Um grænt bókhald

Grænt bókhald er skilgreint sem efnisbókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, aðallega í formi tölulegra upplýsinga. 

Grænt bókhald getur nýst fyrirtækjum á marga vegu. 

Stefna fyrirtækja í umhverfismálum

Með bókhaldinu eru gefnar upplýsingar um þá þætti sem valda neikvæðum umhverfisáhrifum framleiðslunnar. Stjórn fyrirtækisins getur notað skýrsluna um grænt bókhald til að koma stefnu sinni í umhverfismálum á framfæri og einnig til að draga fram það sem betur mætti fara við reksturinn. 

Fyrirtæki geta nýtt sér skýrslu um grænt bókhald í því skyni að veita upplýsingar til almennings um fyrirtækið jafnframt getur fyrirtækið treyst ímynd sína í samfélaginu með skýrslunni.

Fyrirtækin skilgreina umfang 

Þegar um er að ræða fyrirtæki með umfangsmikinn rekstur, eins og stór sjávarútvegsfyrirtæki, verður stjórn fyrirtækisins að ákveða hvort fjalla skuli um umhverfisáhrif allrar starfseminnar í einu eða hvort aðeins sé gerð skýrsla um grænt bókhald fyrir þær rekstrareiningar fyrirtækisins sem skylt er að færa slíkt bókhald fyrir. 

Enn fremur geta fyrirtæki sem reka margar verksmiðjur ákveðið að gefa út eina skýrslu með upplýsingum um allar verksmiðjurnar, eða gefið út skýrslur fyrir hverja verksmiðju fyrir sig.

Virk stýring og sparnaður

Skýrslu um grænt bókhald má einnig nota innan fyrirtækisins til að fá yfirlit yfir notkun hráefna og helstu umhverfisáhrif, sem síðar getur leitt til:  

  • Virkrar stýringar 
  • Takmörkunar á óæskilegum umhverfisáhrifum
  • Betri nýtingar hráefna
  • Sparnaðar 
  • Mögulegra úrbóta við framleiðsluna

Ef kostnaðarhlið rekstrarreiknings fyrirtækisins er skoðuð má sjá mikilvægar upplýsingar um virkni fyrirtækisins í umhverfismálum. Dæmi um slíkt er kostnaður við förgun sorps og eldsneytisnotkun fyrirtækisins. 

Grænt bókhald gefur sambærilegar upplýsingar á sviði umhverfismála og fjárhagsbókhald fyrir rekstrarafkomu fyrirtækisins.

Fyrsta skref í átt umhverfisstjórnunakerfi

Grænt bókhald er mikilvægur hlekkur í virkri umhverfisstjórnun. Fyrir fyrirtæki sem eru að fikra sig í átt til virkra umhverfisstjórnunarkerfa getur vinna við gerð fyrstu skýrslu um grænt bókhald verið undirstaða innleiðingar umhverfisstjórnunarkerfis. Færsla græns bókhalds krefst forgangsröðunar og skipulagningar í anda umhverfisstjórnunar. 

Þær upplýsingar sem safnast við vinnslu græns bókhalds má nota beint í umhverfisúttekt sem er eitt af fyrstu skrefunum við uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfis. 

Skýrsla um grænt bókhald kemur þó ekki í staðinn fyrir umhverfisstjórnunarkerfi, en getur verið liður í því. 

Aðilar græns bókhalds

Bókhaldsaðilar græns bókhalds er atvinnustarfsemi sem háð er starfsleyfi samkvæmt 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum. Hvaða atvinnustarfsemi um ræðir er tilgreint í fylgiskjali með reglugerðinni.

Grænt bókhald er sett fram í skýrslu þar sem fram koma niðurstöður græns bókhalds fyrir hvert bókhaldstímabil, sbr. skilgreiningar í reglugerð nr. 851/2002 um grænt bókhald.