Framkvæmd og heimildir

Verkaskipting stjórnvalda

Verkaskipting stjórnvalda er tilgreind í II. kafla efnalaga og eru þar talin upp hlutverk Umhverfisstofnunar, heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, Vinnueftirlits ríkisins, Skattsins (áður Tollstjóri), Neytendastofu, Eitrunarmiðstöðvar Landspítala og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Umhverfisstofnun er falið að annast eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerða sem eru settar samkvæmt þeim, þ.e. eftirlit með framleiðslu, meðferð og markaðssetningu efna, efnablandna og hluta sem undir lögin falla og hjá stofnuninni gegnir teymi efnamála þessu hlutverki.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa eftirlit með meðferð og merkingum efna í skráningar- eða starfsleyfisskyldri starfsemi sem heyrir undir starfsleyfi sem þær gefa út og/eða hefur eftirlit með á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Komi fram grunur um brot á þáttum sem falla undir lög þessi í eftirliti heilbrigðisnefndar skal hún tilkynna um það til Umhverfisstofnunar sem fer með þvingunarúrræði og viðurlög samkvæmt lögunum.

Vinnueftirlit ríkisins gefur út eiturefnaleyfi vegna notkunar eiturefna við framkvæmd vinnu,  annars eftirlit með meðferð, notkun og merkingum efna á vinnustöðum og hefur eftirlit með búnaði til dreifingar á plöntuverndarvörum. Við breytingu á efnalögum á árinu 2019 bættist sú skylda við hlutverk Vinnueftirlitsins að taka saman upplýsingar um atvinnusjúkdóma sem tengjast sæfivörum. Neytendastofa fer með eftirlit með auglýsingum og svipuðum viðskiptaaðferðum og Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með raf- og rafeindabúnaði

Teymi efnamála hjá Umhverfisstofnun

Hlutverk teymis efnamála er fjölbreytt og verkefnin margvísleg en þar má til dæmis nefna eftirfarandi:

 • Að greina fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið áhrif af EES-gerðum um efnamál áður en þær eru innleiddar í íslenskan rétt
 • Að skrifa drög að reglugerðum og kynna fyrir hagsmunaaðilum 
 • Að útbúa eftirlitsáætlun og standa fyrir eftirliti með efnum, efnablöndum og hlutum sem innihalda efni
 • Að sjá um gagnaskil til ESB og alþjóðlegra stofnana um framkvæmd reglugerða og alþjóðlegra samninga varðandi efnamál
 • Að taka við ábendingum um ólöglegar vörur og bregðast við þeim
 • Að annast upplýsingagjöf um efnalöggjöfina til annarra stjórnvalda, iðnaðarins og almennings
 • Að kenna á námskeiðum 
 • Að taka þátt í norrænu og evrópsku samstarfi

Efnamál eru viðamikill málaflokkur sem nær m.a. til reglugerða um: 

 • Fljótandi eldsneyti,
 • Flokkun, merkingu og pökkun hættulegra efna og efnablandna, 
 • Flúoraðar gróðurhúsalofttegundir,
 • Kvikasilfur,
 • Plöntuverndarvörur,
 • Ósoneyðandi efni, 
 • Skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir varðandi efni (REACH), 
 • Snyrtivörur,
 • Sæfivörur, 
 • Þvotta- og hreinsiefni, 
 • Þrávirk lífræn efni.

Framkvæmd eftirlits

Hefðbundið eftirlit felst í því að fara á staðinn og kanna hvort viðkomandi starfsemi fylgi lögum og reglugerðum. Á tímum netvæðingar er einnig hægt að framkvæma margs konar eftirlit á rafrænan hátt með því að kalla eftir upplýsingum og gögnum. Hvort tveggja er nauðsynlegt við gott eftirlit. Þegar búið er að fá þau gögn í hendur sem óskað er eftir eru þau greind og ef í ljós koma frávik frá reglugerðum þá eru gerðar kröfur um úrbætur. Þeim kröfum er síðan fylgt eftir með viðeigandi hætti þar til úrbætur hafa verið gerðar.

