda eða úðað í mikilli sól getur það valdið því að blöðin á plöntunum sviðna og skemmast. Á hinn bóginn getur það gerst að úðun beri ekki tilætlaðan árangur gegn skaðvaldinum ef notuð er of dauf blanda eða úðað í rigningu.

4. Virtu uppskerufrestinn

Þegar plöntuverndarvöru er dreift eða úðað yfir matjurtir þarf að líða ákveðinn tími frá því að efnið er notað þangað til óhætt er að uppskera og neyta afurðanna. Þetta er gert til þess að efnin nái að brotna niður og ekki verði til staðar leifar af þeim í matnum sem við neytum. Ef við virðum uppskerufrestinn og fylgjum í hvívetna leiðbeiningum um notkun plöntuverndarvara á okkur ekki að vera nein hætta búin.

5. Geymdu plöntuverndarvöru á réttan hátt

Mikilvægt er að geyma plöntuverndarvörur alltaf á tryggan hátt þar sem börn eða dýr ná ekki til og að þær séu aðskildar frá matvælum, dýrafóðri, lyfjum og snyrtivörum. Ef þörf er á að blanda plöntuverndarvöru fyrir noktun skal geyma hana í læstum skáp eða rými. Plöntuverndarvörur eiga alltaf að vera geymdar í upprunalegum umbúðum til þess að fyrirbyggja slys eða að þær verði notaðar í öðrum tilgangi. Plöntuverndarvörur geymast eingöngu í tiltekin tíma og á umbúðum varanna kemur fram fyrningardagsetning sem segir til um hvenær ætti að vera búið að nota vöruna. Ef komið er fram yfir þessa dagsetningu er ekki fullvíst að varan hafi tilætlaða virkni og að notkun hennar beri árangur.

Stöndum vörð um umhverfið, notum plöntuverndarvörur á réttan hátt og aldrei að óþörfu.