Mat

Um mat er fjallað í VI. bálki REACH og því má skipta í tvo flokka eftir því hvort um er að ræða mat á málsskjölum eða mat á efnum eins og nánar er útlistað hér að neðan.

Mat á málsskjölum

Til að tryggja að skráningar efna séu fullnægjandi velur ECHA ákveðið hlutfall skráninga til að skoða sérstaklega. Ef það kemur í ljós við slíkt eftirlit að skráningargögnum er ábótavant getur þess verið krafist af skráningaraðilum að þeir leggi fram viðbótarupplýsingar til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar.

Upphaflega sögðu ákvæði REACH að ECHA ætti að taka að lágmarki 5% skráninga til sérstaks eftirlits en í ljósi þeirrar reynslu að skráningum er oft ábótavant hefur það hlutfall nú verið hækkað í 20%.

Mat á efnum

Ef yfirvöld í ESB/EES-landi grunar að efni eða hópur efna hafi í för með sér áhættu fyrir heilsu og/eða umhverfi geta þau lagt til að viðkomandi efni verði sett á forgangslista fyrir mat. Í slíku matsferli getur verið nauðsynlegt að afla aukinna upplýsinga frá skráningaraðilum til að komast að niðurstöðu um það hversu hættuleg efnin eru.

Forgangslistinn fyrir mat er hlaupandi þriggja ára áætlun, sem uppfærð er árlega, um hvaða efni eigi að meta og yfirvöld í hvaða landi muni sjá um matið. Listinn er jafnan kallaður CoRAP eftir ensku heiti hans Community Rolling Action Plan. Lögbært yfirvald sem ber ábyrgð á mati tiltekins efnis eða hóps af efnum hefur 12 mánuði til að komast að niðurstöðu um hvort þörf sé á frekari upplýsingum frá skráningaraðilum áður en ályktað er um áhættu af efnunum.

Aukin reglusetning í kjölfar mats

Ef mat á efni leiðir til þeirrar niðurstöðu að grunur um áhættu fyrir heilsu/umhverfi er staðfestur er yfirleitt farin sú leið að leggja til frekari reglur um efnið. Þetta getur til dæmis falið í sér undirbúning tillagna um samræmda flokkun og merkingu, tillögur um skráningu á kandídatalistann eða tillögur um takmarkanir eða bann við notkun efnisins.