Kolmonoxíð

Bæði bensínvélar og dísilvélar gefa frá sér heilsuskaðleg efni. Magn þessara efna er háð stærð vélarinnar, snúningshraða, álagi, ástandi vélarinnar, gerð eldsneytis og fleira. Kolmónoxíð, eða kolsýrlingur, er það efni í útblæstri bifreiða sem er hvað hættulegast og myndast við bruna við takmarkað súrefni. Kolmónoxíð getur einnig stuðlað að myndun ósóns þar sem að það getur hvarfast í peroxíð en meira er af efninu í útblæstri bensínvéla en dísilvéla og það er alltaf fyrir hendi í einhverju magni þar sem mengun er af bílum. Styrkur CO hefur minnkað stöðugt síðustu árin og þá skiptir einna helst máli innleiðing hvarfakúta bifreiða.

Kolmónoxíð er litlaus lofttegund án lyktar eða bragðs og nokkuð léttari en loft. Það myndast við ófullkominn bruna eldsneytis og er skaðlegt heilsu manna og dýra. Skaðleg áhrif kolmónoxíðs felast í því að það dregur úr hæfni blóðsins til að flytja súrefni þar sem að efnið binst rauðu blóðkornunum í stað súrefnis. Innöndun mikils magns af efninu getur leitt til höfuðverks, svima, ógleði, þreytu og truflana á sjón og heyrn. Í verstu tilfellum veldur innöndun kolmónoxíðs yfirliði og dauða. Langvarandi dvöl í kolmónoxíðmenguðu lofti getur leitt til aukinnar hættu á hjarta- og æðasjúkdómum þrátt fyrir að mengunin sé ekki mikil.