Brennisteinsdíoxíð

Brennisteinsdíoxíð (brennisteinstvíildi) er litlaus lofttegund sem flest fólk finnur lykt af, ef styrkurinn nær u.þ.b. 1000 µg/m3. Allt jarðefnaeldsneyti inniheldur brennistein og er það háð uppruna og tegund eldsneytisins hve mikill hann er.

Meginhluti þess brennisteinsdíoxíðs sem lendir af manna völdum í andrúmsloftinu myndast við bruna á eldsneyti (kol, olía) t.d. frá bifreiðum. Við bruna eldsneytisins oxast brennisteinninn í brennisteinstvíoxíð (SO2) sem sleppur út í andrúmsloftið nema fram fari hreinsun á afgasinu. Stór hluti myndast einnig við ýmiss konar iðnað, t.d. pappírsiðnað og málmiðnað.

Brennisteinsdíoxíð berst einnig í andrúmsloftið frá náttúrulegum uppsprettum, t.d. við niðurbrot lífræns efnis og við eldgos. Styrkur í hreinu andrúmslofti er áætlaður u.þ.b. 1 µg/m3. Reiknað er með að 10% af brennisteinsdíoxíði í andrúmsloftinu komi frá náttúrulegum ferlum. Þegar brennisteinsdíoxíð losnar út í andrúmsloftið, hvarfast það við OH radikala (radical) í andrúmsloftinu og myndar SO(brennisteinssýru, e. sulfurous acid), sem síðan hvarfast við vatn og myndar brennisteinssýruagnir (sulforic acid particles).

Brennisteinsdíoxíð er hvarfgjarnt efni og tekur ýmsum breytingum í umhverfinu. Hluti hvarfast eða loðir við yfirborð fastra efna. Þannig er í menguðu umhverfi venjulega mun lægri styrkur innandyra en utan (aukin tæring). Gróður getur tekið upp brennisteinsdíoxíð og hefur vissa hæfileika til að umbreyta því í súlfat (SO4). Ef mikið brennisteinsdíoxíð er til staðar, þannig að þessum hæfileika sé ofboðið, koma fram gróðurskemmdir. Brennisteinsdíoxíð er einnig ein helsta ástæðan fyrir súru regni. Hluti oxast í súrefni loftsins í tríoxíð, sem leysist upp í raka loftsins og myndar brennisteinssýru. Hluti þeirrar sýru eyðist í andrúmsloftinu t.d. með hvarfi við ammoníak en líklega fellur stærstur hluti til jarðar í formi súrs regns og hefur það víðtækar afleiðingar. Súrt regn hefur m.a. í för með sér skemmdir á gróðri og eyðingu skóga auk þess sem það stuðlar að skemmdum á byggingum og öðrum mannvirkjum.

Oxun brennisteinsdíoxíðs yfir í tríoxíð gerist með "fótókemískum" leiðum og fyrir áhrifa ýmissa málmhvata, svo sem járns, mangan og vanadíum. Hraði efnahvarfsins og eftirfylgjandi hreinsunar úr andrúmsloftinu er háður aðstæðum eins og hitastigi, loftraka og rykmagni. Talið er að helmingunartími brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti sé að meðaltali um 3 sólarhringar.

Brennisteinsdíoxíð hefur neikvæð áhrif á heilsu manna og hár styrkur brennisteinsdíoxíðs getur hindrað öndun, ert augu, nef og háls, valdið köfnun, hósta, öndunarsjúkdómum og óþægindum í brjósti. Einnig hefur það áhrif á öndun plantna, getur valdið drepi og vanlíðan dýra og valdið málmtæringu.

Brennisteinsdíoxíðmengun á Íslandi

Á Íslandi losna þúsundir tonna af brennisteinsvetni (H2S) á ári þegar jarðhiti er unninn úr jörðinni og hluti brennisteinsvetnisins oxast smám saman í brennisteinsoxíð. Íslenskur iðnaður, álver og fiskimjölsverksmiðjur losa einnig þónokkuð af brennisteinsdíoxíði.

Einnig losar bifreiðaumferð nokkuð af efninu, en það er íslenski skipaflotinn sem veldur jafn mikilli losun brennisteinsdíoxíðs og allur iðnaður í landinu. Mestur hluti þeirrar losunar fer fram langt frá landi, en í kringum stórar hafnir getur öll þessi umferð samt sem áður haft mikil áhrif á gæði loftsins á svæðinu.

Tenglar: