Húsey og Eyjasel á Úthéraði

Kynningarfundur

Kynningarfundur um tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár fyrir landeigendur á svæðinu fór fram þann 12. janúar 2024. Fundurinn var stafrænn.

Horfa á upptöku frá fundinum

Skoða glærur frá fundinum

Um svæðið

Sveitarfélag: Múlaþing

Möguleg stærð: 62 km2

Húsey – Eyjasel er hluti af tillögusvæðinu Úthérað sem er tilnefnt vegna vistgerða og fugla. Svæðið er flatlent og láglent og er meðal helstu varpsvæða skúms sem er í bráðri hættu skv. válista og hefur svæðið hæsta þéttleika varps kjóa sem er í hættu skv. válista. Á svæðinu er selalátur landsels og mikið og lífríkt votlendi. Undanskilið tillögunni eru heimalönd jarðanna. Svæðið er innan alþjóðlega mikilvægs fuglasvæðis (Úthérað).

Verndargildi vistgerðanna er mjög hátt og eru þær á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Votlendissvæðin (>20.000m2), vötn og tjarnir (>1.000m2), sjávarfitjar og leirur á svæðinu falla undir ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga um sérstaka vernd.

Staðreyndarsíða Náttúrufræðistofnunar Íslands um Úthérað en svæðið Húsey – Eyjasel er hluti þess svæðis:

Tillaga að svæði á framkvæmdaáætlun

Tún og heimalönd eru undanskilin tillögunni.

Mögulegar verndarráðstafanir

1.  Vegna ríkulegs fuglalífs og líffræðilegs fjölbreytileika svæðisins er möguleg friðlýsing svæðisins sem friðlands skv. 49. gr. náttúruverndarlaga.

Með friðlýsingu sem friðlands er áhersla á vernd lífríkis og tegund lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Í auglýsingum um friðlýsingu, sem eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda, er m.a. kveðið á um markmið friðlýsingar, umsjón, umferð og umgengni, tilhögun verndar, landnotkun og mannvirkjagerð ofl.

Friðlýsing er unnin í samstarfshópi sem skipaður er fulltrúum frá Umhverfisstofnun, sveitarfélagi, landeigenda og annarra eftir þörfum.

Sambærilegt friðlýst svæði eru Varmárósar í Mosfellsbæ og Blikastaðakró – Leiruvogur.

2.  Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna og fuglanna skv. 56. gr. náttúruverndarlaga.

Friðun vistgerða felur m.a. í sér sérstaka aðgæsluskyldu, forðast rask, framkvæmdaleyfisskyldu og mótvægisaðgerðir vegna mögulegs rasks. Í auglýsingu um friðun, sem er birt í B-deild Stjórnartíðinda, er kveðið á um umfang friðunar og þær takmarkanir sem af henni leiðir.

Sambærileg friðun er til fyrir æðplöntur, mosa og fléttur frá árinu 2021 en ekki er til sambærileg friðun fugla.

Mögulegar takmarkanir/innviðir

Ekki er talin þörf á að takmarka núverandi ferðaþjónustu á svæðinu þar sem hún er ekki talin ógna verndargildi svæðisins. Takmarka gæti þurft notkun dróna á svæðinu yfir varptíma.

Tilnefnt af Náttúrufræðistofnun Íslands vegna:

  • Gulstararflóavistar
  • Runnamýravistar á láglendi
  • Starungsmýravistar
  • Skúms
  • Kjóa

Gulstararflóavist

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi

Verndargildi vistgerðar: Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Sléttir, vel grónir, gróskumiklir og frjósamir gulstararflóar og flæðilönd, einkum meðfram ám og vötnum. Jarðvatn er steinefnaríkt, hreyfanlegt og stendur hátt allt árið en land fer yfirleitt undir vatn í vetrar- og vorflóðum. Vistgerðin er því uppskerumikil og gróður þar mjög hávaxinn. Æðplöntur eru ríkjandi en mosaþekja er nokkur, fléttur finnast vart. Vistgerðin er  tegundafá, hún einkennist af gulstör sem er norður-amerísk tegund og finnst ekki í Evrópu utan Íslands og Færeyja. Lífræn jörð er algjörlega ríkjandi, rótar- og svarðmotta er fremur þunn. Jarðvegur er þykkur, frekar kolefnisríkur en sýrustig mjög lágt.

