Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Í gær, 11. júní 2020, undirritaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, friðlýsingu Goðafoss í Skjálfandafljóti. 
Goðafoss er einn af vatnsmestu fossum landsins. Hann greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri og er ásýnd hans fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Goðafoss er 9-17 metra hár og um 30 metra breiður. Landið við vesturbakka Goðafoss heitir Hrútey og afmarkast hún af Hrúteyjarkvísl sem greinist frá Skjálfandafljóti ofan við Goðafoss en sameinast fljótinu aftur alllangt neðar. 

Goðafoss er vinsæll ferðamannastaður og þangað kemur fjöldi ferðamanna allan ársins hring. Megin markmið með verndun svæðisins er að vernda sérstakar náttúruminjar, breytileika jarðmyndana og fossinn sjálfan, m.a. með því að viðhalda náttúrulegu vatnsrennsli í fossinn, vegna fegurðar og sérkenna og útivistargildis svæðisins. 

Samstarfshópur skipaður fulltrúum Umhverfisstofnunar, Þingeyjarsveitar, landeigenda jarðanna Hriflu, Rauðár og Ljósavatns, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Minjastofnunar Íslands vann að undirbúningi að friðlýsingu svæðisins í samræmi við ákvæði laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Umhverfisstofnun vill koma á framfæri þakklæti til samstarfshópsins fyrir frábært samstarf. 

Friðlýsta svæðið er nú komið í umsjón Umhverfisstofnunar sem sinnir landvörslu, viðhaldi og rekstri á svæðinu til framtíðar. Nú þegar er þar landvarsla og ýmis verkefni í undirbúningi. Starfsmenn Umhverfisstofnunar vonast til að samstarf við sveitarfélag og landeigendur um framtíð svæðisins verði farsælt héðan í frá sem hingað til.