Mývatn og Laxá

Mývatn og Laxá eru vernduð samkvæmt lögum nr. 97/2004. Markmið laganna er að stuðla að náttúruvernd í samræmi við sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum. Tekur verndunin til Mývatns og Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 metra breiðum bakka meðfram Mývatni öllu og Laxá báðum megin.

Lögin eiga að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni á víðáttumiklu vatnasviði Mývatns og Laxár, ásamt verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd, einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða.

Samstarfshópur hefur nú hafið vinnu við endurskoðun verndaráætlunar Mývatns og Laxár sem var í gildi frá 2011-2016. Verndaráætluninni er ætlað að fjalla um markmið verndunar svæðisins og hvernig stefnt skuli að því að viðhalda verndargildi þess. Í verndaráætlun skal, samkvæmt lögum 97/2004 og lögum 60/2013, m.a. fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, friðlýsingu náttúruminja, landnýtingu, landvörslu, fræðslu og miðlun upplýsinga, umferðarrétt almennings og aðgengi ferðamanna að svæðinu, þar á meðal aðgengi fatlaðra.

Í samstarfshópi eiga sæti fulltrúar sveitarfélaga, fagstofnana á sviði náttúruverndar, vatnsverndar og veiðinýtingar, landeigenda innan verndarsvæðisins og umhverfisverndarsamtaka á svæðinu.

Helstu gögn er varða framvindu vinnunnar verða aðgengileg á þessu svæði.

Nánari upplýsingar veitir Linda Guðmundsdóttir, linda.gu@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.