Kröfur um hreinsun fráveituvatns

Löggjöf um fráveitumál og hreinsun fráveituvatns er einn af mikilvægustu þáttum umhverfisstjórnunar. Eitt lykilatriðanna er sú krafa að koma á kerfisbundinni söfnun, meðhöndlun og hreinsun á skólpi frá íbúðarbyggð og atvinnurekstri til að vernda almenning og umhverfið gegn mengun af völdum skólps. Í því skyni hefur Ísland innleitt tilskipun Evópuþingsins nr. 91/271/EBE í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.

Almenn krafa um hreinsun á skólpi er tveggja þrepa hreinsun nema ef viðtakar hafa verið skilgreindir sem síður viðkvæmir eða losun fráveituvatns er út í viðkvæman viðtaka.

Í reglugerðinni voru settir fram tímafrestir fyrir hreinsun á skólpi. Kröfurnar um hreinsun eru síðanmismiklar eftir hæfni viðtaka sem þéttbýli losar í og fjölda persónueininga frá þéttbýli.

  • Fyrir 31. desember 2005 áttu öll þéttbýli sem losa 2.000 pe. eða meira í ferskvatn og ármynni að vera komin með hreinsun sem og öll þéttbýli sem losa 10.000 pe. eða meira í strandsjó.
  • Þéttbýli sem losa minna en 2.000 pe. í yfirborðsvatn/ármynni og minna en 10.000 pe. í sjó áttu að vera komin með viðunandi hreinsun fyrir 31. desember 2005.


Heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi vegna fráveitu- og hreinsibúnaðar sem notaður er til meðhöndlunar, hreinsunar og losunar á skólpi frá þéttbýli skv. 14. gr. rgl. nr. 798/1999 og skulu kröfur um hreinsun og umhverfismarkmið sem fráveitukerfið þarf að ná koma þar fram.  Heilbrigðiseftirlit fer einnig með eftirlit með öllum fráveitum skv. 5. gr. reglugerðarinnar.

Almennt má skipta hreinsun á fráveituvatni í fjögur stig.

  • Forhreinsun (grófhreinsun) þar sem rusl, sandur, fita og annað fast efni er hreinsað frá.
  • Eins þreps hreinsun þar sem föst efni, yfirleitt lífrænar agnir úr fráveituvatninu eru látnar setjast til eða eru síaðar burt.
  • Tveggja þrepa hreinsun er líffræðileg hreinsun sem  á að brjóta niður lífræna efnið enn frekar. Í kjölfarið er það botnfellt aftur.
  • Ítarleg hreinsun aðallega til að ná fram enn frekari hreinsun á fosfór og köfnunarefni. 

Tenglar

Erlendar upplýsingar um lítil skólphreinsimannvirki og skólphreinsun á svæðum þar sem ekki er hægt að tengjast fráveitu.