Tillaga að friðlýsingu

Tillaga að friðlýsingu  þjóðgarðs á Vestfjörðum

Umhverfisstofnun, í samstarfi við samstarfshóp sem vinnur að undirbúningi friðlýsingar, leggur hér með fram tillögu að stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum, skv. 47. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Svæðið nær m.a. til Dynjanda, Geirþjófsfjarðar, Vatnsfjarðar og Hrafnseyrar.
 Samkvæmt 39. gr. sömu laga annast Umhverfisstofnun undirbúning friðlýsingar. Skv. 2. mgr. fyrrnefndrar greinar skal Umhverfisstofnun gera drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir landeigendur og aðra rétthafa lands, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu skal vera þrír mánuðir og skal stofnunin í kjölfarið vísa málinu til ráðherra með tillögum að friðlýsingarskilmálum og gera grein fyrir því hvort að náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila. Sú tillaga að friðlýsingarskilmálum sem Umhverfisstofnun kynnir nú byggir á því samtali sem hefur átt sér stað á vettvangi samstarfshóps.
     
 Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita einstakt svæði fyrir komandi kynslóðir. Með friðlýsingunni verður til heilstætt svæði sem hefur að geyma ómetanlegar náttúru- og menningarminjar og sögu.

Dynjandi var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1981. Hann er meðal hæstu fossa landsins, nær 100 metra hár og af mörgum talinn ein fegursta náttúruperla Íslands.
Vatnsfjörður var friðlýstur árið 1975 sem friðland og þar má finna mikla gróðursæld, fjölbreytt dýralíf, jarðhita ásamt menningarminjum.
Surtarbrandsgil var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 til verndar á einstökum steingerðum leifum gróðurs sem klæddi landið á tertíer-tímabilinu.
Geirþjófsfjörður er eyðifjörður á náttúruminjaskrá, þar ríkir mikil gróðursæld og kyrrð. Fjörðurinn er hluti af sögusviði Gíslasögu og þar má finna minjar sem tengdar hafa verið Gísla og Auði, konu hans.  
Á Hrafnseyri í Arnarfirði fæddist og ólst upp Jón Sigurðsson, frelsishetja íslensku þjóðarinnar. Til að minnast hans var fæðingardagur hans, 17. júní, valinn sem þjóðhátíðardagur Íslendinga. Á Hrafnseyri er fræðslusetur tileinkað ævi og minningu Jóns.  

Tillaga að friðlýsingarskilmálum  
Kort af svæðinu
Hnitaskrá   

     

Kynning á tillögu að friðlýsingu  

 Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna var til og með 26. maí 2021.  

Frekari upplýsingar veita Freyja Pétursdóttir (freyjap@ust.is) og Edda Kristín Eiríksdóttir (eddak@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.