Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Kári, sem er stundum nefndur landvörður Íslands, hlaut náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti í ár og  tileinkaði hann öllum landvörðum og mikilvægu fræðslustarfi þeirra viðurkenninguna.  Starfsfólk Umhverfisstofnunar óskar Kára Kristjánssyni til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.

Í umsögn ráðherra kemur meðal annars fram að Kári hafi hafið störf sem landvörður hjá Náttúruverndarráði árið 1989. Starf hans var að sýna fólki undur Íslands, upplýsa það og fræða. Allan 10. áratug síðustu aldar starfaði Kári sem landvörður á sumrin í Herðubreiðarlindum og Öskju og síðar í Hvannalindafriðlandi. Aldamótaárið 2000 var hann ráðinn í fullt starf sem aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar í Jökulsárgljúfrum á vegum Náttúruverndar ríkisins, síðar Umhverfisstofnunar, og starfaði þar til ársins 2004, um helming þess tíma sem starfandi þjóðgarðsvörður. Árið 2004 þegar Lakagígar urðu hluti af stækkuðum Skaftafellsþjóðgarði var Kári ráðinn sem sérfræðingur á svæðinu. Kári varð starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs við stofnun hans árið 2008 og hefur starfað þar síðan. Landvarsla í orðsins víðustu merkingu hefur verið atvinna Kára í hartnær 30 ár en í starfi sínu hefur hann farið langt út fyrir það sem starfsskylda má teljast og ekki talið vinnustundirnar.

Frá árinu 1994 hefur Kári kennt náttúruvernd og aðferðafræði landvörslu á námskeiðum fyrir verðandi landverði, sem Umhverfisstofnun hefur haft veg og vanda af síðustu ár. Hann er fyrirmynd og leiðbeinandi fjölmargra sem vinna eða hafa unnið við landvörslu. Kári hefur unnið störf sín af miklum áhuga og eldmóði þar sem íslensk náttúra hefur í senn verið viðfangsefnið í vinnunni og áhugamálið. Kári hefur léð náttúruvernd hug og hjarta og hefur verið baráttumaður í stórum náttúruverndarmálum sem smáum.

Nánar á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins https://www.stjornarradid.is/raduneyti/umhverfis-og-audlindaraduneytid/umhverfis-og-audlindaradherra/stok-raeda/2020/09/16/Kari-Kristjansson-faer-natturuverndarvidurkenningu-Sigridar-i-Brattholti/