Helgustaðanáma

Um friðlýsinguna

Helgustaðanáma var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Með sanni má segja að svæðinu hafi ekki verið sýnd hæfileg virðing né ræktunarsemi og þyrfti að gera gangskör í því að bæta þar aðgengi, auka fræðslu um silfurbergið og svæðið og ekki síst koma á framfæri gildi og hlutverki silfurberg í sögu vísinda.Silfurberg kallast sérlega tærir kristallar af steindinni kalsít (einnig oft nefnt kalkspat). Erlent heiti silfurbergs á helstu málum er tengt Íslandi (Iceland spar, Spar d’Islande, o.sv. frv.) og er eitt fárra fyrirbæra úr ríki náttúrunnar sem kennt er við Ísland. Einna stærstu og tærustu eintökin af silfurbergi í heiminum hafa fundist á stað nálægt bænum Helgustaðir við norðanverðan Reyðarfjörð. Silfurbergi frá Helgustöðum mun hafa verið safnað allt frá miðri 17. öld en vinnsla þess náði hámarki á 19. öld og stóð rétt fram yfir 1920. Silfurberg (Kalsít) var sótt í námuna frá 17. öld fram á miðja 20. Hægt er að sjá ummerki eftir námagröft.

Ástæða þess að silfurberg var unnið eru ljósfræðilegir eiginleikar þess en steindin tvískautar ljós betur en aðrar steindir auk þess sem hún er gagnsæ og getur verið algerlega laus við óhreinindi (sjá mynd). Silfurbergið frá Helgustöðum gegndi veigamiklu hlutverki í þróun margvíslegra rannsókna í eðlis-, efna- og jarðfræði á ofanverðri 19. og við upphaf 20. aldar, einkum var það notuð í svokallaða Nicolprisma þar sem hægt var að stýra sveifluhreyfingu ljóssins sem fór í gegn um þá.

Texti tekinn að mestu upp eftir ritum frá Leó Kristjánssyni.

Sjá m.a.: · Um silfurberg frá Helgustöðum og þróun vísinda. Glettingur 31, 3. tbl. 2002, bls. 35-39. · Iceland Spar: The Helgustadir calcite locality and its influene on the development of science. Journal of Geocsience Education, 50, 4. tbl. 2002, bls. 419-427 · Silfurberg: einstæð saga kristallanna frá Helgustöðum. Jökull, 50, 2001, bls. 95-108.

Stærð náttúruvættisins er 0,9 ha.

Svæði í hættu

Svæðið er á rauða listanum

Auglýsing nr. 525/1975 í Stjórnartíðindum B.

Styrkleikar

Helgustaðanáma er ein frægasta silfurbergsnáma í heimi en þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Enskt heiti silfurbergs er Iceland spar og er eitt af þeim náttúrufyrirbærum sem kennt er við Ísland, enda er það fágætt á heimsvísu. Úr Helgustaðanámu kemur mest af því silfurbergi sem er að finna á söfnum víða um heim. Náman dregur að sér mikinn fjölda ferðamanna. Sveitarfélagið hefur unnið hefur verið deiliskipulag fyrir svæðið í samráði við Umhverfisstofnun. Fulltrúar Umhverfisstofnunar hafa verið í samskiptum við sveitarfélagið varðandi gerð umsjónarsamnings fyrir svæðið. Umhverfisstofnun hefur látið framleiða tvö fræðsluskilti fyrir svæðið og einn vegvísi. Umhverfisstofnun lét vinna öryggisúttekt fyrir Helgustaðanámu. Gert er ráð fyrir framkvæmdum á svæðinu sumarið 2014 til að styrkja innviðiþess.

Veikleikar

Svæðið hefur enga innviði til að taka á móti miklum fjölda ferðamanna. Ekkert reglulegt eftirlit er með námunni og eru silfurbergskristallarnir því með öllu óvarðir.

Ógnir 

  • Mikið álag af völdum ferðamanna. 
  • Fréttir um steinatöku færast sífellt í aukana. 

Tækifæri 

  • Vinna þarf verndaráætlun. 
  • Farið verði í framkvæmdir í samræmi við deiliskipulag til að minnka álag á svæðið og koma til móts við fjölda ferðamanna sem þangað leitar. 
  • Fylgja þarf eftir þeim ábendingum sem koma fram í öryggisúttekt. 
  • Koma þarf á virku eftirliti með svæðinu.
  • Klára þarf gerð umsjónarsamnings við sveitarfélagið.