Náttúra

Dýr

Á gönguferð eftir ströndinni má búast við að sjá sel, bæði útsel og landsel. Ekki eru þó stór látur innan þjóðgarðsins. Oft er líflegt í pollum og gjótum á ströndinni, einkum þegar sjór er nýfallinn út. Kuðungar, marflær, krabbar, sprettfiskar og fleiri smádýr vekja þá áhuga athugulla gesta.

Hvalir, t.d. háhyrningur, hrefna og hnísa, eru algengir við Snæfellsnes og er rétt að hafa augun vel opin því þeir sjást oft frá ströndinni. Dýpra undan halda stórhveli sig, s.s. búrhvalur.

Talsvert er af ref í hrauninu og meðfram ströndinni. Minkur heldur sig í fjörunni þar sem æti er helst að hafa. Hagamýs eiga góða daga í hrauninu og ef horft er eftir hinu smáa má sjá ýmis smádýr trítla um.

Fuglar

Sjófuglar eru áberandi á svæðinu og verpa þeir meðfram allri ströndinni. Má þar nefna langvíu, stuttnefju, álku, fýl, ritu, dílaskarf og toppskarf. 

Skarfar eru fimir kafarar og má víða sjá þá messa á klettum meðfram ströndinni. Skarfar verpa í þyrpingum á lágum klettum og hólmum. Á varptímanum hafa fullvöxnu toppskarfarnir fjaðurtopp á höfðinu. Dílarskarfur er talsvert stærri en toppskarfur og verður ljós að framanverðu á varptímanum.

Í friðlandinu Arnarstap-Hellnar í næsta nágrenni við þjóðgarðinn eru toppskarfur og rita áberandi og hægt að komast í mikla nálægð við rituna á Arnarstapa þar sem hún liggur á og fóðrar unga sína. Egg ritunnar eru tvö og hreiðrið límir hún með munnvatni og driti á snasir og mjóar syllur sjávarklettanna. 

Teistur sjást helst við Malarrif og Lóndranga. Mávar og fýlar verpa á víð og dreif. Af mávategundum eru svartbakur, silfurmávur, hvítmávur og sílamávur algengir. 

Þúfubjarg og Saxhólsbjarg á Öndverðarnesi eru aðgengileg fuglabjörg en betra að fara að öllu með gát þar sem brúnirnar geta verið lausar. Þar má sjá flestar tegundir sjófugla.

Votlendisfuglar eru fáliðaðir og hvergi stór vörp. Í Beruvík eru fallegar tjarnir sem ýmsar tegundir fugla heimsækja. Oft má sjá óðinshana og ýmsar andategundir á tjörnunum ofan við Pumpu á Arnarstapa og einnig við Rif sem er skammt frá norðurmörkum þjóðgarðsins. Fuglinn er þekktur fyrir að hringsnúast við ætisleit. 

Söngur algengra mófugla heyrist gjarnan, svo sem heiðlóu, spóa, þúfutittlings, sólskríkju og steindepils. Maríuerla, tjaldur, sandlóa, sendlingur, hrafn og rjúpa eru algeng. Skógarþröstur er í hraungjótum og nálægt byggð. Haförn varp í Lóndröngum fram yfir aldamótin 1900 en ekki er vitað um varp hans á utanverðu Snæfellsnesi síðar. Fálki og smyrill eru fágætir en þó virðast tilfellum þar sem þessir fuglar sjást vera að fjölga. 

Vor og haust æja fargestir, fuglar sem verpa norðar, eins og tildra, margæs og rauðbrystingur. Fleiri tegundir koma við þótt í minna mæli sé. 

Æðarfugl er algengasta andartegundin við ströndina. Stór kríuvörp eru á Arnarstapa og Rifi sem er eitt stærsta kríuvarp Evrópu. Krían er einkennisfugl Snæfellsbæjar og heillandi á sinn hátt, fíngerður og tignarlegur fugl og dugleg að vernda unga sína. Margir verða hálfsmeykir við kríuna þar sem hún ræðst gegn óboðnum gestum og á það til að gogga þá í höfuðið. Þegar vetur er hér á landi heldur krían sig á suðurhveli jarðar. Til þess að njóta bjartra sumarnátta yfir varptímann hefur hún komið sér upp sérstakri flugtækni og getur langflug hennar numið allt að 40.000 km á ári.

Gróður

Jarðvegur á utanverðu Snæfellsnesi er víða gljúpur og heldur illa vatni en gróðurlendi er þó margbreytilegt, frá fjöru til fjalls. Strandgróðurinn er afar fjölskrúðugur og víða eru tærar tjarnir með litfögru þangi og þara. Mosinn er oft þykkur á hraunum og blómjurtir í bollum og gjótum. Trjágróður er takmarkaður, og engin há tré, en finna má birki- og reynihríslur í hraungjótum. Á meðal sjaldgæfra tegunda sem vaxa á svæðinu eru skrautpuntur og ferlaufungur sem er friðlýst tegund. Lyngmóar eru útbreiddir á Snæfellsnesi og víða góð berjalönd. Búðahraun á sunnanverðu Snæfellsnesi var friðað að stórum hluta vegna grósku og fjölbreytileika gróðursins. Meginástæða þessa mikla gróðurs er talin vera sú að sjór leikur um undirstöður hraunsins og er raki því mikill og loftskipti góð. Víða í hrauninu hafa myndast einkennilegir katlar, og í þeim og öðrum dældum er eitt furðulegasta gróðurskrúð sem fyrirfinnst hér á landi.

Fundist hafa rúmlega 130 tegundir plantna í hrauninu og við fyrstu sýn vekja burknarnir oftast mesta athygli. Alls hafa fundist 16 tegundir burkna á Íslandi og af þeim vaxa 11 í Búðahrauni. Fjöllaufungur, dílaburkni og stóriburkni eru mest áberandi, enda stærstir, en tófugras er algengt og þrílaufungur og þríhyrnuburkni vaxa víða. Í hrauninu er einnig að finna blómlendi og vallendisbolla, lyngfláka, mosaþembur og klettagróður, birkirunna og stöku reynitré. Af tegundum sem ná mikilli hæð í hrauninu má nefna mjaðurt, blágresi og sóleyjar. Í sandinum má m.a. finna túnvingul og melgresi, tágamuru, klóelftingu, brennisóley, holurt, blóðberg, hvítmöðru, lambagras og túnfífil.