Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Töluvert hefur borið á olíublautum sjófuglum í Vestmannaeyjum undanfarna daga og vikur. Flestir fuglarnir hafa fundist við höfnina í Heimaey og í Klaufinni, rétt við Stórhöfða. Ástandið hefur verið viðvarandi í óvenju langan tíma eða allt frá áramótum. Einnig hafa fundist olíublautar langvíur í Reynisfjöru, en óljóst er hvort þessi mál tengjast. Fjöldi fugla sem fundist hefur á þessum stöðum skiptir nú nokkrum tugum.

Af þessu tilefni fór áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, með fulltrúa Umhverfisstofnunar í eftirlitsflug á þriðjudag í leit að uppruna mengunarinnar. Flogið var umhverfis allar eyjar Vestmannaeyja og að Reynisfjöru en ekkert fannst í þeim leiðangri. Umhverfistofnun mun áfram vinna í því að leita að uppruna mengunarinnar, meðal annars með aðstoð Landhelgisgæslu Íslands og EMSA, Siglingaöryggisstofnun Evrópu.