Hverfjall

Sjáðu þrívíddarkort af svæðinu.

Hverfjall (Hverfell) er hringlaga gígur sem nær frá 80 -170 m yfir flatlendið umhverfis en hæsti punktur þess er í 452 m hæð yfir sjávarmáli.

Af hverju var Hverfjall friðlýst?

Hverfjall (Hverfell) var friðlýst sem náttúruvætti 22. júní 2011.

Hverfjall (Hverfell) er í röð fegurstu og reglubundnustu öskugígamyndana sem gefur að líta á Íslandi og talinn í röð þeirra stærstu sinnar tegundar á jörðinni. Gígurinn er óvenjulegur að því leyti að gígskálin er álíka djúp og gígurinn er hár. Hann myndaðist í þeytigosi fyrir um 2500 árum. Gígurinn myndaðist í eldgosahrinu sem nefnd hefur verið Hverfjallseldar (orðið eldar er gjarnan notað um síendurtekin eldgos með stuttum hléum í sama eldgosakerfi, en orðið gos vísar frekar til einstakra, stakra atburða eða hrina í lengri atburðarás). Sprungureinin sem Hverfjallseldar komu upp á var um 25 km löng í heild sinni þar sem Hverfjall (Hverfell) var á suðurenda sprungunnar. Gos í sprungurein eru aldrei á einni, samfelldri sprungu heldur skiptist reinin í margar styttri einingar. Hverfjall (Hverfell) sjálft er á syðsta hluta af um 1800 metra langrar sprungu. Annar, mun minni öskugígur skammt norðan gígsins og er talinn hafa myndast í upphafi gossins er myndaði Hverfjall (Hverfell).

Markmiðið með friðlýsingu Hverfjalls (Hverfells) sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis og útivistargildis. Gígurinn er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem um Mývatnssveit fara.

Hvar er Hverfjall (Hverfell)?

Hverfjall er að finna í Mývatnssveit. Svæðið er í eigu jarðarinnar Voga og er staðsett um 2 km suðaustan við Vogahverfið í Mývatnssveit.

Hið friðlýsta svæði er tæplega 313 hektarar að stærð.

Hvað er áhugavert?

Þegar gaus þar sem Hverfjall (Hverfell) er nú komst basaltkvikan sem kom upp um gosrásina í mikla snertingu við vatn. Er talið að Mývatn hafi náð á lengra til austurs en nú þegar gosið varð og sprungan hafi opnast í vatninu. Grunnt stöðuvatnið dugar þó ekki til að útskýra það magn vatns sem kom við sögu í gosinu, þannig að auk þess vatns sem Mývatn lagði til hlýtur mikið vatn að hafa átt greiða leið inn í sjálfa gosrásina neðanjarðar. Þegar kvika lendir í miklu vatni tætist hún sundur í miklum gufusprengingum og verður að ösku sem hleðst í kringum gígopið. Aska berst með tvennu móti frá gígnum í gosinu. Annars vegar fer hún upp með gosstróknum og leggst yfir landið sem öskufall úr honum. Hins vegar fer hún sem öskuflóð sem vellur niður gígbarmana. Meðan flóðið er á hreyfingu hagar það sér líkt og þunnfljótandi leðja. Getur flóðið þá ætt yfir hvað sem er, grafið farvegi í undirlagið og klesst á það sem fyrir verður, t.d. trjástofna, en mikið er af trjábolaförum neðst í öskulaginu. Þessi öskuflóð náðu rúma 3 km út frá gígnum og sjást ummerki um þau sem túffstabbar, mjög lagskiptir, sem eru einkum á svæðinu norðan við Hverfjall (Hverfell). Þegar lengra er haldið sést aðeins loftborin aska en hún dreifðist allvíða.

Gosið hefur sennilega staðið stutt og er það m.a. rökstutt með dreifingu öskunnar, en talið er að gosið hafi komið upp í SV-átt en vindur hafi síðan snúist til norðanáttar. Út frá þessu hafa menn getið sér þess til að vindar hafi ekki náð að breyta meira um stefnu en hér er talað um.

 Hverfjall (Hverfell) er hringlaga gígur sem nær frá 80 -170 m yfir flatlendið umhverfis en hæsti punktur þess er í 452 m hæð yfir sjávarmáli. Gígbarmarnir rísa nánast upp af jafnsléttu, nema síst að austan og botn gígskálarinnar er í stórum dráttum í svipaðri hæð og landið fyrir utan. Hlíðar Hverfjalls (Hverfell) eru fremur brattar, víðast 20-25°.Inni í gígbotninum er lágt fell eða keilulaga hæð sem rís 37 m upp fyrir gígbotninn. Þvermál gígsins að ofan er rúmlega 1000 m og um 2000 m við ræturnar.

 Gott útsýni er af Hverfjalli (Hverfelli). Auðvelt er að gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem flekaskil jarðskorpunnar hafa á svæðinu.

Aðgengi

Vegur liggur að Hverfjalli (Hverfelli) af þjóðveginum skammt sunnan Voga. Vegurinn er lélegur, en fær fólksbílum á sumrin. Vegurinn er oft ófær á veturna.

Gönguleiðin upp á gíginn frá bílastæði norðvestan við gíginn er frekar auðveld en hún liggur skáhallt upp eftir misgengi upp á brúnina, leiðin er tæpir 600 m að lengd og tekur 10-25 mínútur að ganga hana. Hringleiðin eftir gígbarminum er auðveld leið um 3,2 km að lengd. Frá uppgöngunni suður á hæsta punkt tekur 15-20 mín. að ganga en það tekur um 1 klst. að ganga allan hringinn. Leiðin suður af gígnum að Dimmuborgum er brött og erfið hún liggur skástíg niður vatnsgrafning er um 600m löng og tekur 30-45 mín að ganga hana. Einnig liggur mjög auðveld gönguleið frá bílastæðinu norðvestan við Hverfjall (Hverfell) meðfram gígnum að göngustígnum að Dimmuborgum, leiðin er tæpir 2 km og tekur 20-30 mín að ganga hana.

Venjulega er hægt að ganga á Hverfjall (Hverfell) allan ársins hring en snjóalög og hálka gera gönguna stundum erfiðari en ella.