Hvað getum við gert?

Flestir nota margar snyrtivörur á hverjum degi. En það þarf að vanda valið því ýmsar snyrtivörur innihalda efni sem geta haft skaðleg áhrif á heilsu og umhverfi. Þetta eru t.d. rotvarnarefni, ilmefni, litarefni eða önnur efni sem geta valdið ofnæmi.

Helstu ofnæmisvaldarnir eru rotvarnar- og ilmefni og ættu viðkvæmir að forðast þau. Framleiðendur snyrtivara eru skyldugir að gefa upp innihaldsefni á umbúðunum.

Hér þurfum við líka sérstaklega að minnast á hárlitunarefni, en bæði fastir litir og skollitir geta valdið ofnæmi eða haft önnur neikvæð áhrif á heilsu. Hver kannast ekki við yfirgnæfandi efnalyktina á hársnyrtistofum?

Nokkur góð ráð:

  1. Dragðu úr notkun snyrtivara eins og hægt er.
  2. Veldu umhverfisvottaðar vörur, t.d. með Svaninum eða Evrópublóminu,án ilmefna. Þær taka bæði tillit til heilsu og umhverfis og standast strangar kröfur um efnainnihald. Þegar vottaðar vörur eru keyptar þarf ekki að hafa áhyggjur af því að þær innihaldi rotvarnarefni, ofnæmisvaka, efni sem geta verið hormónaraskandi eða séu ekki ákjósanleg í náttúrunni.
  3. Kauptu vörur (t.d. sápur) í stærri umbúðum og fylltu á minni umbúðir sem þú átt fyrir. Einnig er hægt að draga úr umbúðanotkun með því að kaupa handsápu í stykkjum en ekki fljótandi. Hjá sumum hársnyrtistofum er t.d. hægt að koma með gamla sjampóbrúsann og fá áfyllingu.
  4. Hægt er að kaupa margnota bómullarskífur til að hreinsa farða af í stað einnota.
  5. Veldu hársnyrtistofu sem notar náttúrulegri liti og síður skaðlega umhverfi og heilsu fólks.
  6. Hvattu hárgreiðslustofuna þína til að nota umhverfisvænni liti.
  7. Takmarkaðu notkun slíkra vara fyrir börn og notaðu eingöngu umhverfisvottaðar vörur.