Fossvogsbakkar, Reykjavík

Fossvogsbakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1999. Á svæðinu er að finna fágætar jarðminjar í jarðsögu Reykjavíkur og landsins alls, Fossvogslögin, og felst verndargildi svæðisins í verndun þeirra.

Náttúruvætti eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Markmiðið með friðlýsingu Fossvogsbakka er verndun fágætra jarðminja svæðisins.

Jarðminjar

Setin í Fossvogsbökkum, hluti hinna svokölluðu Fossvogslaga, eru talin vera um 11.000 ára gömul, eða frá lokum síðustu ísaldar. Talið er að þau hafi myndast í einu af síðustu hlýskeiðunum eftir að bráðnun jökla hafði leitt til umtalsverðrar hækkunar sjávarstöðu. Lögin eru um 2 km að lengd við strandlengjuna og 5 m þykk þar sem þau eru þykkust. Sumsstaðar eru þau þó nærri horfin vegna sjávarrofs.

Setlögin liggja ofan á grágrýtisklöpp sem talin er hafa myndast fyrir 100-200 þúsund árum. Neðsta lag setlaganna er jökulberg sem myndað er úr jökulruðningi og bendir til þess að á svæðinu hafi verið jökull sem hefur hopað. Næstu lög eru sjávarsetlög, einkum fíngerð silt- og eðjusteinslög, sem bendir til þess að á svæðinu hafi verið grunnsævi. Í sjávarsetlögunum er að finna mikið magn af steingervingum, einkum skeljar lindýra. Ofan á sjávarsetinu er aftur að finna jökulberg sem bendir til þess að allra síðustu jökulskeið ísaldar hafi átt sér stað eftir að setlögin mynduðust. Af þessu má sjá að hægt er að fá mikilvægar vísbendingar um loftslagsbreytingar, landslagsmyndun, sjávarstöðu og lífríki á grunnsævi.

Einstakt er að merkar jarðminjar, líkt og finnast í Fossvogsbökkum, séu staðsettar í miðri borg og að mestu leyti mjög aðgengilegar og sýnlegar.

Gróður og dýralíf

Á svæðinu er mjög fjölbreyttur gróður sem hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áratugum vegna útbreiðslu ágengra tegunda og landnámi slæðinga úr görðum. Þar sem setlögin eru ekki mjög brött og mynda nokkurs konar skriður eru þau nokkuð gróin af margvíslegum gróðri, einkum grastegundum, en einnig stórvaxnari gróðri. Á bökkum setlaganna er gróður víða stórvaxinn þannig að hann skyggir á jarðminjarnar. Á þeim svæðum er lúpína algeng.

Gróðurlendið á Fossvogsbökkum hýsir fjölbreytilegt smádýralíf og fuglalíf á svæðinu er mikið, einkum í fjörunni.

Menningarminjar

Við Fossvogsbakka er að finna minjar frá tímum síðari heimstyrjaldar. Um er að ræða húsgrunna sem tilheyra herbúð, Camp Mable Leaf. Austan við herbúðirnar eru tóftir sem byggðar voru árið 1944 og eru enn vel greinanlegar.

Stærð náttúruvættisins er 17,8 ha.

Gagnlegar upplýsingar

Friðlýsta svæðið Fossvogsbakkar nær yfir um 2 km langa strandlínu frá botni Fossvogs þar sem bæjarmörk Reykjavíkur og Kópavogs mætast og vestur að línu sem er 5 m frá affalslögn Hitaveitu Reykjavíkur í Nauthólsvík.

Aðkoma að svæðinu á ökutæki er best frá Nauthólsvegi að vestanverðu og Suðurhlíð að austanverðu. Þá liggja göngustígar úr Öskjuhlíð og Fossvogskirkjugarði niður að svæðinu að norðanverðu. Göngu- og hjólastígurinn sem liggur í austur-vestur meðfram Skerjafirði er að hluta inni í friðlandinu.

Auðveldast er að skoða jarðlögin ef gengið er niður í Fossvoginn á háfjöru en einnig eru þau ágætlega sýnileg ef staðið er á bökkunum en það getur þó verið varasamt að standa of nálægt brúninni því setlögin eru víðast hvar töluvert rofin af ágangi sjávar.

Umgengnisreglur:

 • Hverskonar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt geta útliti eða eðli svæðisins er háð leyfi Umhverfisstofnunar. Reykjavíkurborg eru þó heimilar nauðsynlegar framkvæmdir sem lúta að viðhaldi Fossvogsræsis og til varnar rofi á bökkum reynist það nauðsynlegt.
 • Losun jarðefna, rusls eða sorps er óheimil á svæðinu.
 • Almenningi er heimil för um svæðið enda sé góðrar umgengni gætt.

Svæði í hættu

Fossvogsbakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1999 með auglýsingu nr. 326/1999 í Stjórnartíðindum B.

Svæðið er í umsjón Reykjavíkurborgar samkvæmt umsjónarsamningi sem gerður var í júní 2015. Samhliða undirritun umsjónarsamnings var samþykkt verndar- og stjórnunaráætlun fyrir svæðið sem gildir til ársins 2024.

Fossvogsbakkar eru á appelsínugulum lista yfir svæði í hættu.

Styrkleikar

Sérstæðar jarðmyndanir. Vinsælt útivistarsvæði. Í skýrslu náttúruverndarnefndar Reykjavíkur kemur fram að borgin framkvæmdi ítarlega úttekt á ástandi svæðisins og verndargildi þess var metið sumarið 2013. Borgin lét setja upp tvö ný fræðsluskilti í byrjun árs 2014.

Veikleikar

Náttúruvættið er berskjaldað fyrir náttúruöflunum og þá aðallega fyrir sjávarrofi. Göngustígur liggur rétt ofan náttúruvættis. Ekki er til verndaráætlun fyrir svæðið.

Ógnir

 • Sjávarrof 
 • Mannvirkjagerð 
 • Framandi og ágengar plöntutegundir 

 Tækifæri 

 • Gerð verndaráætlunar. 
 • Mat á hvort og hvernig hægt sé að verjast sjávarrofi. 
 • Mannvirkjagerð verði skipulögð þannig að hún raski ekki jarðmyndunum. 
 • Samstarf við framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar sjálfboðavinnu á friðlýstum svæðum. 
 • Fyrirhugað er að gerður verði umsjónarsamningur við Reykjavík.