PFAS

PFAS efni (e. per- and polyfluorinated alkyl substances) hafa þótt mjög eftirsóknarverð í alls kyns vörur vegna eiginleika þeirra að hrinda frá sér bæði vatni og fitu.

Í hvaða vörum er líklegt að finna þau?

 • Textíl og leðri sem eru vatns- eða fitufráhrindandi (t.d. fatnaður, skór, gólfmottur, tjöld, áklæði og töskur)
 • Viðloðunarfríum (e. non-stick) pönnum og pottum
 • Snyrtivörum
 • Matvælaumbúðum
 • Hreinsiefnum
 • Raftækjum
 • Skíðavaxi
 • Vatnsvörnum, t.a.m. spreyjum
 • Málningu og lökkum
 • Slökkvitækjafroðum

Hvernig geta þau komist inn í líkamann?

 • Með innöndun
 • Í gegnum fæðuna
 • Með upptöku í gegnum húð

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

 • Aukið líkur á skjaldkirtilssjúkdómum
 • Ónæmiseiturhrif (e. immunotoxicity)
 • Aukið líkur á krabbameini í nýrum og eistum
 • Lifrarskemmdir
 • Eiturhrif á þroskun (e. developmental toxicity)
 • Áhrif á æxlun og frjósemi
 • Lækkun á fæðingarþyngd nýbura
 • Hækkað kólesteról
 • Auknar líkur á sykursýki og offitu

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir PFAS efnum?

 • Velja vörur sem merktar eru PFAS-fríar þegar það er hægt. Merkingar eru oftast á ensku sem:
  • PFC free
  • Fluorine free
  • PFTE free
 • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
 • Velja potta og pönnur úr keramiki, ryðfríu stáli eða steypujárni í staðinn fyrir viðloðunarfríar (e. non-stick).
 • Forðast skyndibita sem er vafinn inn í fitufráhrindandi pappír (e. grease-proof paper).
 • Hugsa sig tvisvar um þegar kemur að því að vatnsverja og skoða hvaða efni eru í vatnsvörninni.
 • Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.

Nánari umfjöllun um PFAS efni

PFAS (e. per- and polyfluorinated alkyl substances) er stór efnahópur sem samanstendur af tugþúsunda manngerða efnum. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa mjög sterkt efnatengi á milli kolefnis og flúoratóma sem gerir það að verkum að þau eru afar óhvarfgjörn og stöðug við notkun og í umhverfinu. Rannsóknir benda til að efnin brotni ekki að fullu niður í náttúrunni. Sum þeirra brotna ekkert niður á meðan önnur brotna mjög hægt niður en mynda þá önnur PFAS efni. Því eru efnin kölluð þrávirk og geta magnast upp í mönnum, dýrum og umhverfinu með tímanum.

Efnin eru mörg hver vatnsleysanleg og hreyfanleg í jarðvegi. Þegar þau losna út í umhverfið ferðast þau aðallega með loft- og vatnsstraumum og geta því borist langa leið frá uppruna sínum. Þau hafa fundist bæði í lífverum og í umhverfinu um allan heim meðal annars á Norðurlöndunum og norðurskautssvæðinu.

Þekktustu og mest rannsökuðu PFAS efnin eru PFOS (e. perfluorooctanesulfonate) og PFOA (e. perfluorooctanoic acid) og hafa þau bæði verið flokkuð m.a. sem efni sem hafa eiturhrif á æxlun (e. reproductive toxicant) og sem grunaðir krabbameinsvaldar. PFOA (einnig þekkt sem C8) var notað í nokkra áratugi til að framleiða Teflon viðloðunarfríar pönnur en var fasað út eftir að skaðsemi þess kom í ljós. Síðustu ár hefur vísindasamfélagið lagt áherslu á að skoða skaðsemi PFAS efna en vegna fjölda þeirra er það tímafrekt verk sem er hvergi nærri lokið. Því skortir enn þekkingu varðandi áhrif flestra PFAS efna á heilsu fólks og umhverfið.

Efnin finnast í alls kyns vörum sem við notum dags daglega. Fyrirtækjum ber ekki skylda til að taka fram að PFAS efni séu til staðar í vörum þeirra. Þess vegna er góð leið til að forðast efnin að velja vörur sem eru umhverfismerktar eða sérstaklega merktar sem PFAS-fríar.

Nokkur PFAS efni eru takmörkuð innan EES með reglugerð (ESB) nr. 1021/2019 um þrávirk lífræn efni. Takmarkanirnar ná til tiltekinna efna en ná ekki yfir allan PFAS efnahópinn sem slíkan. Þetta getur leitt til þess að efnum sem heyra undir takmarkanirnar sé skipt út fyrir lík PFAS efni sem ekki eru takmörkuð. Í ESB er til skoðunar að takmarka öll PFAS efni og myndi Efnastofnun Evrópu (e. ECHA) þá leggja mat á allan hópinn einu í stað þess að taka fyrir eitt efni fyrir sig.

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Upplýsingar um PFAS á heimasíðu lífvöktunarverkefnis Evrópusambandsins (e. HBM4EU):

Almennt um PFAS efni á ensku á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu (e. ECHA).

Fróðleikur um PFAS efni á ensku á heimasíðu OECD.

Almennt um PFAS efni á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Almennt um PFAS efni á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Almennt um PFAS efni á sænsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Svíþjóðar.

Umfjöllun um PFAS efni á sænsku á heimasíðu Efnastofnunar Svíþjóðar (Kemikalieinspektionen):

 

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 20. september 2022.