Staða losunar á Íslandi 2023


Lykiltölur

Í þessari samantekt er fjallað um sögulega (1990-2023) og framreiknaða losun (2024-2055) gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

Skýrslur um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi eru aðgengilegar hér.
Ítarlegri talnagögnum má hlaða niður hér.

Þessi samantekt er einnig aðgengileg í PDF útgáfu.

  • 12,6 milljón tonn
    Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi var 12,6 milljón tonn af CO2-ígildum (CO2-íg.) árið 2023 og hefur aukist um 6,6% frá árinu 1990. Losun náði hámarki árið 2008 og hefur síðan þá dregist saman um 6,0%.
  • 4,65 milljón tonn
    Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi án landnotkunar var 4,65 milljón tonn af CO2-íg. árið 2023 og hefur aukist um 25% frá árinu 1990.
  • 2,81 milljón tonn
    Samfélagslosun Íslands var 2,81 milljón tonn af CO2-íg. árið 2023 og hefur dregist saman um 9,6% frá árinu 2005. 
  • 7,99 milljón tonn
    Losun frá landnotkun var 7,99 milljón tonn CO2-íg. árið 2023 og hefur verið frekar stöðug milli ára.
  • 1,81 milljón tonn
    Losun frá staðbundnum iðnaði innan viðskiptakerfisins (ETS) á Íslandi var 1,81 milljón tonn CO2-íg. árið 2023 sem 3,3% samdráttur frá árinu 2022 en 113% aukning frá árinu 2005. Samdráttur hefur engu að síður átt sér stað í kerfinu í heild.

 


Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi var 12,6 milljón tonn af CO2-ígildum (CO2-íg.) árið 2023 og hefur aukist um 6,6% frá árinu 1990. Losun náði hámarki árið 2008 og hefur dregist nokkuð saman síðan. Til lengri tíma má reikna með samdrætti í losun á Íslandi. Reiknað er með að heildarlosun Íslands verði komin niður fyrir 11 milljón tonn CO2-íg. í kringum 2040 og niður fyrir 10 milljón tonn CO2-íg. fyrir 2050. Helstu áhrifaþættir á samdrátt yfir spátímabilið eru aukin binding í skógrækt og útfösun jarðefnaeldsneyta.


 

 Myndræn framsetning á sögulegri losun Íslands og hvernig hún gæti þróast til framtíðar. Mynd eftir Fífu Jónsdóttur (Land og skógur).

 


Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi skiptist í losun vegna orku, iðnaðar og vörunotkunar, landbúnaðar, landnotkunar og úrgangs. Viðtekin venja er að tala um heildarlosun án alþjóðasamgangna en ýmist með eða án losunar vegna landnotkunar. Þetta er vegna sérstöðu þessara tveggja flokka í samhengi skuldbindinga og ábyrgðar ríkja á þeim.

Til eru tvær sviðsmyndir fyrir framreiknaða losun og byggja þær á mismunandi forsendum. Annars vegar er það sviðsmynd með núgildandi aðgerðum (e. With Existing Measures scenario; WEM) sem tekur til greina aðgerðir úr aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá 2024 sem eru í framkvæmd eða samþykktar. Hins vegar er það sviðsmynd með viðbótaraðgerðum (e. With Additional Measures scenario; WAM), þá bætast fyrirhugaðar aðgerðir við. Fyrirhugaðar aðgerðir eru aðgerðir sem eru til umræðu og eiga raunhæfan möguleika á að verða samþykktar og framkvæmdar. Aðgerðir á hugmyndastigi og loftlagsverkefni voru ekki tekin til greina í sviðsmyndum.

 

 

 Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi 1990-2055. Dekkra svæðið táknar sögulega losun og ljósara svæðið táknar framreiknaða losun samkvæmt sviðmynd með viðbótaraðgerðum.




 

Ísland er aðili að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (e. United Nation Framework Convention on Climate Change; UNFCCC) og hefur fullgilt Parísarsamninginn. Útfærsla skuldbindinga í loftslagsmálum hér á landi tekur mið af alþjóðlegu og evrópsku regluverki.  

Losun Íslands má almennt skipta í þrjá meginflokka þegar hún er skoðuð út frá skuldbindingum gagnvart ESB. Flokkarnir eru samfélagslosun (e. Effort Sharing Regulation; ESR), landnotkun (e. Land Use, Land-Use Change and Forestry; LULUCF) og losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (e. EU Emissions Trading System; EU ETS; ETS-kerfi).

  • Samfélagslosun inniheldur aðallega losun frá vegasamgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, jarðvarmavirkjunum, vörunotkun og úrgangi.
  • Undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir fellur losun frá stóriðju, flugi og skipaflutningum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
  • Losun frá landnotkun á við um alla losun og bindingu vegna hvers konar landnotkunar.

 

 

 

 

Alþjóðlegar skuldbindingar

Markmið ESB fyrir árið 2030, samkvæmt áðurnefndum meginflokkum, eru eftirfarandi:

  • Að draga úr losun frá uppsprettum sem falla undir samfélagslosun ríkjanna um 40% miðað við losun ársins 2005. Hvert ríki fær sér hlutdeildarmarkmið um samdrátt í losun.
  • Að ná 310 milljón tonna nettóbindingu frá uppsprettum sem flokkast undir landnotkun. Hvert ríki fær sér hlutdeildarmarkmið um samdrátt í  losun eða aukningu í bindingu.
  • Að draga úr losun frá uppsprettum sem falla undir viðskiptakerfið (ETS) um 62% miðað við losun ársins 2005.

Hlutdeildarmarkmið fyrir samfélagslosun Íslands hefur ekki verið staðfest en talið er líklegt að það feli í sér samdrátt í samfélagslosun um 41% árið 2030 miðað við losun árið 2005. Núverandi markmið um samdrátt í samfélagslosun er 29% árið 2030. Ekki liggur fyrir hvert hlutdeildarmarkmið Íslands fyrir uppfært landnotkunarmarkmið ESB verður en núverandi markmið er að nettólosun aukist ekki miðað við tiltekin viðmiðunartímabil.

Það markmið sem snýr að viðskiptakerfinu er samevrópskt og því er ekki gert ráð fyrir að einstök ríki fái samdráttarmarkmið innan kerfisins, heldur er kerfinu í heild ætlað að ná fram þessum samdrætti fyrir árið 2030. Fyrir losun og bindingu innan landnotkunar og samfélagslosunar fá ríkin hins vegar úthlutað hlutdeildarmarkmiði sem endurspeglar stöðu og getu ríkjanna til samdráttar.

Fyrir utan alþjóðlegar skuldbindingar hefur Ísland einnig lögfest landsmarkmið um að ná kolefnishlutleysi árið 2040.

Skil Umhverfis- og orkustofnunar

Árlega skilar Umhverfis- og orkustofnun landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda (e. National Inventory Report; NIR) til ESB og UNFCCC. Skýrslan inniheldur losunarbókhald yfir sögulega losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti á Íslandi. Skýrslurnar sýna losun frá árinu 1990 til þarsíðasta árs. Í landsskýrslunum eru útreikningar fyrri ára einnig uppfærðir miðað við nýjustu þekkingu.

Annað hvert ár skilar stofnunin einnig skýrslu og upplýsingum um stefnur, aðgerðir og framreiknaða losun (e. Report on Policies and Measures and Projections) til ESB fyrir hönd Íslands.

Skýrslurnar tvær eru unnar í nánu samstarfi við sérfræðinga Lands og skógar sem ber ábyrgð á landnotkunarhluta losunarbókhaldsins.

Skýrslurnar eru aðgengilegar á vefsíðu Umhverfis- og orkustofnunar.



 

Samfélagslosun Íslands inniheldur aðallega losun frá vegasamgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, úrgangi, jarðvarmavirkjunum og vörunotkun. Árið 2023 var samfélagslosun 2,81 milljón tonn CO2-íg. og er það 22% af heildarlosun Íslands (með landnotkun) . Umfangsmestu losunarflokkarnir innan samfélagslosunar eru vegasamgöngur, landbúnaður og fiskiskip, en saman telja þeir 75% af samfélagslosun Íslands.

  • Milli áranna 2022 og 2023 dróst samfélagslosun Íslands saman um 2,5%.
  • Samfélagslosun hefur dregist saman um 9,6% frá árinu 2005.
  • Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum verður líkleg hlutdeild Íslands, í skuldbindingum gagnvart ESB, að draga úr samfélagslosun um 41% árið 2030 miðað við árið 2005. Núgildandi markmið er 29%.
  • Til þess að mæta væntanlegum skuldbindingum um 41% samdrátt mun Ísland fá árlegar losunarúthlutanir. Bráðabirgðaútreikningar sýna að fyrir árið 2023 mun magn þeirra vera um 2,68 milljónir tonna CO2-íg. sem er minna en losun sama árs.
  • Framreikningar í samfélagslosun sýna áframhaldandi samdrátt í losun yfir spátímabilið 2024-2055.
  • Samkvæmt framreikningum, með tilliti til sveigjanleika milli skuldbindingakerfa, er ólíklegt að Ísland nái markmiðum í samfélagslosun. Því er nauðsynlegt að nýta öll þau tækifæri sem eru í boði til frekari aðgerða.
  • Við lok fyrsta tímabils Parísarsamningsins, árið 2030, er samdrátturinn áætlaður á bilinu 20-27% miðað við losun ársins 2005.
  • Samkvæmt sviðsmynd með núgildandi aðgerðum verður landbúnaður stærsti losunarflokkur innan samfélagslosunar við lok spátímabilsins árið 2055, með hlutdeild yfir 60%.

Í töflunni að neðan má sjá helstu breytingar í samfélagslosun Íslands milli áranna 2022 og 2023 skipt eftir undirflokkum.

LosunarflokkurBreytingÞús. tonn
CO2-íg.
%Skýring
FiskimjölsverksmiðjurSamdráttur-33-48%Minni eldsneytisnotkun
LandbúnaðurSamdráttur-20-2,8%Fækkun sauðfjár iog minni áburðarnotkun
Urðunn úrgangsSamdráttur-13-6,3%Betri flokkun, sérsöfnun lífræns úrgangs og minni urðun
Kælibúnaður (F-gös)Samdráttur-8,7-6,5%Umhverfisvænni kælimiðlar notaðir
VegasamgöngurSamdráttur-4,7-0,5%Minni eldsneytisnotkun
Vélar og tækiAukning+15+26%Aukin eldsneytisnotkun


 

  Samfélagslosun Íslands árið 2023 eftir helstu uppsprettum


 

 Söguleg samfélagslosun Íslands (2005-2023) ásamt samanburði milli sviðsmynda framreiknaða samfélagslosunar og losunarúthlutana sem Ísland fær í samræmi við áætlaða alþjóðlega skuldbindingu um 41% samdrátt í samfélagslosun. 


Vegasamgöngur (33%)

Losun frá vegasamgöngum nam 921 þús. tonnum CO2-íg. árið 2023.

  • Losun frá vegasamgöngum náði hápunkti árið 2018 og nam þá 977 þús. tonnum CO2-íg. en það var einnig metár í fjölda ferðamanna.
  • Með heimsfaraldri árið 2020 var losunin töluvert minni og nam þá 830 þús. tonnum CO2-íg. og jókst svo aftur upp í 926 þús. tonn CO2-íg. árið 2022.
  • Samdráttur varð í losun milli áranna 2022 og 2023 upp á 4,7 þús. tonn CO2-íg. og nemur það 146 þús. tonna CO2-íg. samdrætti frá árinu 2005.
  • Losun á hvert ökutæki hefur dregist saman um 12% undanfarin fimm ár.
  • Reiknað er með að losun frá vegasamgöngum dragist saman næstu árin vegna áframhaldandi orkuskipta og verði lítil sem engin árið 2055.
  • Spáð er um 8,4% hærri losun frá vegasamgöngum árið 2030 miðað við 2005 í sviðsmynd með núgildandi aðgerðum og 13% lægri losun í sviðsmynd með viðbótaraðgerðum.
  • Aðgerðirnar sem stuðla að minni losun í sviðsmynd með viðbótaraðgerðum snúa að því að flýta útfösun bensín- og dísilbifreiða og að stigvaxandi kröfu um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi.

Landbúnaður (25%)

Losun frá landbúnaði nam 692 þús. tonnum CO2-íg. árið 2023. Meginorsök samdráttar í losun frá landbúnaði er minnkuð áburðarnotkun og fækkun búfjár.

  • Stærstur hluti losunar frá landbúnaði er vegna sauðfjár- og nautgriparæktar, en iðragerjun og meðhöndlun búfjáráburðar í þeim greinum er uppspretta 46% losunar frá landbúnaði eða 322 þús. tonn CO2-íg.
  • Næst stærsti losunarþátturinn er hláturgaslosun frá framræstu landi, 29% af heildarlosun landbúnaðar eða 198 þús. tonn CO2-íg. Hlutdeild þessa flokks í losun frá landbúnaði meira en tvöfaldaðist frá síðustu samantekt með framkomu nýrra innlendra losunarstuðla árið 2024,
  • Hlutdeild áburðarnotkunar í heildarlosun landbúnaðar var 18% eða 126 þús. tonn CO2-íg.
  • Samdráttur í losun milli áranna 2022 og 2023 nam 20 þús. tonnum CO2-íg. sem skýrist að miklu leyti af fækkun sauðfjár og minni áburðarnotkun. Samdráttur frá 2005 nam 19 þús. tonnum CO2-íg.
  • Spáð er hægari samdrætti í losun frá landbúnaði en fyrir aðra flokka samfélagslosunar. Þetta gerir það að verkum að hlutdeild landbúnaðar í samfélagslosun eykst yfir spátímabilið og nær hún yfir 60% af samfélagslosun við lok spátímabilsins, árið 2055.
  • Spáð er um 5,0% lægri losun í landbúnaði árið 2030 miðað við árið 2005 í sviðsmynd með núgildandi aðgerðum og 7,1% miðað við sviðsmynd með viðbótaraðgerðum tengdum áburðarnotkun.
  • Áburðaraðgerðirnar í sviðsmyndinni með viðbótaraðgerðum snúa m.a. að meiri jarðvegssýnatöku, nýtingu tæknilegra lausna við áburðardreifingu og stuðningi til kölkunar, ræktunar niturbindandi tegunda og skjólbeltaræktunar til að draga úr áburðarþörf.

Fiskiskip (17%)

Losun frá fiskiskipum nam 485 þús. tonnum CO2-íg. árið 2023. Losun frá fiskiskipum er háð eldsneytisnotkun og hefur losunin haldist nánast óbreytt milli áranna 2022 og 2023.

  • Losun frá fiskiskipum hefur dregist saman um 35% eða 257 þús. tonn CO2-íg. milli 2005 og 2023.
    • Reiknað er með að losun frá fiskiskipum dragist saman næstu árin vegna áframhaldandi orkuskipta og aukinnar skilvirkni í veiðum.
    • Spáð er um 37% lægri losun frá fiskiskipum árið 2030 miðað við 2005 í sviðsmynd með núgildandi aðgerðum og 43% lægri losun í sviðsmynd með viðbótaraðgerðum.
  • Aðgerðin sem stuðlar að minni losun í sviðsmynd með viðbótaraðgerðum snýr að stigvaxandi kröfu um lágmarkshlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í eldsneyti sem er selt til skipa.

Úrgangur (8%)

Losun vegna úrgangs nam 233 þús. tonnum CO2-íg. árið 2023. Þar af voru 201 þús. tonn CO2-íg. vegna urðunar úrgangs.

  • Losun vegna urðunar úrgangs dróst saman um 6,3% á árinu 2023 og hefur dregist saman um 29% frá árinu 2005.
  • Heildarmagn úrgangs til urðunar hefur lækkað töluvert frá árinu 2018 og heldur áfram að lækka á árinu 2023. Mest munar þar um hve mikið urðun matarúrgangs hefur minnkað, bæði hvað magn varðar og losun. Samhliða hefur magn úrgangs í gasgerð aukist.
  • Samræmt flokkunarkerfi á landsvísu og sérsöfnun á lífrænum úrgangi hófst á árinu 2023 og mun það hafa stuðlað að þessari lækkun.
  • Reiknað er með að magn úrgangs til urðunar muni lækka verulega mikið á næsta uppgjörsári (2024) því útflutningur úrgangs hjá Sorpu til orkubrennslu erlendis hófst í lok árs 2023 og samhliða var gjaldskrá hækkuð.
  • Spáð er um 52% lægri losun frá úrgangi árið 2030 miðað við 2005 í sviðsmynd með núgildandi aðgerðum og 53% lægri losun í sviðsmynd með viðbótaraðgerðum.
  • Munurinn milli þessara sviðsmynda eykst síðar á spátímabilinu þar sem úrgangsaðgerðirnar í sviðsmyndinni með viðbótaraðgerðum hefjast ekki fyrr en á tímabilinu 2028-2030 og áhrifin því ekki komin að fullu fram fyrr en um 2035. Viðbótaraðgerðirnar snúa að banni við urðun alls lífræns úrgangs ásamt uppbyggingu líforkuvers og brennslustöðvar. Sviðsmyndin með núgildandi aðgerðum gerir hins vegar ráð fyrir áframhaldandi útflutningi úrgangs til brennslu erlendis.
 

 Samfélagslosun Íslands 1990-2055. Dekkra svæðið táknar sögulega losun og ljósara svæðið táknar framreiknaða losun samkvæmt sviðsmynd með viðbótaraðgerðum.




 

Losun og binding vegna landnotkunar skiptist í fimm undirflokka: Mólendi, ræktað land, votlendi, skóglendi og önnur losun (byggð og viðarvörur). Umfang losunar innan landnotkunarflokksins á Íslandi er að mörgu leyti frábrugðið losun og bindingu undir þessum flokki í öðrum ríkjum. Flest Evrópuríki hafa meiri bindingu en losun, þ.e. nettóbindingu, í landnotkunarflokknum en á Íslandi er losunin mun meiri en bindingin, þ.e. hér er nettólosun en ekki nettóbinding. Það má rekja m.a. til umfangsmikillar stærðar framræsts lands og smæð skóga á Íslandi í samanburði við önnur ríki.

  • Nettólosun sem fellur undir landnotkun var 7,99 milljón tonn CO2-íg. árið 2023 og er það um 63% af heildarlosun Íslands árið 2023.
  • Stærstu uppsprettur losunar vegna landnotkunar eru mólendi (74%), ræktað land (24%) og votlendi(8,8%).
  • Meirihluti losunar frá landnotkun stafar af framræstu votlendi og er sú losun talin fram bæði undir mólendi og ræktuðu landi eftir aðstæðum.
  • Losun frá landnotkun breytist lítið milli ára og stóð í stað milli 2022 og 2023. Frá 1990 hefur losunin dregist saman um 1,9%.
  • Nettóbinding kolefnis í skóglendi á Íslandi var um 554 þús. tonn CO2-íg. árið 2023 og hefur 19-faldast á árunum 1990-2023.
  • Binding vegna endurheimtar þurrlendis (landgræðslu og takmörkunar á beit) var um 662 þús. tonn CO2-íg. en losun frá þurrlendi er þó mun umfangsmeiri en bindingin vegna framræsingar votlendis. Samdráttur í losun vegna endurheimtar votlendis var um 26 þús. tonn CO2-íg.
  • Reikna má með samdrætti í losun frá landnotkun yfir spátímabilið 2024-2055, þá fyrst og fremst vegna vaxandi bindingar í skóglendi. Áætlað er að losun minnki um 1820 þús. tonn CO2-íg. eða um 22% milli 1990-2055 og 261 þús. tonn CO2-íg. milli 2005 og 2030.
  • Framreikningar fyrir losun frá landnotkun eru aðeins til í sviðsmynd með núgildandi aðgerðum.

