Veiðireglur

Veiðitímabil 2024 

Umhverfisstofnun hefur sent inn veiðistjórnunartillögur fyrir rjúpu árið 2024 til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og lagt til að veiðar verði með eftirfarandi hætti. 

Tímabilið hefjist föstudaginn 25. október. Veiðar verði frá og með föstudögum til og með þriðjudögum.  

Veiðidagar eru heilir og skiptast þannig niður eftir landshlutum: 

  • Austurland: 45* (25. okt – 22. des)  
  • Norðausturland: 20 (25. okt – 19. nóv) 
  • Norðvesturland: 20 (25. okt – 19. nóv) 
  • Suðurland: 20 (25. okt – 19. nóv) 
  • Vesturland: 20 (25. okt – 19. nóv) 
  • Vestfirðir: 25 (25. okt – 26. nóv) 

*43 veiðidagar þar sem lög 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum kveða á um að rjúpa sé ekki veidd eftir 22. desember 

Lesa tillögurnar í heild sinni

Vísað er til stofnmats Dr. Fred Johnsons og draga nýrrar stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpu til rökstuðnings þessara tillaga. 

Hægt var að senda inn athugasemdir varðandi tillögurnar í viku eftir að þær voru opinberaðar. Þau sem hugður gera slíkt voru hvött til þess að kynna sér stjórnunar- og verndaráætlunina áður en spurningar voru sendar inn þar sem hún útskýrir fasta stjórnþætti og aðferðafræði við ákvarðanatöku á lengd veiðitímabils. Engar athugasemdir bárust Umhverfisstofnun.

Sölubann á rjúpu

Það er í gildi sölubann á rjúpu á Íslandi. Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. 

Sjá tilkyningu á vef umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins.

Hvar má veiða rjúpu?

Veiðar eru áfram óheimilar á Reykjanesi (Landnám Ingólfs) en ráðuneytið hefur þó farið þess á leit við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun að leggja mat á afnám friðunar á því svæði. Nánar um veiðisvæði.

Veiðitímabil fyrri ára 

Í töflunni hér að neðan má sjá yfirlit yfir veiðitímabil árin 2005 til 2023. Á þessum árum var landinu ekki skipt upp í mismunandi veiðisvæði eins og nú er gert. Veiðireglur hafa verið mismunandi á milli ára svo ítarlegri reglur má sjá í dálkinum lengst til hægri.