Umhverfistofnun - Logo

Surtarbrandsgil

Sýning um Surtarbrandsgil

Sýning Umhverfisstofnunar um náttúruvættið Surtarbrandsgil í gamla prestsbústaðnum á Brjánslæk er opin daglega á sumrin. Aðgangur er öllum opin án endurgjalds. Í tengslum við opnunartíma sýningar er boðið upp á göngur í fylgd landvarðar í gilið eftir því sem hér segir: Þriðjudaga, miðvikudaga, fimmtudaga, laugardaga og sunnudaga kl. 13:00.

Athugið að uppganga í gilið er óheimil nema í fylgd landvarðar. Frekari upplýsingar eru veittar í síma 822-4080 eða 831-9675.

Af hverju friðlýsing?

Surtarbrandsgil var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Tilgangur friðlýsingarinnar er að vernda steingerðar leifar gróðurs sem er að finna í millilögum, einkum surtarbrandi og leirlögum. Þetta eru leifar gróðurs sem klæddu landið á tertíer-tímabilinu. 

Staðsetning 

Surtabrandsgil er í landi Brjánslækjar á Barðarströnd innan landamerkja Vesturbyggðar. Náttúruvættið afmarkast fyrir mynni gilsins að austan og að hábrún þess að sunnan, vestan og norðan. 

Stærð náttúruvættisins er 272 ha.

Aðgengi

Til að komast að sýningu um Surtarbrandsgil er ekið eftir Barðastrandarvegi nr. 62 að Brjánslæk, vestan friðlandsins í Vatnsfirði. Rúmlega hálftíma gangur er að gilinu frá sýningunni.
 Steingerðar plöntuleifar  eru  ekki endurnýjanlegar;  það sem er tekið í burtu er ekki afturkræft og hætta er á hruni úr gilinu. Fólki er óheimil för um gilið nema í fylgd landvarðar.

Skipulagðar gönguferðir eru í gilið yfir sumartímann. Nánari upplýsingar í síma 591 2000.

Hvað er áhugavert?

Í Surtabrandsgili eru leifar tegundaríkustu skóga, sem fundist hafa í jarðlögum hér á landi, í um það bil 12 milljóna ára gömlum setlögum. Plöntuleifarnar, laufblöð, aldin, fræ og frjókorn, hafa sest til í frekar grunnu stöðuvatni og grafist þar í botnsetið. Væntanlega hafa plönturnar vaxið meðfram vatns- og árbökkum í daladrögum þar sem grunnvatn stóð frekar hátt. Í vatninu var mikið af kísilþörungum sem féllu til botns og mynduðu ljósleita skán á öllum stærri flötum, einkum laufblöðum. Því eru flögur úr gilinu ljósar af kísilþörungum á annarri hlið, en dökkar á hinni.

Flestar þær trjátegundir sem mynduðu skóga landsins fyrir 12 milljónum ára eru útdauðar og skyldustu núlifandi tegundir þrífast á suðlægari breiddargráðum í tempruðum og heittempruðum lauf- og barrskógum. Meðal barrtrjáa má nefna þin, furu, greni, japansrauðvið, og vatnafuru. Af lauftrjám er meðal annars búið að bera kennsl á agnbeyki, anganvið, álm, birki, elri, fjórmiðju, hesli, hlyn, magnólíu, platanvið, lyngrós, sætblöðku, topp, túlípantré, valhnotu, víði, vænghnotu, þyrni og ösp.

Náttúruminjar

Surtarbrandur er myndaður úr plöntuleifum sem hafa kolast og pressast saman undan fargi hraunlaga, enda finnst hann nær alltaf á milli fornra hraunlaga. Jarðlögin eru frá síðari hluta nýlífsaldar, einkum míósen-tíma og eru yngri en 16-15 milljón ára. Setlög eru víða milli hraunlaga bæði vestanlands og austan. Rauð, frekar fínkornótt setlög eru frekar algeng, en þau eru talin forn jarðvegur, enda má víða sjá í þeim gömul gjóskulög. Gráleit sand- og völubergslög eru einnig algeng og eru þau að mestu leyti ár- og vatnaset.
Myndin sýnir einfalt jarðlagasnið af lögum í Surtarbrandsgili. Setlög með heillegum lífveruleifum, laufblöðum, aldinum og fræjum, eru að mestu úr siltsteini en steingervingar eru einnig í sandsteinslögum í gilinu. Jarðlagaeiningarnar þrjár sem geyma plöntusteingervinga eru auðkenndar með laufblöðum.

