Sækja um leyfi

Á flestum friðlýstum svæðum þarf leyfi Umhverfisstofnunar fyrir framkvæmdum, viðburðum eða kvikmynda- og ljósmyndaverkefnum. Sótt er um leyfi til Umhverfisstofnunar í gegnum þjónustugáttina. Stofnunin hefur sett sér málshraðaviðmið sem má kynna sér hér

Hvers vegna ríkir leyfisskylda?

Þegar umhverfis- og auðlindaráðherra tekur ákvörðun um friðlýsingu svæða á landi eða í sjó er tekin ákvörðun um verndun svæðisins fyrir almenning og fyrir komandi kynslóðir. Ráðherra felur, í kjölfar friðlýsingar, Umhverfisstofnun umsjón flestra friðlýstra svæða og er það stofnunarinnar að standa vörð um ákvæði friðlýsingar og að gæta þess að svæðið haldi verndargildi sínu. Í viðleitni til að viðhalda verndargildi svæðanna og að tryggja almenningi umgengni um þau eru stærri verkefni og framkvæmdir háðar leyfum stofnunarinnar.

Við mat á leyfisveitingum er horft til friðlýsingarskilmála og tilgang friðlýsinga. Sé svæði friðlýst til að vernda lífríki er allra leiða leitað til að koma í veg fyrir árekstra lífríkis og aðgerða mannanna. Ef landslag er verndað er reynt að draga úr áberandi framkvæmdum og/eða leitað leiða til að fella mannvirki inn í landslag. Þegar um er að ræða fjölfarna ferðamannastaði þarf að meta áhrif stórra verkefna, t.d. kvikmyndagerðar, á möguleika fólks til að njóta svæðanna.

Í öllum tilfellum er horft til mengunarvarna og þess gætt að ekki sé farið gegn ákvæðum náttúruverndarlaga.

Sérfræðingar Umhverfisstofnunar meta leyfisskyldu verkefna og getur það mat tekið nokkra virka daga. Því eru allir hvattir til að senda inn umsókn með góðum fyrirvara vegna sinna verkefna, jafnt stórra sem smárra. Sé verkefni metið leyfisskylt tekur við leyfisveitingaferli og fer um þau mál skv. gjaldskrá Umhverfisstofnunar. Sé verkefni ekki metið leyfisskylt er umsækjandi upplýstur um það og fær staðfestingu þar um sem hægt er að vísa fram sé þess óskað.