Efnainnihald gúmmíkurls á gervigrasvöllum

Tilgangur og markmið:

Í kjölfar mikillar umræðu í samfélaginu um mögulega skaðsemi gúmmíkurls á gervigrasvöllum ákvað Umhverfisstofnun að:

  • kanna og bera saman með efnagreiningu efnainnihald gúmmíkurls sem notað er á gervigrasvöllum hér á landi.
  • birta í framhaldinu tilmæli og greinargerð Umhverfisstofnunar um notkun gúmmíkurls á gervigrasvöllum.

Framkvæmd og niðurstöður:

Tekin voru sýni á 5 gervigrasvöllum af þeim þrem gerðum af kurli sem fyrst og fremst hefur verið notað sem fylliefni á slíkum völlum hérlendis, þ.e. þrjú sýni með svörtu dekkjakurli af mismunandi aldri, eitt sýni með lituðu (húðuðu) dekkjakurli og eitt sýni með gráu iðnaðargúmmíi. Styrkur ýmissa efna sem mæld voru í kurlinu, s.s. fenóls, kresóls, xýlenóls, PCB og þalata reyndist ætíð vera undir greiningarmörkum. Sérstakar mælingar sýndu að heildarmagn PAH, sem getur verið krabbameinsvaldandi, var umtalsvert hærra í svörtu dekkjakurli heldur en í iðnaðargúmmíi, en þó ekki í þeim styrk sem talinn er hættulegur miðað við núverandi þekkingu. Þess má geta að Efnastofnun Evrópu (ECHA) er nú með til sérstakrar skoðunar hvort heilsufarsleg áhætta geti stafað af notkun dekkjakurls sem fylliefnis í gervigrasi.

Tilmæli ásamt greinargerð Umhverfisstofnunar um dekkjakurl sem fylliefni á gervigrasvöllum má finna hér.

Samantekt um efnagreiningar á gúmmíkurli á gervigrasvöllum 2016 má nálgast hér.