Reykjatorfan - Reykjadalur/Grændalur

Haustið 2018 lagði Landbúnaðarháskóli Ísland það til við Umhverfisstofnun að Reykjatorfan yrði friðlýst. Í kjölfarið óskaði Umhverfisstofnun eftir mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á verndargildi svæðisins og skipaður var samstarfshópur með það hlutverk að vinna að undirbúningi friðlýsingarinnar í samræmi við málsmeðferðarreglur laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Samstarfshópinn skipa fulltrúar sveitarfélaganna Ölfuss og Hveragerðisbæjar, fulltrúi Landbúnaðarháskólans, fulltrúi umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins og fulltrúar Umhverfisstofnunar. 

Verndargildi svæðisins

Reykjatorfan liggur upp af Hveragerði innan marka sveitarfélagsins Ölfus. Verndargildi svæðisins er hátt. Landslag svæðisins einkennist af jarðhita og er þar fjöldi hvera og lauga, bergganga, brota og framhlaupa. Svæðið hefur hátt rannsókna- og fræðslugildi auk þess sem verndargildi lífríkis og jarðminja er mikið. Innan marka svæðisins eru tveir dalir, Reykjadalur og Grændalur. 

Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Reykjadal á hverju ári en svæðið er mjög vinsælt útivistarsvæði og undir miklu álagi. Umhverfisstofnun hefur þurft að beita lokunum á svæðinu, m.a. vorið 2018, vegna ágangs ferðamanna og hættu á gróðurskemmdum. 

Grændalur liggur samsíða Reykjadal. Hann er vel gróinn og þar er að finna gróskumikið votlendi, jarðhitasvæði og viðkvæm vistkerfi og vistgerðir sem þola illa ágang. Er þar m.a. að finna mýrarhveravist, móahveravist og hveraleirsvist auk jarðhitalækja. Grændalur er að mestu óraskaður en umferð ferðamanna hefur aukist um svæðið á undanförnum árum. 

Svæðið er nr. 752 á náttúruminjaskrá, þ.e: Hengilssvæðið, Ölfushreppi, Grafningshreppi, Árnessýslu. (1) Vatnasvið Grændals, Reykjadals og Hengladala ásamt Marardal og Engidal norðan Húsmúla. Að sunnan liggja mörk um Skarðsmýrarfjall, Orrustuhól og Hengladalsá að Varmá. (2) Stórbrotið landslag og fjölbreytt að jarðfræðilegri gerð, m.a. jarðhiti.

Markmið friðlýsingarinnar

Friðlýsing svæðisins miðar að því að vernda merkar jarðmyndanir og tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni sem og að standa vörð um náttúrulegt ástand og ferla svæðisins. Jafnframt er markmiðið með friðlýsingu Reykjadals að vernda sérkenni og einkenni landslagsins og byggja upp útivistarsvæði þar sem útivistargildi dalsins er hátt m.a. vegna nálægðar við þéttbýli. Markmiðið með friðlýsingu Grændals er að standa vörð um náttúrulegt ástand svæðisins og þróun þess á eigin forsendum, m.a. með því að vernda viðkvæm náttúruleg þróunarferli, vistkerfi, vistgerðir, fjölbreytni, tegundir og jarðfræðileg fyrirbæri.   

Áform um friðlýsingu auglýst í desember 2018

Áform um friðlýsingu svæðisins voru auglýst í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga, þann 20. desember 2018 en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skulu kynnt sérstaklega. Frestur til að skila athugasemdum við áformin var til og með 18. febrúar 2019. 

Næstu skref: 

Undirbúningur friðlýsingar settur á bið.
Í apríl 2019 tilkynnti sveitarfélagið Ölfus að það þyrfti að fara yfir það sem er á skipulagi Ölfuss/hugmyndir Ölfuss varðandi uppbyggingu innviða og mörk svæðisins o.fl. samhliða undirbúningi friðlýsingarinnar. Frekari undirbúningi að friðlýsingu Reykjadals/Grændals var frestað á meðan ekki fengust upplýsingar um áætlanir Ölfuss. Sveitarfélagið Ölfus upplýsti síðar sama ár að mörk svæðisins væru umtalsvert umfram það sem bæjarfulltrúar og fulltrúar í skipulags-, umhverfis-  og bygginganefnd hafi verið að horfa til og óskaði eftir svigrúmi til að fara yfir málin áður en lengra yrði haldið. 

Á 107. fundi sínum, dags. 11. október 2019, ræddi skipulags-, bygginga- og umhverfisnefnd (SBU) áform um friðlýsingu Reykjatorfunnar en þar segir: SBU lýsir áhyggjum af umfangi friðlýsingar enda ekki í samræmi við fyrri samþykktir SBU eða bæjarstjórnar. Á fundi SBU nr. 101 (21.2.2019) var eftirfarandi bókun samþykkt og staðfest í bæjarstjórn: "Mörk friðlýsingar skv. erindi umhverfisstofnunar þarfnast endurskoðunar að mati SBU og leggur SBU fram hnitasett kort sem sýnir mörk æskilegs svæðis ásamt rökstuðningi." Svæðið er því stærra en bæjaryfirvöld hafa lýst áhuga á og því ekki hægt að staðfesta mörk skv. erindi Umhverfisstofnunar. Nú liggur ekki fyrir samþykkt auðlindastefna í sveitarfélaginu Ölfus. SBU beinir því til bæjarstjórnar að gera hlé á friðlýsingaráformum þar til að fyrir liggur samþykkt auðlindastefna“.
Bæjarstjórn staðfesti þennan lið með svohljóðandi afgreiðslu á 271. fundi sínum: 1901004. Áform um friðlýsingu Reykjatorfunnar. - Samþykkt samhljóða: Bæjarstjórn fagnar afstöðu SBU og samþykkir að skipa stýrihóp um gerð auðlindastefnu fyrir sveitarfélagið.
Í framhaldinu óskaði sveitarfélagið Ölfus eftir því að hlé yrði gert á vinnu við friðlýsingu svæðisins og sveitarfélaginu gefið tækifæri á að ljúka við gerð auðlindastefnu sem sögð var hafin.

Tengd skjöl

Reykjatorfan – kort af svæðinu
Sjá þrívíddarkort af svæðinu.