 

Menningarminjar

Surtarbrands er víða getið í ferðabókum og Íslandslýsingum frá því fyrr á öldum. Hann var talsvert notaður til heimabrúks þótt hann væri ekki sérlega gott eldsneyti. Hann logaði illa enda frekar steinefnaríkur. Vinnsla á honum jókst mikið í heimsstyrjöldinni fyrri þegar verulegs kolaskorts tók að gæta. Hún gekk þó misjafnlega en einna best á Skarði á Skarðsströnd og á Tjörnesi, þar voru tvær námur þegar best lét.

Styrkleikar

Svæðið er dýrmætt vegna setlagabrota sem þar finnast með steingervingum úr surtarbrandslögum og er vitnisburður um gróðurfar og loftslagsaðstæður sem ríkja ekki lengur hér á landi. Svæðið er mikilvægt fyrir rannsóknir, en aldursgreiningar á blágrýtishraunlögunum í Surtarbrandsgili gefa til kynna að aldur þeirra liggi á bilinu frá 9,1 – 11,9 milljónum ára. Náttúruupplifun og menningarminjar gera svæðið sérstakt. 

Sýning um Surtarbrandsgil var opnuð haustið 2016 og hún er opin almenningi yfir sumartímann. Landvörður hefur haft aukið eftirlit með svæðinu seinustu sumur og skipulagðar ferðir hafa verið í gilið fimm sinnum í viku á opnunartíma sýningarinnar. Allar göngur hefjast á því að sýningin er skoðuð. Nokkur skilti hafa verið sett upp á svæðinu með upplýsingum og fræðslu til ferðamanna og settir hafa verið upp sýningarkassar með sýnishornum af surtarbrandi. Göngustígur í gilið hefur verið bættur og göngubrú lögð yfir Hundafoss. Átak hefur verið gert í því að villandi upplýsingar í erlendum ferðahandbókum um að leyfilegt sé að fjarlægja steingervinga úr gilinu séu fjarlægðar í nýrri útgáfum. Allt þetta dregur úr álagi á gilið sjálft.

Surtarbrandsgil var á appelsínugulum lista sem friðlýst svæði í hættu vegna álags af gestakomum en með auknu fjármagni og fylgjandi innviðauppbyggingu síðustu ára hefur þeirri þróun verið snúið við og það skilar sér í aukinni vernd og verðmæti svæðisins. 

Veikleikar

Svæðið hefur takmarkaða innviði til að taka á móti miklum fjölda ferðamanna. Setlögin eru viðkvæm fyrir raski og er skaðinn óafturkræfur. 

 Ógnir

  • Mikið rask hefur verið í Surtarbrandsgili bæði af völdum manna og af náttúrulegum ástæðum. Nauðsynlegt er að halda áfram að hafa eftirlit með svæðinu og koma í veg fyrir að gestir fari án fylgdar í gilið eða fjarlægi steingervinga. 
  • Bergið slútir víða fram og er hrunhætta til staðar auk þess sem skriðuhætta getur myndast á slóða í gilið. 

Tækifæri

  • Tekist hefur að mestu að koma í veg fyrir að fólk fari án leyfis í gilið og taki þaðan steingervinga. Endurnýja þarf friðlýsingarskilmála fyrir náttúruvættið.
  • Auka mætti eftirlit enn frekar með svæðinu en sérfræðingur Umhverfisstofnunar á Patreksfirði fer með umsjón með því. Náttúruupplifun og jarðminjar gera svæðið mjög áhugavert. 

Ljósmyndir: Hlynur Gauti Sigurðsson