Fuglalíf í vistgerðinni er ríkulegt. Andfuglar og vaðfuglar eru algengastir, einkum jaðrakan, stelkur, óðinshani , lóuþræll, stokkönd, urtönd, grafönd og álft.

Upplýsingar um gulstararflóavist á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Runnamýravist á láglendi

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi

Verndargildi vistgerðar: Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Lítið til nokkuð hallandi, deigt til blautt, þýft mýrlendi á sléttlendi, bungum og í hlíðum, vaxið smárunnum, störum og fleiri votlendistegundum, mikill barnamosi í þúfum og á rimum. Vatn stendur hátt en land fer lítið eða ekki undir vatn í leysingum og flóðum. Land er algróið, miðlungsfrjósamt og gróður allhávaxinn. Æðplöntur eru ríkjandi en mosi er mjög mikill í sverði, fléttur finnast vart.

Vistgerðin er í meðallagi rík af tegundum æðplantna, fremur rík af mosum en fléttutegundir eru mjög fáar. Ríkjandi tegundir æðplantna eru bláberjalyng, fjalldrapi, mýrastör og vetrarkvíðastör. Algengustu mosar eru móasigð, engjaskraut, lémosi og tildu­rmosi en af fléttum er himnuskóf algengust.

Ríkulegt fuglalíf er í vistgerðinni. Algengustu varpfuglar eru spói, lóuþræll, þúfutittlingur og hrossagaukur, stelkur, kjói, heiðlóa og grágæs.

Upplýsingar um runnamýravist á láglendi á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Starungsmýravist

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi

Verndagildi vistgerðarinnar er mjög hátt og er hún á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Lítið til nokkuð hallandi, deigt til blautt, þýft mýrlendi vaxið mýrastör og fleiri votlendistegundum, á sléttlendi og í hlíðum. Á þúfum og rimum vaxa smárunnar og fleiri þurrlendistegundir. Jarðvatn stendur hátt en land fer lítið eða ekki undir vatn í leysingum og flóðum, vatn er fremur steinefnaríkt og land frjósamt. Það er algróið, gróður allhávaxinn, æðplöntur eru ríkjandi en mosi mikill, fléttur finnast vart. Í þennan flokk falla elftingamýrar en í þeim getur mýrelfting verið með allt eins mikla þekju eða meiri en mýrastör.

Vistgerðin er miðlungi rík af tegundum æðplantna, fremur rík af mosum en fléttutegundir frekar fáar. Ríkjandi tegundir æðplantna eru mýrastör, bláberjalyng, fjalldrapi og engjarós. Algengustu mosar eru tildurmosi, móasigð, engjaskraut, lémosi og geirmosi en af fléttum finnast helst himnuskóf og hreindýrakrókar.

Ríkulegt fuglalíf er í vistgerðinni algengustu varpfuglar eru lóuþræll, spói, þúfutittlingur, hrossagaukur, jaðrakan og stelkur.

Upplýsingar um starungsmýravist á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands 

Skúmur (Catharacta skua)

Verndarstaða: Í bráðri hættu

Skúmur er strandfugl sem verpur aðallega í dreifðum byggðum á sjávarmelum og grónum aurum jökuláa. Fjöldi eggja er tvö egg, legið er á í 29 daga og ungatíminn er 44 dagar. Kvenfuglinn er heldur stærri en karlfuglinn en skúmur er 53-58 cm að lengd og vegur um 1400gr.

Skúmur er úthafsfugl utan varptíma sem hefur vetursetu á norður-Atlantshafi.

Skúmur er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.   

Upplýsingar um skúm á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um skúm á fuglavefnum

Kjói (Stercorarius parasiticus)

Verndarstaða: Í hættu

Kjóinn er farfugl sem dvelst sunnarlega í suður-Atlantshafi að vetrum en verpur á norðlægum slóðum. Hann verpur víða um land frá fjöru til fjalls í mýrum og móum. Hann er 41-46 cm að lengd og um 400 gr. Hann verpur tveimur eggjum og liggur á í 25-28 daga. Ungatíminn er 25-30 dagar.

Upplýsingar um kjóa á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um kjóa á fuglavefnum