Mánaðarlegt eftirlit með efnavörum á markaði með áherslu á merkingar

Inngangur

Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með eftirliti á efnum, efnablöndum og hlutum sem innihalda efni, sbr. hlutverk stofnunarinnar með framkvæmd efnalaga nr. 61/2013. Markmið efnalaga er að tryggja að meðferð á efnum og efnablöndum valdi hvorki tjóni á heilsu manna né umhverfi, tryggja frjálst flæði á vörum á innri markaði ESB og koma í veg fyrir ólöglega markaðssetningu.

Undir lok ársins 2017 var ráðist í eftirlitsverkefni sem nær til ýmissa efnavara í almennri sölu sem geta verið hættulegar heilsu og/eða umhverfi á einhvern hátt. Farið var samtals í 20 eftirlitsferðir á tímabilinu nóvember 2017 til desember 2018 og lentu vörur frá 30 birgjum í úrtaki. Skoðaðar voru vörur sem flokkast sem hættulegar samkvæmt reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna sbr. reglugerð (EB) nr. 1272/2008 sama efnis. Verslanir voru valdar miðað við það að hægt væri að skoða fjölbreytt vöruúrval frá sem flestum birgjum á hverjum stað. Stefnt  var að því fyrirfram að skoða allt að fimm vörur í fyrirfram ákveðnum vöruflokkum í hverri eftirlitsferð.

Tilgangur og markmið 

  • Að athuga hvort ákvæðum reglugerða um merkingar og umbúðir á hættulegum efnavörum í sölu til almennings í því skyni að fá fram mynd af raunverulegri stöðu mála hvað þetta varðar hér á landi.
  • Að upplýsa birgja og söluaðila um reglur sem gilda um merkingar á vörum sem innihalda hættuleg efni.
  • Að auka neytendavernd.

Framkvæmd og niðurstöður

Til þess að tryggja að niðurstöður endurspegli raunveruleikan sem best voru vöruflokkarnir og vörurnar í úrtaki valdar af handahófi. Í hverri verslun var byrjað á því að finna til þær vörur sem féllu undir umfang eftirlitsins, þær númeraðar og svo valdar í úrtak af handahófi með aðstoð forrits sem býr til tilviljunarkenndar tölur. Í 1. töflu má  sjá þær verslanir sem farið var í eftirlit til ásamt vöruflokkum sem voru skoðaðir á hverjum stað.Til þess að fá mynd af alvarleika frávikana voru þau flokkuð í þrjú s tig eins og sýnt er í 1. töflu, þar sem 1. stig er minnst alvarlegt og 3. stig mest alvarlegt. Ef frávik við merkingar telst vera á 1. stigi þarf að senda Umhverfissstofnun tillögu að fullnægjandi úrbótum en ekki þarf að endurmerkja vörur sem þegar eru komnar í sölu fyrr en við næstu miðaprentun. Við frávik á 2. stigi þarf sömuleiðis að senda Umhverfisstofnun tillögu að fullnægjandi úrbótum og auk þess að endurmerkja allar vörur sem þegar eru í sölu í samræmi við þær. Falli frávik undir 3. stig krefst Umhverfisstofnun tímabundinar stöðvunar á markaðssetningu vörunnar sem um ræðir, þar til úrbætur hafa átt sér stað. 


Í heildina voru 102 vörur skoðaðar í eftirlitinu og 75 af þeim höfðu eitt eða fleir frávik frá gildandi reglum um merkingar, eða 74% þeirra (3. tafla). Út frá flokkunarskilyrðunum í 2. töflu féllu flestar vörur undir það að vera með frávik á 2. stigi, eða 47%, en fæstar með frávik á 3. stigi, eða 5%. Hjá 26% varanna fundust ekki frávik varðandi merkingar en 22% varanna reyndust vera með frávik á 1. stigi.. Á 1. mynd má sjá hlutfallslega skiptingu frávika og hlutfall frávikalausra vara.


1. mynd  Hlutfallsleg skipting frávika

Af vörunum sem voru skoðaðar vantaði íslenskar merkingar á 21 vöru sem gefur hlutfallið 21%. Vörur gátu haft frávik þrátt fyrir að vera merktar á íslensku, til dæmis gamlar og úreltar merkingar eða rangt orðalag á hættu- og varnaðarsetningum og/eða viðvörunarorðum.

Eftirmálar

Þeim birgjum sem báru ábyrgð á vörum með frávik var veittur þriggja vikna frestur til að verða við kröfum Umhverfisstofnunar um úrbætur. Brugðust þeir almennt við á fullnægjandi hátt, innan frestsins sem gefinn var, en nokkrir fengu þó viðbótarfrest til þess að verða við kröfum og hafa þeir nú orðið við þeim.