Útivist og gönguleiðir

Kerlingarfjöll hafa um árabil verið einn vinsælasti áfangastaður innlendra sem erlendra ferðamanna á hálendinu. Á síðustu öld var um áratugaskeið stunduð mikil skíðamennska í Kerlingarfjöllum en sú hefð hefur að mestu lagst af með hlýnandi veðurfari. Þó er hægt að renna sér á fjallaskíðum fram eftir sumri. Um svæðið liggja fjölmargar gönguleiðir þar sem virða má fyrir sér stórbrotið landslag, upplifa óskerta öræfaupplifun og ganga um eitt fjölbreyttasta hverasvæði landsins. 

Í bestu skilyrðum sést frá hæstu toppum til Vestmannaeyja í suðri og fjallstoppa á Ströndum í norðri. Þegar gengið er í Kerlingarfjöllum verður að hafa í huga að svæðið er allt mjög hálentveður getur breyst skyndilega og algengt er að það snjói á hæstu tindum í öllum mánuðum ársins. Allur útbúnaður skal ávallt taka mið af því. Símasamband er víða gott en ekkert samband er í flestum lægðum og hvilftum, m.a. við jarðhitasvæðið í Hveradölum. 

Umhverfisstofnun hefur gefið út göngubækling með átta gönguleiðum um Kerlingarfjöll þar sem leiðirnar hafa allar verið flokkaðar eftir þremur erfiðleikastigum. Allir ættu því að geta fundið göngu við sitt hæfi.