Smiðja Gests Oddleifssonar

Í Smiðjukleifum, við Þingmannaá í Vatnsfirði, er að finna rúst af smiðju sem kennd er við Gest Oddleifsson. Gestur, kallaður hinn spaki, bjó í Haga á Barðaströnd síðla á 10. og í upphafi 11. aldar. Gestur var talinn mikill vitringur og er víða nefndur í fornsögum, m.a. í Króka-Refs sögu, Njálu, Gíslasögu Súrsonar  og Laxdælu. Munnmæli herma að hann hafi átt rauðasmiðju sína á þessum stað, þ.e. brætt þar mýrarrauða til járngerðar. Tóftin var könnuð seint á 19. öld og staðfest að rústin er forn smiðja. Þar fundust ummerki um járngerð sem og hleðslur af afli. Einnig fundust tveir steinar, annar með gati fyrir steðja. Hægt er að sjá báða þessa steina við tóftina.  Árið 1859 fannst í þessari smiðjutóft forn sleggjuhaus, svokölluð reksleggja, sem nú er á Þjóðminjasafninu. Ekki var hægt að segja til um aldur sleggjunnar, en hún er greinilega forn. Ekki langt frá smiðjunni voru rústir af fornu býli sem kallað var Smiðjumýrar, lengi sáust rústir bæjarins og útihúsa en í dag eru þær kommar undir kjarr.