Stefnt er að frekari úrbótum á losunarbókhaldinu á næstu árum sem munu draga enn frekar úr óvissu. Meðal verkefna sem eru í gangi eru mælingar á losun og bindingu í mólendi og votlendi, bæði óröskuðu og hnignuðu sem og mælingar í ræktarlandi. Þetta er hluti þeirra verkefna sem unnið er að samkvæmt umbótaáætlun.

Skuldbindingar í landnotkun

Útlit er fyrir að Ísland muni standast skuldbindingar sínar fyrir árin 2021-2023 þar sem árleg nettólosun áranna má ekki vera meiri en meðaltal nettólosunar á viðmiðunartímabilum. Það fer eftir landnotkunarflokkum hvernig losun og binding frá landnotkun telur gagnvart ESB skuldbindingum og eru uppgjörsreglurnar einnig ólíkar milli fyrra (2021-2025) og seinna (2026-2030) skuldbindingatímabils. Miðað við framreikninga mun Ísland líklega standast skuldbindingar fyrra tímabilsins. Ekki er enn ljóst hverjar skuldbindingar Íslands verða á seinna tímabilinu en það lítur út fyrir að núverandi aðgerðir muni ekki duga til að uppfylla þær kröfur.

Mólendi

Þessi flokkur er stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Losun koltvísýrings frá mólendi kemur að langmestu leyti frá lífrænum jarðvegi sem hefur verið framræstur í 20 ár eða meira og hefur aukin framræsla á síðustu áratugum leitt til aukinnar losunar.

  • Nettólosunin var um 5,92 milljón tonn CO2-íg. árið 2023.
  • Árið 2030 er samkvæmt gildandi fjármálaáætlun áætlað að um 3,9 þús.  hektarar af röskuðu votlendi hafi verið endurheimtir, sem þýðir um 76 þús. tonn CO2-íg. í samdrátt. Enn fremur er áætlað að endurheimta um 70 þús. hektara af röskuðu þurrlendi á sama tíma, sem mun skila sér í um 142 þús. tonn CO2-íg samdrætti. Þessar aðgerðir hafa margþættan ávinning í för með sér auk samdráttar í losun, þær auka líffræðilega fjölbreytni, auka vatnsbindingu og hindra jarðvegseyðingu auk þess að stuðla að efla viðnámsþrótt vistkerfa gegn loftslagsbreytingum.
  • Með aukinni endurheimt væri hægt að auka samdrátt til muna í þessum flokki en núverandi tölur í framreikningum miða við gildandi fjármálaáætlun.

Votlendi

Öll votlendissvæði sem teljast í nýtingu falla í þennan flokk, nánar tiltekið öll þau votlendi sem eru undir 200 m.y.s. og geta orðið fyrir áhrifum beitarLosun úr þessum flokki er vegna losunar metans (CH4) sem stafar af náttúrulegu ferli sem er dæmigert fyrir mýrarsvæði.

  • Árið 2023 var nettólosun frá votlendi á Íslandi 702 þús. tonn CO2-íg. 
  • Endurheimt votlendis dregur úr losun koltvísýrings (CO2), eykur upptöku CO2 en eykur jafnframt losun CH4. Þrátt fyrir að metan sé 28 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 verður nettósamdráttur í losun við endurheimt votlendis.

Ræktað land

Ræktað land er stór uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda. Losunin er vegna ræktaðs lands á framræstum votlendum. Ræktað land er land sem notað er í landbúnaði til ræktunar á grasi, korni og öðrum landbúnaðarafurðum svo sem kartöflum.

