Kræklingur

Kræklingur hentar vel til að vakta mengun sjávar við strendur landsins. Árleg vöktun á ýmsum ólífrænum snefilefnum og klórlífrænum efnum í kræklingi hófst á Íslandi árið 1989, en síðustu ár hafa fjölhringa kolvatnsefni (PAH efni) einnig verið mæld í kræklingnum. Sýnum af kræklingi er safnað á haustin á 8 til 11 stöðum í kringum landið. Hafrannsóknastofnun sá um sýnatökur til ársins 2016, en þá tók Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum við umsjón með sýnatökunum. Matís hefur séð um efnagreiningar og að skila niðurstöðum þeirra í gagnagrunn ICES. 

Vöktunin gefur mikilvægar upplýsingar um ástand sjávar með tilliti til ýmissa efna og jafnframt fást niðurstöður sem hægt er að bera saman og þá fylgjast með breytingum innan og milli staða yfir tíma. Niðurstöður vöktunarinnar hafa leitt í ljós talsverðar sveiflur á milli ára í styrk nokkurra efna, bæði náttúrulegar sveiflur og af mannavöldum, en heilt yfir má telja ástand sjávar gott hér við land með tilliti til mengandi efna. Kadmín er þó víða hátt í íslenskum kræklingi samanborið við krækling frá öðrum löndum en það má að líkindum rekja til eldvirkni landsins. Myndin hér fyrir neðan sýnir styrk kadmíns í kræklingi frá 8 stöðum við landið árin 2016 til 2021.

Rauða línan sýnir neysluviðmið kræklings (m.v.20% þurrefni kræklings). Þrjár stöðvar (Mjóifjörður Botn, Mjóifjörður Brekka og Skötufjörður) hafa farið yfir þau viðmið og því er kræklingur frá þeim stöðvum ekki talinn hæfur til neyslu.