Umhverfistofnun - Logo

Um votlendi 

Votlendi hafa margvíslegt gildi og má skipta mikilvægi þeirra upp í þrjá flokka.

  • Vatnsfræðilegt gildi: Í miklum rigningum taka votlendissvæði til sín vatn en miðla því frá sér í þurrkatíð. Þannig viðhalda votlendissvæði jöfnu rennsli í ám og lækjum sem er mikilvægt fyrir þær lífverur sem þar búa.
  • Næringarfræðilegt gildi: Mýrar geyma verulegt magn kolefna sem verða til við niðurbrot jurtaleifa. Breytingar á t.d. hitastigi og vatnsborði mýra geta valdið aukinni losun kolefnis sem getur haft áhrif á heimsvísu.
  • Vistfræðilegt gildi: Votlendi er mikilvægt búsvæði fugla og plantna og fjölmargar tegundir byggja tilvist sína á því. Votlendi getur þannig aukið verulega líffræðilega fjölbreytni viðkomandi landsvæðis.

Mikið hefur verið gengið á votlendi Íslands á undanförnum áratugum með framræslu sem að hluta til var styrkt úr opinberum sjóðum. Nú er staðan þannig að tiltölulega lítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi og sem dæmi um það má nefna að aðeins 3% alls votlendis á Suðurlandi er eftir óraskað og aðeins 18% á Vesturlandi.

Til að stemma stigu við þessari þróun hafa Íslendingar m.a. samþykkt Ramsarsamninginn. Hann dregur nafn sitt af borginni Ramsar í Íran þar sem hann var fyrst samþykktur árið 1971. Hann var fyrsti alþjóðlegi samningurinn sem var gerður sem fjallar um vernd og nýtingu ákveðinna búsvæða eða vistkerfa. Kveikjan að gerð samningsins voru áhyggjur manna af fækkun í mörgum stofnum anda og gæsa og annarra votlendisfugla og stöðugur ágangur á búsvæði þeirra, en yfirlýst markmið samningsins er að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, sérstaklega sem lífsvæði fyrir fugla. Í mörg ár beindist athyglin fyrst og fremst að því að vernda votlendissvæði, en votlendi er miklu meira en bara búsvæði fugla og á síðustu árum hefur áhugi aukist á öðrum verðmætum votlendissvæða, t.d. útivistargildi.

Aðaláherslan í því starfi sem fer fram undir hatti Ramsarsamningsins hefur verið að vernda þau votlendissvæði sem eftir eru í heiminum, en þeim hefur farið fækkandi á undanförnum áratugum. Samtímis hefur mönnum þó orðið ljóst hversu mikla þýðingu votlendi hefur fyrir afkomu manna. Í seinni tíð hefur því verið lögð meiri áhersla á fræðslu um hvernig hægt er að nýta votlendissvæði án þess að raska þeim. Lykilhugtök Ramsarsamningsins eru verndun og skynsamleg nýting.

Samningurinn gekk í gildi á Íslandi árið 1978 og þar með skuldbundu Íslendingar sig til að lúta ákvæðum hans, s.s. að tilnefna a.m.k. eitt alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði á lista hans, stuðla að skynsamlegri nýtingu votlendissvæða og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um votlendisverndun. Nú eru aðildarríki samningsins 160.

Við val á svæðum á lista samningsins er litið til ýmissa atriða, m.a. hvort tiltekin tegund votlendis sé sjaldgæf á tilteknu svæði og hvort þar séu sjaldgæfar plöntur eða dýr. Einnig þarf svæðið að vera búsvæði fyrir minnst 20.000 votlendisfugla eða meira en 1% af stofni, en þá telst það mikilvægt á alþjóðavísu. Ramsarsvæðin eiga að njóta sérstakrar athygli og ekki má breyta vistfræðilegum eiginleikum þeirra eða minnka þau nema vegna þjóðarhagsmuna. Ef votlendi á skrá samningsins er raskað verður að bæta fyrir það eins og hægt er á sama stað eða þar sem lífríkisaðstæður eru svipaðar.

Alls eru 1950 svæði á skrá samningsins sem eru rúmlega 190 milljón hektarar að stærð. Á Norðurlöndunum eru svæðin 192.

Ísland hefur fengið sex svæði skráð sem Ramsarsvæði. Þetta eru Andakíl, Grunnafjörður, Guðlaugstungur, Mývatn og Laxá, Snæfells- og Eyjabakkasvæðið og Þjórsárver.