Innflutningsleiðir

Innflutningur tegunda á ný svæði getur átt sér stað með ýmsum hætti, ýmist vísvitandi eða fyrir slysni. Þegar tegundir eru fluttar inn vísvitandi hefur tilgangur innflutningsins í gegnum tíðina verið æði mismunandi, allt frá því að innfluttu tegundirnar séu notaðar til skrauts í görðum fólks, nýttar í landgræðslu og í landbúnaði, til þess að dýr eru flutt inn og sleppt í þeim tilgangi að vera fæða fyrir önnur dýr eða til að éta önnur dýr. Tegundir hafa einnig verið fluttar inn í því skyni að endurheimta glötuð vistkerfi eða til að hægt sé að stunda sportveiði á þeim.

Algengt er að plöntutegundir séu fluttar inn sem skrautplöntur í garða eða til að nota í landbúnaði eða landgræðslu. Sumar plöntutegundir sem hafa verið fluttar inn með þessum hætti hafa náð fótfestu og mikilli útbreiðslu. Vísvitandi innflutningur er ekki eina innflutningsleið plöntutegunda. Þær geta t.a.m. flust inn með því að taka sér far með öðrum tegundum (t.d. vatnaplöntur sem berast með vatnafuglum, fræ með býflugum og fleiri dýrum), með manninum eða farartækjum á hans vegum sem geta borið fræ á milli staða, með korni og öðrum landbúnaðarvörum (m.a.s. dæmi um að fræ hafi borist með kaffibaunum) og með mold, jarðvegi og garðaúrgangi. Þá er einnig algengt að plöntur sem notaðar eru sem skrautplöntur í fiskabúrum berist út í náttúruna þegar fiskabúrin eru losuð, en plöntur og fræ þeirra geta borist langar leiðir með vatni.

Algeng innflutningsleið skordýra og smádýra er að þær tegundir taki sér far með öðrum tegundum sem fluttar eru til (t.d. egg spánarsnigils á plöntum, nýsjálenski flatormurinn á skrautplöntum og ýmis sníkjudýr með fiskum). Þessar tegundir geta einnig borist með manninum, t.d. með veiðiútbúnaði milli vatna, á farartækjum og með manninum sjálfum, með mold og garðaúrgangi (egg skordýra og skordýrin sjálf), með innflutningi á timbri og með fiskabúrum (sleppa út í náttúruna þegar fiskabúrin eru losuð) eða með flutningi á matvælum. Flutningur smádýra og skordýra milli hafsvæða getur einnig átt sér stað. Þau geta borist með kjölfestuvatni eða með því að setjast utan á báta.

Stærri dýr hafa í flestum tilvikum verið flutt inn á ný svæði af manna völdum, en þó eru einnig dæmi þess að þau flytjist af sjálfsdáðum, t.a.m. kanadagæs. Í flestum tilvikum hafa tegundirnar verið fluttar milli svæða í því skyni að nýta þær með einhverjum hætti eða til að halda sem gæludýr og dýrin síðan sloppið úr haldi, náð fótfestu og útbreiðslu. Þá eru einnig dæmi um að dýr, ýmist stór eða smá, hafi flust milli svæða þegar þau hafa verið notuð sem beita fyrir önnur dýr.

Í töflunni hér fyrir neðan er yfirlit yfir helstu innflutningsleiðir framandi tegunda, flokkað eftir því hvort innflutningurinn sé vísvitandi, óbeinn (þ.e. ekki vísvitandi) eða hvort hann sé eftir öðrum leiðum.

Tafla 1. Yfirlit yfir innflutningsleiðir framandi tegunda.

Vísvitandi innflutningur

Óbeinn innflutningur

Aðrar innflutningsleiðir

Innflutningur á skrautplöntum

Með öðrum tegundum

Að sjálfsdáðum

Innflutningur á gæludýrum

Með manninum

 

Innflutningur á tegundum til nýtingar

Með landbúnaðarvörum

 

 

Með mold og jarðvegi

 

 

Með garðaúrgangi

 

 

Með fiskabúrum

 

 

Með vatni

 

 

Með innflutningi á timbri

 

 

Með kjölfestuvatni

 

 

Með farartækjum

 

 

Með matvælum

 

Á Íslandi hefur á undanförnum árum verið unnið að uppbyggingu gagnagrunns um framandi og ágengar tegundir með þátttöku í verkefni sem gengur undir heitinu NOBANIS. Verkefnið er samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu sem vinna að því að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra framandi tegunda. Tilgangur verkefnisins er að þróa og búa til net gagnagrunna með upplýsingum um framandi tegundir í Norður-Evrópu og gera þær aðgengilegar. Upplýsingar úr gagnagrunninum má nýta til að finna þær tegundir sem taldar eru vera ágengar eða líklegar til að verða það og þar er að finna ýmsar upplýsingar varðandi tegundirnar.