Krem og sápur

Til eru kynstrin öll af kremum, sápum og sjampói eins og sjá má í hillum verslana. En þrátt fyrir fjölbreytnina og loforð framleiðanda um margs konar verkun þá eiga krem, sápur og sjampó það sameiginlegt að þau innihalda oft á tíðum efni sem geta verið skaðleg heilsu okkar. Þessi efni gefa vörunni ákveðna eiginleika eins og lykt eða áferð og rotvarnarefni tryggja góðan líftíma vörunnar. Framleiðendum ber skylda til að tilgreina innihaldsefni á umbúðum og því er hægt að sneiða hjá vörum sem innihalda skaðleg efni með því að kynna sér hver þau eru. Ekki hika við að spyrja afgreiðslufólkið ráða.

Hinn náttúrulegi ilmur af ungabarni er einstakur og algjör óþarfi að nota sápur, sjampó og krem daglega jafnvel þó um sé að ræða vörur sem ætlaðar eru börnum. Varast skal vörur með ilm- og rotvarnarefnum því ilmefnin geta valdið ofnæmi og rotvarnarefnin hormónaröskun. Ofnæmið lýsir sér oftast í ertingu í húð, útbrotum og öndunarerfiðleikum og ætti að leita læknis ef slík viðbrögð koma fram hjá barninu..

Almennar ráðleggingar:

  • Leitaðu eftir umhverfismerktum vörum, t.d. með Svaninum og Evrópublóminu. Slíkar vörur taka bæði tillit til heilsu og umhverfis og standast strangar kröfur um efnainnihald.
  • Veldu ekki vörur sem innihalda efnið D5 (síloxan). Það gefur sjampói ákjósanlega áferð en er ofnæmisvaldandi.
  • Veldu ekki vörur sem innihalda rotvarnarefnin paraben. Paraben eru talin raska hormónajafnvægi í mönnum og dýrum. Gættu þess að snyrtivörur sem þú kaupir innihaldi ekki bönnuð paraben en þau eru ísóprópýl-, ísóbútýl-, fenýl-, bensýl- og pentýlparaben. Ef þú rekst á slíkar vörur láttu Umhverfisstofnun vita á ust@ust.is
  • Veldu ekki vörur sem innihalda musk-xýlen en það er ilmefni sem er ofnæmisvaldandi og brotnar mjög hægt niður í náttúrunni.
  • Spurðu afgreiðslufólkið ráða - það á að þekkja innihald vörunnar. Óskaðu eftir vörum án ilm- og rotvarnarefna, a.m.k. án ofangreindra efna.

Ráðleggingar vegna ungabarna:

  • Forðast að þvo ungabörnum með sápum. Húð barna er þunn og viðkvæm,  þess vegna eru þau gjörn á að fá útbrot og exem vegna ertingar. Líkur á útbrotum og exemi eru meiri ef ilmefni og rotvarnarefni eru í sjampói, sápu og kremi sem notað er.
  • Forðast að smyrja húð barnsins með kremi. Í flestum tilvikum er ekki þörf á að bera krem á hana.
  • Kaupið krem og sápur án ilmefna því ilmefni valda oft ofnæmi. Á innihaldslista vöru kallast ilmefni oftast „parfume“, „parfum“ eða „aroma“. Svansmerktar vörur fyrir ungabörn mega ekki innihalda ilmefni en slíkt er þó leyfilegt fyrir eldri börn.