  • Árið 2023 var nettólosunin 1,89 milljón tonn CO2-íg.
  • Miðað við þróun fyrri ára má gera ráð fyrir því að flatarmál ræktað lands aukist til 2055, ásamt aukningu í losun frá þessum landflokki.

Skóglendi

Flokkurinn skóglendi hefur meiri bindingu en losun. Bindingin hefur aukist mikið frá árinu 1990, eða úr tæplega 30 þúsund tonnum í rúmlega 554 þúsund tonn CO2-íg. árið 2023.

  • Gert er ráð fyrir áframhaldandi aukningu í bindingu frá skóglendi. Helstu ástæður þessa eru aukin árleg nýskógrækt og vaxandi binding núverandi skóga með auknum aldri þeirra.
  • Núverandi flatarmál ræktaðs skóglendis er um 54 þús. hektarar. Miklir möguleikar eru á aukinni nýtingu ræktaðra skóga, en einungis voru nýtt 16% af þeim skógi sem er mögulegur til viðarnytja.
  • Þekja náttúrulegra birkiskóga er um 1,5% af landsvæði Íslands og ýmsir möguleikar til að auka þekjuna og þar með auka kolefnisbindingu. Til þess þarf að innleiða markvissar verndaraðgerðir og endurheimt sem stuðla að aukinni útbreiðslu birkisins.
  • Mikilvægt er að ríkið setji skýrar reglur sem auðvelda aðgang að landi í eigu ríkisins sem miða að verndun og endurheimt birkiskóga. Gert er ráð fyrir að þekja birkiskóga og birkikjarrs verði 5% af flatarmáli landsins árið 2030.
 

 Losun og binding vegna landnotkunar á Íslandi 1990-2055. Dekkra svæðið táknar sögulega losun og ljósara svæðið táknar framreiknaða losun samkvæmt sviðsmynd með núgildandi aðgerðum. Jákvæð gildi tákna nettólosun og neikvæð gildi tákna nettóbindingu.


 



Viðskiptakerfi með losunarþaki (e. cap-and-trade system)

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (e. EU Emissions Trading System; ETS) er svokallað „cap-and-trade“ kerfi þar sem þak er sett á heildarlosun frá öllum sem tilheyra kerfinu. Losun frá staðbundnum iðnaði, flugi og sjóflutningum innan EES fellur undir viðskiptakerfið.

  • Árlega gefur ESB út losunarheimildir og fjöldi þeirra samsvarar heildarlosun sem er heimil frá viðskiptakerfinu það árið. Fjöldi losunarheimilda fer fækkandi milli ára.
  • Hluta losunarheimilda er úthlutað endurgjaldslaust til rekstraraðila og flugrekenda í viðskiptakerfinu en hluti þeirra er boðinn upp á þar til gerðum uppboðsvettvangi.
  • Losunarheimildir ganga kaupum og sölum milli aðila sem falla undir viðskiptakerfið og annarra þar sem viðskipti með þær eru frjáls.
  • Viðskiptakerfið er einn af hornsteinum ESB við að ná samdrætti í losun. Því er bæði ætlað að tryggja að samdráttur í losun eigi sér stað og að hann eigi sér stað þar sem það er hagstæðast.
  • Flugstarfsemi hefur fallið undir gildissvið viðskiptakerfisins frá 2012, staðbundinn iðnaður frá 2013 og sjóflutningar frá 2024 (og eru því ekki birtar sérstaklega hér).

Sérstaklega er gerð grein fyrir losun frá flugi sem fellur undir viðskiptakerfinu á heimasíðu Umhverfis- og orkustofnunar.

