Brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti

Við brennslu á fljótandi jarðefnaeldsneyti berst brennisteinsdíoxíð út í andrúmsloftið og veldur mengun. Þar vegur brennsla skipa þungt og gilda strangar reglur hér á landi um leyfilegan hámarksstyrk brennisteins í fljótandi eldsneyti. Ákvæði um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti er að finna í nýlegri reglugerð nr. 124/2015, sem gildir um brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti, skipadíselolíu, skipagasolíu, svartolíu og gasolíu hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands.

Í reglugerðinni er tilgreindur leyfilegur hámarksstyrkur brennisteins í skipaeldsneyti, skipadísilolíu, skipagasolíu, svartolíu í brennslustöðvum og gasolíu. Þá eru ákvæði um skyldur skipstjóra og skipaeldsneytisbirgja, um skip sem liggja við bryggju og viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun. Helstu nýmælin eru hertar kröfur um hámarksstyrk brennisteins og er nú m.a. gerð krafa til skipa sem liggja við bryggjur landsins að þau noti rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis eftir því sem kostur er. Sé ekki möguleiki á að nota rafmagn úr landi skal nota skipaeldsneyti með að hámarki 0,1% brennisteinsinnihaldi. Eins og áður er ákvæði sem heimilar öllum skipum að nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun í stað þess að nota eldsneyti sem uppfyllir ákvæði um hámarksstyrk brennisteins. 

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar en þó hefur Samgöngustofa eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna. Til að hafa eftirlit með brennisteinsinnihaldi skipaeldsneytis er Umhverfisstofnun eða aðilum í umboði hennar, heimilt að taka sýni úr skipum, tönkum og olíubirgðastöðvum, til nánari greiningar eða fá upplýsingar frá rannsóknastofu sem skipaeldsneytisbirgir vísar til. Einnig er Umhverfisstofnun heimill aðgangur að olíudagbókum skipa og kvittunum frá söluaðila olíu þar sem fram koma upplýsingar um brennisteinsinnihald skipaeldsneytis. 

Reglugerð nr. 124/2015 innleiðir ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2012/33/ESB um breytingu á tilskipun ráðsins 99/32/EB um að draga úr magni brennisteins í tilteknum tegundum fljótandi eldsneytis.

Ákvæði um brennisteinsinnihald í bensíni, dísileldsneyti og gasolíu til ýmissa nota annarra en greint er frá hér að framan er að finna í reglugerð nr. 960/2016 um gæði eldsneytis.