Grábrókargígar, Borgarbyggð


Myndin sýnir Grábrókarfell ofan frá Stóru-Grábrók

Grábrókargígar
Grábrókargígar voru friðlýstir fyrst árið 1962 sem náttúruvætti, en friðlýsingu var breytt árið 1974. Gígarnir eru þrír, Litla-Grábrók, Stóra-Grábrók og Grábrókarfell.

Stærð náttúruvættisins er 28,7 ha.

Aðgengi

Grábrókargígar eru við þjóðveg 1, um Norðurárdal í Borgarfirði. Gott aðgengi er á Stóru-Grábrók og göngupallar hafa verið byggðir alla leið upp á toppinn á Grábrók. Gönguleið liggur kringum Grábrók og í kringum Grábrókarfell. Svæðið er opið allt árið, en aðgengi getur orðið erfitt þegar snjór er mikill og því ber að hafa varann á sér. Svæðið er í umsjón Umhverfisstofnunar, heilsárslandvarsla er við Grábrókargíga.

Umgengisreglur

  • Efnistaka, jarðrask og hvers konar breyting á landslagi er bannað nema í samráði við Umhverfisstofnun.
  • Gangandi fólki er heimil för um hið friðlýsta svæði enda sé fylgt merktum slóðum og snyrtimennsku gætt í hvívetna.
  • Tjalddvöl er háð leyfi.
  • Akstur á hinu friðlýsta svæði er aðeins heimill með leyfi Umhverfisstofnunar og landeigenda. Akstur utan vegar og merktra slóða er bannaður.

Öllum er heimil för um svæðið. Göngum vel um og berum virðingu fyrir náttúrunni og öðrum gestum.

Um náttúruvættið

Grábrókargígar voru friðlýstir fyrst árið 1962 sem náttúruvætti, en friðlýsingu var breytt árið 1974. Gígarnir eru þrír, Litla-Grábrók, Stóra-Grábrók og Grábrókarfell. Gígarnir tilheyra eldstöðvarkerfi sem teygir sig langt vestur á Snæfellsnes og er hluti af eldstöðvarkerfi Ljósufjalla. Hraunið úr gígunum þekur stóran hluta Norðurárdals. 

Útsýni ofan af Grábrók er gott og sést vel yfir stóran hluta Norðurárdals. Ofan af Grábrók má vel sjá hvert hraunið hefur runnið og hvernig það hefur náð að stífla dalinn og myndað Hreðarvatn.

Við Grábrók eru merkar leifar fyrri tíma, en í jaðri Grábrókar er gömul hlaðin fjárrétt sem nýtt var frá 1831 til 1872. Aðra gamla fjárrétt má sjá við Grábókarfell, en hún tók við af gömlu réttinni og var nýtt allt til ársins 1992.

Heimildir; Byggðir Borgarfjarðar III. Þórhildur Þorsteinsdóttir ábúandi á Brekku.