Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Í vikunni var haldin sameiginleg skrifborðsæfing með aðilum sem sjá um leit og björgun annars vegar og viðbragðsaðilum við mengunaróhöppum hins vegar. Þátt tóku aðilar í starfi Arctic Coast Guard Forum (AGCF) og Emergency Preparedness Prevention and Response vinnuhóps Norðurskautsráðsins (EPPR).  Sett var á svið atburðarás þar sem olíuflutningaskip og farþegaskip rekast saman norður af Skagafirði. Æfingin var tvíþætt, annars vegar leit og björgun og hinsvegar viðbragð við bráðamengun. Leit og björgun eru á ábyrgð Landhelgisgæslu Íslands en viðbragð við mengun á ábyrgð Umhverfisstofnunar.

Í framkvæmdinni var stuðst við aðgerðaáætlun Landhelgisgæslunnar, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar  sem og viðbragðsáætlun Umhverfisstofnunar. Starfsmenn frá Samgöngustofu tóku einnig þátt í æfingunni.

Þetta er í fyrsta skipti sem þessir aðilar halda samþætta æfingu sem tekur bæði á leit og björgun og viðbrögðum við bráðamengun. Æfingin fór fram í gegnum fjarfundabúnað sem var töluverð áskorun við skipulagningu og framkvæmd hennar. Landhelgisgæslan sá um tæknilega hluta skipulagsins og tókst það með eindæmum vel.

Samróma álit allra sem þátt tóku var að æfingin hefði gengið vonum framar og margt gagnlegt komið fram sem nýtist til að bæta ferla í tengslum við slíka atburði. Niðurstöður úr æfingunni verða teknar saman í skýrslu og kynntar síðar.