Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Áfyllingabann

 

Efnisyfirlit

  • Um hvað gildir áfyllingabannið?
    • Hvar finn ég upplýsingar um GWP?
    • Hvernig veit ég stærð kerfisins í CO2-jafngildum?
    • Dæmi um hvenær bannið á við
  • Hvað geri ég ef kerfið mitt fellur undir bannið?

Um hvað gildir áfyllingabannið?

Í ljósi þess að hentugir staðgöngukostir eru þegar í boði mælir regluverkið fyrir tilteknum takmörkunum á notkun F-gasa. Meðal þessara takmarkana er svokallað áfyllingabann á kælibúnað. Tvö skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að áfyllingabannið eigi við:

  1. Kælimiðillinn sem á í hlut hefur hnatthlýnunarmátt (GWP) upp á 2500 eða meira.
  2. Stærð kerfisins, umreiknuð í koldíoxíðjafngildi, nemur 40 t CO2-eq

Athugið að til bannið eigi við þurfa bæði skilyrðin að vera uppfyllt. Ef svo er gildir eftirfarandi:

  1. Bannað er að þjónusta eða viðhalda viðkomandi kælibúnaði með nýjum efnum frá 1. janúar 2020.
  2. Bannað verður að þjónusta eða viðhalda viðkomandi kælibúnaði með endurnýttum eða endurunnum efnum frá 1. janúar 2030.

Hvar finn ég upplýsingar um GWP?

Í I. viðauka við reglugerð (ESB) nr. 517/2014 má sjá hnatthlýnunarmátt fyrir einstök efnasambönd sem teljast til F-gasa. Hnatthlýnunarmáttur efnablandna sem innihalda efnin er reiknaður skv. þeirri aðferð sem lýst er í IV. viðauka við sömu reglugerð. Lista yfir hnatthlýnunarmátt nokkurra efna og efnablandna má nálgast á síðunni Hnatthlýnunarmáttur HFC-efna.

Einnig er hægt að nota reiknivél Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) en þar er að finna upplýsingar um hnatthlýnunarmátt fyrir ýmis efni og efnablöndur. Reiknivélin er jafnframt til í viðeigandi veitum sem smáforrit bæði fyrir iOS og Android stýrikerfi.

Hvernig veit ég stærð kerfisins í CO2-jafngildum?

Stærð kerfis í koldíoxíðjafngildum er margfeldi hnatthlýnunarmáttar kælimiðilsins á kerfinu og magns efnisins í viðeigandi massaeiningu.

Athugið að þar sem hnatthlýnunarmáttur er hlutfall er mælieining hans breytileg eftir því við hvaða massaeiningu er miðað en því er jafnan sleppt að skrifa eininguna. Ef notuð eru kílógrömm miðils til útreikninga fást út kílógrömm koldíoxíðjafngilda, ef notuð eru tonn miðils fást út tonn koldíoxíðjafngilda o.s.frv.

Til að reikna stærð kerfis í koldíoxíðjafngildum má því nota eftirfarandi reiknireglu:

magn (kg CO2-eq) = magn (kg) × GWP

Einnig er hægt að notast við fyrrnefnda reiknivél UNEP.


Dæmi um hvenær bannið á við

DÆMI 1

Kerfi hefur áfyllingarstærð uppá 120 kg og notast við kælimiðilinn R134a. Á áfyllingabannið við?

Athugun:

R134a hefur GWP = 1430

Stærð kerfisins í koldíoxíðjafngildum þarf að reikna út skv. framangreindri reiknireglu:

magn (kg CO2-eq) = magn (kg) × GWP

magn = 120 kg × 1430 = 171.600 kg CO2-eq = 171,6 t CO2-eq

Niðurstaða:

Kerfið er stærra en 40 t CO2-eq en kælimiðillinn sem um ræðir hefur GWP < 2500. Bæði skilyrðin þurfa að vera uppfyllt til að áfyllingabannið eigi við og svo er ekki hér.

DÆMI 2

Kerfi hefur áfyllingarstærð uppá 15 kg og notast við kælimiðilinn R404A. Á áfyllingabannið við?

Athugun:

R404A hefur GWP = 3922

Stærð kerfisins:

magn = 15 kg × 3922 = 58.830 kg CO2-eq = 58,83 t CO2-eq

Niðurstaða:

Kælimiðillinn sem um ræðir hefur GWP > 2500 og kerfið er stærra en 40 t CO2-eq. Bæði skilyrðin eru því uppfyllt og áfyllingabannið á við.

DÆMI 3

Kerfi hefur áfyllingarstærð uppá 8 kg og notast við kælimiðilinn R404A. Á áfyllingabannið við?

Athugun:

R404A hefur GWP = 3922

Stærð kerfisins:

magn = 8 kg × 3922 = 31.376 kg CO2-eq = 31,38 t CO2-eq

Niðurstaða:

Kælimiðillinn sem um ræðir hefur GWP > 2500 en kerfið er minna en 40 t CO2-eq. Bæði skilyrðin þurfa að vera uppfyllt til að áfyllingabannið eigi við og svo er ekki hér.



Hvað geri ég ef kerfið mitt fellur undir bannið?

Ýmsir möguleikar eru fyrir hendi þegar kælikerfi heyrir undir bannið sbr. lýsinguna hér að framan. Hvaða möguleiki hentar best er breytilegt eftir aðstæðum:


  1. Ef tími er kominn til að skipta um kerfið í heild sinni er ráðlegt að skipta yfir í kerfi sem ekki krefst flúoraðra gróðurhúsalofttegunda. Hvernig kerfi hentar best er háð mörgum breytum en meðal möguleika eru kerfi sem notast við vetniskolefni (e. hydrocarbons), koldíoxíð eða ammóníak sem kælimiðla.

  2. Ef ekki er tímabært að skipta um kerfið í heild sinni er hægt er að notast við miðla sem hafa verið sérstaklega hannaðir til að koma í staðinn fyrir þá sem áfyllingabannið tekur til (e. drop-in replacements). Þessi efni eiga að gefa svipaða virkni og eldri miðill en hafa GWP undir 2500 svo að áfyllingabannið á ekki við. Dæmi um slíka miðla eru
    • R448A (GWP = 1387)
    • R449A (GWP = 1397)
    • R452A (GWP = 2140)

  3. sem allir eru hugsaðir til að koma í stað t.a.m. R404A (GWP = 3922).

  4. Heimilt er að fylla á kerfi þrátt fyrir að það innihaldi kælimiðil með GWP > 2500 og stærð kerfisins sé 40 t CO2-eq eða meiri, ef notast er við:

    • Endurunnið efni: Efni sömu gerðar og eru þegar á kerfinu sem hafa verið endurheimt úr slíkum búnaði. Athugið þó að til að mega nota slík endurunnin efni þurfa þau að hafa verið endurheimt hjá sama fyrirtæki, eða endurheimt af fyrirtækinu sem veitir þjónustuna.

    • Endurnýtt efni: Efni sem hafa verið endurmeðhöndluð til að ná fram jafngildri virkni og hjá ónotuðu efni, að teknu tilliti til fyrirhugaðrar notkunar.

  5. Athugið að endurnýttar og endurunnar flúoraðar gróðurhúsalofttegundir skulu merktar með tilgreiningu um að efnið hafi verið endurnýtt eða endurunnið, upplýsingum um lotunúmer ásamt heiti og heimilisfangi starfsstöðvarinnar þar sem endurnýting eða endurvinnsla fór fram.


Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 21. október 2024.