Kvikasilfur

Kvikasilfur (e. mercury) er eitt af frumefnum jarðar. Það er ólíkt öðrum málmum á ýmsan hátt og er til að mynda á fljótandi formi við stofuhita sem gerir það að álitlegum kosti til að nota í hitamæla. Blanda kvikasilfurs og annars málms kallast amalgam og er slík blanda kvikasilfurs og silfurs notuð í tannlækningum. Í sparperum og flúrljósum breytir kvikasilfrið raforku í ljósorku.

Hvar er líklegt að finna það?

  • Amalgam tannfyllingum
  • Flúrljósum
  • Sparperum
  • Sumum hitamælum
  • Smárafhlöðum
  • Raftækjum
  • Í sumum snyrtivörum sem ætlaðar eru til að lýsa húðlit

Hvernig kemst það inn í líkamann?

  • Í gegnum fæðuna
  • Með innöndun 
  • Með upptöku í gegnum húð

Hvernig getur það haft áhrif á heilsu?

  • Skaðað lungu
  • Aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum
  • Skert þroska heilans og taugakerfisins hjá fóstrum og ungabörnum
  • Skaðað útlæga og miðlæga taugakerfið og heilann (t.a.m. skjálfti, svefnleysi, breytingar á hegðun og minnisskerðing)
  • Aukið líkur á nýrnaskemmdum
  • Skaðað meltingarveginn

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efninu?

  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Forðumst húðhvíttunarvörur sem innihalda kvikasilfur.
  • Forðumst að hita málmblöndur sem innihalda kvikasilfur.
  • Komum rafhlöðum, raftækjum og perum í réttan farveg eftir notkun til móttökuaðila.

Nánari umfjöllun um kvikasilfur

Kvikasilfur (e. mercury) er eitt af frumefnum jarðar og er í flokki þungmálma (e. heavy metal). Kvikasilfur og efnasambönd þess, bæði ólífræn og lífræn, eru meðal hættulegustu eiturefna sem við þekkjum bæði fyrir heilsu okkar og umhverfið. Það er ólíkt öðrum málmum á ýmsan hátt og er til að mynda eini málmurinn sem er á fljótandi formi við stofuhita. Kvikasilfur gufar upp að hluta jafnvel við stofuhita og getur ferðast langar vegalengdir frá uppruna sínum. Kvikasilfur oxast í háloftunum og fellur til jarðar með rigningu. Örverur geta svo, undir ákveðnum skilyrðum, breytt kvikasilfri í metýlkvikasilfur sem er mjög eitrað og magnast upp fæðukeðjuna.

Kvikasilfur myndast náttúrulega í jarðskorpunni og kemst upp á yfirborðið með eldgosum en er þá ekki í mikilli snertingu við okkur þar sem það er bundið í steinefnum. Athafnir manna og notkun kvikasilfurs í vörur hafa leitt til þess að það dreifist út í umhverfið og kemst þá í snertingu við okkur og aðrar lífverur. Algengt var t.a.m. að nota kvikasilfur í hitamæla og sem tannfyllingar, amalgam, en nú er það mikið til takmarkað og bannað. Aðrar uppsprettur kvikasilfurs eru m.a. brennsla á kolum, sorpbrennsla, málmbræðsluver, námuvinnslur á gulli sem eru smáar í sniðum og bálstofur.

Fóstur og ungabörn eru hve viðkvæmust fyrir útsetningu á kvikasilfri en það getur borist úr blóði móður í gegnum fylgjuna og til fósturs. Þar getur það haft skaðleg áhrif á miðtaugakerfið og þá sérstaklega þroska heilans í fóstrinu. Skaðsemi kvikasilfurseitrunar blasti við alþjóðasamfélaginu þegar þúsundir manna í Japan urðu fyrir slíkri eitrun vegna frárennslis frá efnaverksmiðju í Minamata sem innihélt mikið magn kvikasilfurs, en kvikasilfurseitrun kallast einnig Minamata sjúkdómurinn.

Vegna skaðsemi kvikasilfurs var ákveðið að stofna til alþjóðasamnings til að vernda heilsu manna og umhverfið fyrir kvikasilfri og kvikasilfursefnasamböndum sem eru tilkomin af mannavöldum. Sá samningur heitir Minamatasamningurinn og er Ísland aðili að honum ásamt um 140 öðrum löndum. Almennt hefur iðnríkjum tekist vel að skipta út kvikasilfri fyrir staðgöngukosti en þeir geta reynst dýrir og þar af leiðandi eru þróunarríkin ekki eins vel stödd og þar heldur notkunin áfram að vera vandamál.

Á EES svæðinu er kvikasilfur bannað og/eða takmarkað og kemur við sögu í nokkrum reglugerðum. Hér eru nokkrar þeirra:

Bannað er að markaðssetja og nota kvikasilfur í vörur sem eru ætlaðar eru til að hindra vöxt örvera, plantna eða dýra á skip, tæki eða búnað fyrir fiskeldi, hvern þann búnað sem er alveg eða að hluta til á kafi í vatni. Að auki má ekki nota það til viðarvarnar, við gegndreypingu slitþolinna iðnaðartextíla og garns í framleiðsluferlinu og við meðhöndlun vatns frá iðnaði (REACH, XVII. viðauki, færsla 18; Umhverfisstofnun).

Bannað er að markaðssetja líkamshitamæla og önnur mælitæki sem eru ætluð til sölu til almennings sem innihalda kvikasilfur (REACH, XVII. viðauki, færsla 18a; Umhverfisstofnun).

Sérstök viðmiðunarmörk gilda fyrir kvikasilfur þegar það er notað í þurru, stökku duftkenndu eða þjálu leikfangaefni, í fljótandi eða límkenndu leikfangaefni eða í leikfangaefni sem er skafið af (II. viðauki við reglugerð nr. 944/2014 um öryggi leikfanga, 3. gr. 13. gr.; HMS).

Í tilteknum raf- og rafeindatækjum má kvikasilfur ekki vera meira en 0,1 % af þyngd í einsleitum efnum (reglugerð nr. 630/2014 um takmarkanir á notkun tiltekinna, hættulegra efna í raf- og rafeindabúnaði; HMS).

Ekki er heimilt að nota amalgam við tannlæknameðferð barnatanna fyrir börn sem eru undir 15 ára nema algjör nauðsyn þyki (reglugerð nr. 640/2022 um kvikasilfur; Umhverfisstofnun)

ATH - Kvikasilfur getur komið fyrir í ýmsum fiskum, einkum túnfiski, en sú umfjöllun verður ekki rakin hér. Ef áhugi er fyrir fróðleik og leiðbeiningum vegna kvikasilfurs í mat þá bendum við á ráðleggingar frá Matvælastofnun Danmerkur vegna kvikasilfurs á dönsku og Áliti á kvikasilfri í mat frá Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) á ensku.

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Upplýsingar um kvikasilfur á heimasíðu lífvöktunarverkefnis Evrópusambandsins (e. HBM4EU):

Almennt um kvikasilfur á dönsku á heimasíðu Miljøstyrelsen

Almennt um kvikasilfur á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Miljødirektoratet

Almennt um kvikasilfur á sænsku á heimasíðu Karolinska Institutet

 

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 2. apríl 2024.