Paraben

Paraben eru manngerð efni sem hafa verið víða notuð síðan um 1920. Efnin eru notuð sem rotvarnarefni m.a. í snyrtivörum fyrir bæði börn og fullorðna. Rotvarnarefni hindra bakteríu- og mygluvöxt og viðhalda gæðum vara í lengri tíma.

Í hvaða vörum er líklegt að finna þau?

 • Snyrtivörum
 • Húðvörum
 • Hreinlætisvörum
 • Hárvörum
 • Ilmvötnum/rakspírum
 • Matvörum með E númerin (E214-219)

Hvernig geta þau komist inn í líkamann?

 • Með upptöku í gegnum húð 
 • Í gegnum fæðuna
 • Með innöndun

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

 • Dregið úr frjósemi
 • Truflað innkirtlastarfsemi líkamans
 • Aukið líkur á þróun ofnæmis (sjaldgæft)

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efnunum?

 • Velja vörur án parabena þegar það er hægt. Á innihaldslýsingu vara eru þau með endinguna –paraben. Sérstaklega bútýlparaben (e. Butylparaben).
 • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
 • Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.

Nánari umfjöllun um paraben

Paraben er hópur líkra efna sem notuð eru sem rotvarnarefni í t.a.m. snyrtivörum fyrir bæði börn og fullorðna, matvælum og hreinlætisvörum. Rotvarnarefni hindra bakteríu- og mygluvöxt og viðhalda gæðum vara í lengri tíma. Í snyrtivörum tíðkast að nota efnin metýl-, etýl-, própýl- og bútýlparaben. Oft eru notuð fleiri en eitt þessara efna í sömu vöruna, en paraben eru oftast notuð í lágum styrk.

Deilt hefur verið um skaðsemi efnanna en almennt teljast þau sýna skaðleg áhrif þegar þau koma fyrir í háum styrk (a.m.k. hærri en 0,4 %). ATH – innihaldsefni snyrtivara birtast í styrkleikaröð á vörunni, paraben ættu að vera meðal þeirra síðarnefndu á listum. Hins vegar er ekki til nægileg þekking á áhrifum efnanna á okkur þegar við erum í sífelldri snertingu við þau í lágum styrk. Sum þeirra eru talin herma eftir hormóninu estrógen, önnur eru talin draga úr frjósemi karla og hafa áhrif á gæði sæðis á meðan enn önnur eru talin ekki hafa óæskileg áhrif yfirhöfuð. Skaðleg áhrif efnanna virðist aukast með stærð sameindarinnar (s.s. með aukinni lengd og greinum alkýl hliðarkeðjunnar).

Samkvæmt mati Efnastofnunar Evrópu (e. ECHA) er eitt efnanna, bútýlparaben (e. butylparaben), innkirtlatruflandi (e. endocrine disrupting) og hefur verið bætt á listann yfir sérlega varasöm efni. Tvö önnur paraben eru nú í mati vegna gruns um innkirtlatruflandi eiginleika, en það eru efnin própýlparaben (e. propylparaben) og metýlparaben (e. methylparaben). Eins og staðan er í dag hyggst ECHA ekki meta etýlparaben (e. ethylparaben) þar sem ekki er grunur um innkirtlatruflandi eiginleika þess. Engu að síður hafa dýratilraunir sýnt annars konar óæskileg áhrif efnisins þegar það kemur fyrir í stórum skömmtum (hægt er að skoða þau gögn undir tenglum neðst á þessari síðu hjá SCCS og EFSA).

Vísindanefnd um öryggi neytenda (e. SCCS) lagði fram álit sitt á parabenum (nýjasta útgáfa er frá 2013) og var það tekið til greina við ákvörðun um takmarkanir á parabenum í snyrtivörum:

 • Leyfilegur hámarksstyrkur fyrir metýl- eða etýlparaben sem rotvarnarefni er 0,4 % af heildarþyngd vörunnar af hvoru efni fyrir sig.
 • Bútýl- eða própýlparaben mega ekki fara yfir 0,14 % af heildarþyngd snyrtivara sem rotvarnarefni.
 • Bútýl- eða própýlparaben mega ekki vera í snyrtivörum sem hannaðar eru til notkunar á bleyjusvæði barna yngri en 3 ára.
 • Heildarstyrkur fyrir metýl-, etýl-, bútýl- og própýlparaben þegar þau eru notuð í sömu vöruna má ekki fara yfir 0,8 % af heildarþyngd vörunnar.

Fimm aðrar gerðir parabena eru bannaðar í framleiðslu á snyrtivörum og mega ekki vera til staðar hvort sem er ein og sér eða sem blanda, þ.e. isóprópýlparaben, ísóbútýlparaben, fenýlparaben, benzýlparaben og pentýlparaben.

Hægt er að forðast snyrtivörur sem innihalda paraben með því að kaupa áreiðanlegar umhverfisvottaðar vörur, t.a.m. Svaninn. Slík merki beita oft varúðarráðstöfunum þar sem að ef einhver grunur leikur á að efni hafi neikvæð áhrif á heilsu eða umhverfi þá eru þau tekin úr umferð til öryggis.

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Almennt um paraben á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Umfjöllun um paraben og snyrtivörur á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Almennt um rotvarnarefni á norsku á heimasíðu Svansmerkisins.

Álit varðandi paraben, nýjasta útgáfa á ensku birt af vísindanefnd um öryggi neytenda, ESB (e. SCCS).

Álit á öryggi parabena í matvælum á ensku á heimasíðu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (e. EFSA).

 

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 21. desember 2022.