Löggjöfin

Reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur tók gildi 22. september 2014. Á sama tíma féll úr gildi reglugerð nr. 1101/2004 um markaðssetningu sæfivara sem tók fyrst gildi á Íslandi árið 2004.

Reglugerð nr. 878/2014 um sæfivörur innleiðir reglugerð (ESB) nr. 528/2012 um að bjóða sæfivörur fram á markaði og notkun þeirra (Biocidal Products Regulation, BPR). Markmiðið með þessari reglugerð er að bæta frjálsan flutning sæfivara innan EES svæðisins og tryggja um leið hátt verndarstig fyrir heilbrigði manna og dýra, sem og umhverfið. 

Reglugerð (ESB) nr. 528/2012 var birt á íslensku í EES viðbæti nr. 4 þann 23 janúar 2014.

Með reglugerð nr. 878/2014 var einnig innleiddur listi yfir virk efni sem bannað er að nota í sæfivörur, bannlistinn (e. non-inclusion decisions) sem er uppfærður af framkvæmdarstjórninni.

Samkvæmt reglugerð nr. 878/2014 þurfa allar sæfivörur markaðsleyfi áður en þær eru markaðssettar á Íslandi. Markaðsleyfi er veitt eftir að virku efnin í vörunni hafa verið áhættumetin og þau komin á lista yfir samþykkt virk efni („jákvæði listinn“) sem birtur er á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu.

Efnastofnun Evrópu (ECHA) uppfærir þennan lista jafn óðum og virk efni bætast við hann.