Stór hluti eftirlits felst í að upplýsa eftirlitsþegann um þær reglugerðir sem gildi um viðkomandi málaflokk. Málaflokkurinn er flókinn og yfirgripsmikill og því er þessi hluti eftirlitsins afar mikilvægur.

Í XI. kafla efnalaga um eftirlit eru tilgreindar þær heimildir sem Umhverfisstofnun hefur til eftirlits, aðgengi að gögnum, heimild til sýnatöku og fleira. Þar kemur fram að hver sá sem hefur undir höndum efni, efnablöndu og hlut sem inniheldur efni skuli veita án endurgjalds alla nauðsynlega aðstoð við eftirlitið, svo sem aðstoð starfsmanns, aðgang að húsakynnum og tækjabúnaði. Einnig ber að veita Umhverfisstofnun allar umbeðnar upplýsingar og afhenda þau gögn sem hafa þýðingu við eftirlitið.

Þvingunarúrræði

Samkvæmt XIII. kafla efnalaga um þvingunarúrræði er Umhverfisstofnun heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu og jafnframt hæfilegan frest til úrbóta. Þegar aðili sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur Umhverfisstofnun ákveðið honum dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir renna til ríkissjóðs og er hámark þeirra 500.000 kr. á dag.

Umhverfisstofnun er heimilt að takmarka markaðssetningu efnis, efnablöndu eða hlutar sem inniheldur efni ef skilyrði efnalaga eða reglugerða settra samkvæmt þeim eru ekki uppfyllt. Í þessu felst m.a. að Umhverfisstofnun getur tekið úr sölu eða dreifingu eða innkallað tiltekin efni, efnablöndur eða hluti sem innihalda efni þar til bætt hefur verið úr ágöllum.

Einnig er Umhverfisstofnun heimilt að stöðva markaðssetningu vöru sem uppfyllir ekki skilyrði efnalaga eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Í þessu felst m.a. að Umhverfisstofnun getur varanlega tekið úr sölu eða dreifingu eða innkallað tiltekin efni, efnablöndur eða hluti sem innihalda efni og lagt hald á slíka vöru. Enn fremur er heimilt að krefjast þess að birgir fargi viðkomandi efni, efnablöndu eða hlut með öruggum hætti eða afturkalli vöruna eða geymi þar til bætt hefur verið úr ágöllum eða hættu afstýrt með viðunandi hætti.

Telji Umhverfisstofnun svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun efnis eða efnablöndu að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef þurfa þykir. Umhverfisstofnun getur leitað aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða.

Viðurlög

Samkvæmt XIV. kafla efnalaga um viðurlög getur Umhverfisstofnun lagt hald á efni, efnablöndur eða hluti sem innihalda efni sem uppfylla ekki skilyrði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim og fargað þeim á kostnað handhafa þeirra. Umhverfisstofnun getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn ákveðnum ákvæðum sem tilgreind eru í lögunum. Sektir sem eru lagðar á einstaklinga geta numið frá 10.000 kr. til 10.000.000 kr. Sektir sem eru lagðar á lögaðila geta numið frá 25.000 kr. til 25.000.000 kr. Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Aðili máls getur einungis skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin.

Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Umhverfisstofnun skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn 1) skráningarskyldu, 2) tilkynningarskyldu vegna markaðssetningar eiturefna og varnarefna, 3) ákvæðum um markaðssetningu ósoneyðandi efna, 4) ákvæðum um markaðsleyfi varnarefna.

Brot gegn efnalögum varða sektum eða fangelsi hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Umhverfisstofnun hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Umhverfisstofnun að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Umhverfisstofnun, á hvaða stigi máls sem er, vísað því til opinberrar rannsóknar vegna brota á efnalögum. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.

Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlög getur hann sent eða endursent málið til Umhverfisstofnunar til meðferðar og ákvörðunar. Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga þessara til ráðherra. Um kærurétt og málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.