Fjallabaksleið nyrðri (F208), liggur á milli Lands og Skaftártungu, í gegnum Friðland að Fjallabaki. Landmannaleið (F225) liggur frá veg 26 áleiðis í Landmannahelli um Dómadal og tengist inn á veg 208 við Frostastaðavat. Sigölduleið (208) liggur frá Sprengisandsvegi (F26) í Landmannalaugar.
Óvíða er land viðkvæmara fyrir skemmdum vegna umferðar en hér og er því sérstaklega beint til ökumanna að kynna sér ástand vega áður en lagt er upp í ferð um friðlandið og aka alls ekki út fyrir þá vegi sem sýndir eru á korti.
Veðurfar
Meðalárshiti í Friðlandi að Fjallabaki er líklega 0-1 °C. Júlí er hlýjasti mánuður ársins og er meðalhiti hans 7-8 °C. Meðalhiti köldustu mánaðanna, janúar og febrúar, er hins vegar um ÷ 6 °C. Rétt er að hafa hugfast að meðalhiti einstakra mánaða er ákaflega breytilegur frá ári til árs. Vetraraðstæður með frosti geta komið hvenær ársins sem er. Við Torfajölkul, í suðausturhorni friðlandsins, er ársúrkoma sennilega á bilinu 2 - 3 þús. mm en minnkar síðan ört til norðurs og norðvesturs og er líklega komin niður í um þúsund mm í nyrsta hluta firðlandsins.
Tjaldsvæði innan Friðlandsins eru í Landmannalaugum, Landmannahelli og í Hrafntinnuskeri. Skálar Ferðafélags Íslands eru í Landmannalaugum og í Hrafntinnuskeri og Hellismenn eru með skála við Landmannahelli. Skálavarsla er í þeim öllum yfir sumartímann.
Nánari upplýsingar um þjónustu og bókun gistingar:
Landverðir eru að störfum í friðlandinu yfir sumartímann og fram eftir hausti. Þeir eru til staðar til að fræða og upplýsa gesti um friðlandið og leiðbeina um góðar gönguleiðir.