Staðbundinn iðnaður innan ETS-kerfisins á Íslandi

  • Á Íslandi er losun frá staðbundum iðnaði innan viðskiptakerfisins að mestu frá ál- og kísilverum.
  • Árið 2023 var losunin 1,81 milljón tonn CO2-íg. eða 14% af heildarlosun Íslands (með landnotkun) eða sem er 3,3% samdráttur frá 2022 en 113% aukning frá 2005. Samdráttinn milli áranna 2022 og 2033 má að mestu leyti rekja til 21% samdráttar í losun vegna kísilmálmframleiðslu á tímabilinu.
  • Framreikningarnir í ETS staðbundnum iðnaði eru aðeins til í sviðsmynd með núgildandi aðgerðum, en reiknað er með að losunin haldist að mestu óbreytt næstu áratugina.
 

 Losun frá staðbundum iðnaði á Íslandi sem fellur undir ETS-kerfi 2005-2055. Dekkra svæðið táknar sögulega losun og ljósara svæðið táknar framreiknaða losun samkvæmt sviðsmynd með núgildandi aðgerðum.


 


Gerð er grein fyrir losun frá alþjóðasamgöngum, þ.e. millilandaflugi og millilandasiglingum í losunarbókhaldi Íslands. Árið 2023 var losun frá alþjóðasamgöngum um 1,72 milljón tonn CO2-íg., þar af er mikill meirihluti frá alþjóðaflugi (1,63 milljón tonn CO2-íg.) meðan lítill hluti er frá alþjóðasiglingum (98,8 þúsund tonn CO2-íg.).

Losun vegna alþjóðasamgangna jókst um 14% milli áranna 2022 og 2023. Þessa aukningu má rekja til 13% aukningar í losun frá alþjóðaflugi og 16% aukningar í losun frá alþjóðasiglingum á tímabilinu. Þessi mikla aukning skýrist af því að alþjóðasamgöngur eru enn að ná sér á strik eftir mikinn samdrátt á tímum heimsfaraldurs. Reikna má með að losunin muni aukast á næstu árum vegna aukinna umsvifa alþjóðasamgangna. Til lengri tíma má reikna með samdrætti í losun frá alþjóðasiglingum vegna aukinnar notkunar annarra orkugjafa en jarðefnaeldsneytis. Sviðsmynd með viðbótaraðgerðum sýnir töluverðan samdrátt í losun frá alþjóðaflugi til lengri tíma með tilkomu sjálfbærs flugvélaeldsneytis.

Eðli alþjóðasamgangna er þó þannig að það getur reynst ómarkvisst að úthluta ábyrgð vegna losunar þeirra á einstök ríki með afgerandi hætti. Þær reglur sem almennt gilda um losun vegna alþjóðasamgangna í landsskýrslum er að allt eldsneyti sem selt er innan landamæra hvers ríkis til alþjóðasamgangna fellur í losunarbókhaldi þess ríkis.

Þetta þýðir að losun frá flugrekanda sem millilendir á Íslandi til að taka hér eldsneyti er talin fram í losunarbókhaldi Íslands. Þetta skekkir myndina að vissu leyti og er það m.a. þess vegna sem alþjóðasamgöngur eru teknar fram í viðauka (e. memorandum items) í landsskýrslum. Þar af leiðandi telja alþjóðasamgöngur ekki í heildarlosun en hluti af þeim er talinn fram og gerður upp innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir.

Ferðalög og losun

Losun frá alþjóðasamgöngum náði hápunkti árið 2018 þegar metfjöldi ferðamanna kom til Íslands. Þá var losunin 1,6 milljón tonn CO2-íg. sem var um það bil jafn mikið og samanlögð losun frá vegasamgöngum og fiskiskipum. Þar af var losun frá alþjóðaflugi 1,3 milljón tonn CO2-íg.

 

 Losun frá alþjóðasamgöngum 1990-2055. Dekkra svæðið táknar sögulega losun og ljósara svæðið táknar framreiknaða losun samkvæmt sviðmynd með viðbótaraðgerðum. Til lengri tíma má reikna með samdrætti í losun frá alþjóðasamgöngum vegna aukinnar notkunar annarra orkugjafa en jarðefnaeldsneytis.