Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun Evrópu birti á dögunum samantekt um stöðu Viðskiptakerfis ESB (ETS-kerfisins) árið 2020 fyrir alla Evrópu.

Þar kom fram að samdráttur í losun frá iðnaði innan kerfisins var 9,1% á milli áranna 2018 og 2019 sem er mesti samdráttur í áratug.  Uppsafnaður samdráttur frá árinu 2005 er orðinn 35% sem er yfir væntingum kerfisins þar sem stefnt var að 20% samdrætti fyrir árið 2020 en 43% samdrætti fyrir árið 2030 sem hefur nú verið endurskoðað. 

Aðalástæða þessa mikla samdráttar er að samdráttur hefur orðið í rafmagnsframleiðslu knúinni áfram af kolum í brennslustöðvum, auk hækkandi verðs á koldíoxíð og aukningar í endurnýjanlegum orkugjöfum heilt yfir. Breytingar í losun eru mismunandi eftir því hvaða starfsemi er um að ræða og endurspeglar aðallega ólíka þróun í framleiðslu, orkunýtni og notkunar lífmassa og úrgangs sem orkugjafa.

Til samanburðar var samdráttur í losun íslenskra rekstraraðila á milli áranna 2018 og 2019 2,57%, sjá hér: Uppgjör 2019.

Losun frá flugi jókst hins vegar um 1% miðað við losun ársins 2018, sem útskýrist af aukinni eftirspurn í flugferðum. Til samanburðar dróst losun íslenskra flugrekenda saman um 37,6% á sama tímabili, aðallega vegna færri þátttakenda í kerfinu.

Miðað við samantekt á losunarspám aðildarríkja, sem Umhverfisstofnun Evrópu hefur tekið saman og má finna hér: Trends and Projections in the EU ETS in 2020, má gera ráð fyrir að losun innan ETS- kerfisins dragist saman um 33–40% fyrir árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Núverandi markmið, sem er 43% samdráttur, mun því ekki nást miðað við núverandi spár. ESB uppfærði nýlega markmið sín um samdrátt í losun og er nýja markmiðið 55% samdráttur fyrir árið 2030. Í framhaldi af því er stefnt að útvíkkun á gildissviði ETS-kerfisins, en of snemmt er að spá fyrir um áhrif þessa nýja samdráttarmarkmiðs á niðurstöðuna þar sem útfærslan liggur ekki fyrir eins og er. Hins vegar gætu áhrif Covid-19 leitt til þess að losun ársins 2020 fari undir 40% samdráttinn, þó að líklega væri það einungis tímabundinn samdráttur. 

Ástæðan er sú að 13 ríki gera ráð fyrir aukningu í losun en 17 ríki gera ráð fyrir samdrætti. Ástæða aukningar er t.d. sú að gert er ráð fyrir að notkun kjarnorku verði skipt út fyrir jarðefnaeldsneyti, eða að aukning verði í kolefnisfrekri framleiðslu. Önnur ástæða er sú að orkuskipti í byggingariðnaði og samgöngum kallar á aukna rafmagnsnotkun. Ef ekki verður aukning í endurnýjanlegri raforkuframleiðslu á móti í Evrópu, gæti það leitt til aukinnar losunar innan ETS-kerfisins.  

Að lokum má nefna að fjöldi losunarheimilda sem boðinn er upp hefur dregist saman um 36% á milli áranna 2018 og 2019, en hækkandi verð á losunarheimildum samt sem áður aukið söluhagnaðinn um 447 milljónir evra.

Nánari upplýsingar um samantekt Umhverfisstofnunar Evrópu má finna hér: 
Climate action in Europe