Framandi lífverur

Óheimilt er að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Nánari upplýsingar um innflutning lifandi framandi lífvera mér nálgast hér.

Í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 eru framandi lífverur skilgreindar sem tegund eða lægri flokkunareining, svo sem afbrigði, kyn eða stofn, þ.m.t. lífhlutar, kynfrumur, fræ, egg eða lægri dreifingarform sem geta lifað af og fjölgað sér, sem menn hafa flutt vísvitandi eða óvitandi út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði.

Skilgreiningin aðgreinir lífverur á náttúrulegu útbreiðslusvæði sínu frá þeim sem menn hafa flutt inn til landsins eða fært til innan landsins en er ekki afmörkuð í tíma. Í ýmsum skrám yfir íslenskar tegundir er í þessu samhengi miðað við hvaða tegundir voru á landinu um miðja 18. öld en slíkt tímaviðmið var talið hafa það í för með sér að tegundir sem komu til landsins fyrir þann tíma hefðu ekki flokkast sem framandi þrátt fyrir að hafa komið sannanlega til landsins fyrir tilstuðlan manna. Útgangspunkturinn við mat á því hvort lífvera teljist framandi er því ávallt sá að maðurinn hafi flutt lífveruna út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði vísvitandi eða óvitandi.