Gönguleiðir

Gönguleiðir í Hornstrandafriðlandi

Í friðlandinu eru margar gönguleiðir og eru aðeins nokkrar nefndar hér.

Hesteyri - Sæból í Aðalvík - um Sléttuheiði

Farið er út Hesteyrarfjörðinn ofan Sléttu, upp á Sléttuheiði (200 m). Heiðin er ágætlega vörðuð og stígur liggur um hluta hennar. Af heiðinni liggur leiðin fram hjá prestsetrinu á Stað og þaðan að Sæbóli (5-6 klst.). Ef komið er við á Sléttu lengist gangan um 1-2 klst.

Hesteyri - Látrar í Aðalvík - um Hesteyrarskarð

Leiðin liggur um göngustíg frá Hesteyri og upp í Hesteyrarskarð en þar tekur við vörðuð leið fram á efstu drög Stakkadals. Stakkadalsós þarf að vaða rétt neðan Stakkadalsvatns. Þaðan er skammur gangur að Látrum (3-4 klst.)

Látrar í Aðalvík - Fljótavík - um Tunguheiði

Frá Látrum er veginum á Straumnesfjall fylgt þar til hann beygir til vesturs ofan Rekavíkur og tekur þá fljótlega við vörðuð leið um Tunguheiði fram á brúnir Tungudals. Þar liggur leiðin á gönguslóða um bratta hlíð niður dalinn og áfram að Fljótavatni.

Fljótavík - Kjaransvík - um Þorleifsskarð

Farið er um mýrlendi vestan Fljótavatns eða austan og upp bratta hlíð með lausum skriðum í Þorleifsskarð. Þar tekur við stórgrýti niður í Almenninga og síðan er farið um Almenningaskarð og í Kjaransvík. Þetta er seinfarin leið og erfið (8-10 klst.)

Hesteyri - Kjaransvík - Hlöðuvík - um Kjaransvíkurskarð

Frá Hesteyri í Kjaransvíkurskarð er farið eftir varðaðri leið um Hesteyrarbrúnir og að skarðinu (426 m). Norðan við skarðið tekur við vörðuð leið niður í Kjaransvík. Þaðan er haldið um fjöruna fyrir Álfsfell og í Hlöðuvík. Líka er hægt að fara fjöruleið inn Hesteyrarfjörð og er þá farið fram hjá rústum hvalveiðistöðvarinnar á Stekkeyri en á þeirri leið þarf að sæta sjávarföllum (6-7 klst.)

Hlöðuvík - Hornvík - um Atlaskarð

Frá Hlöðuvík liggur leiðin upp gönguslóða í brattri hlíð í innanverðum Skálakambi. Þar tekur við vörðuð leið ofan Hælavíkur og í Atlaskarð (327 m). Úr skarðinu er gengið niður í Rekavík og áfram í bröttum hliðarsneiðingi fyrir Kollinn að Höfn í Hornvík (4-5 klst.)

Veiðileysufjörður - Hornvík - um Hafnarskarð

Úr botni Veiðileysufjarðar er farið um Hafnarskarð (519 m). Fáar vörður eru á leiðinni upp í skarðið en vel er varðað úr skarðinu niður í Hornvík (4-5 klst.)

Hrafnsfjörður - Furufjörður - um Skorarheiði

Leiðin liggur úr botni Hrafnsfjarðar um lága heiði, Skorarheiði (200 m), í Furufjörð. Hún liggur að hluta til á stíg en einnig eru vörður austan megin (3 klst.)

Furufjörður - Hornvík

Frá Furufirði er haldið út með firðinum að norðanverðu fyrir Bolungavíkurófæruna í norðanverðum Furufirði en þar þarf að sæta sjávarföllum. Úr Bolungavík er farið um Göngumannaskörð (366 m) í Barðsvík, um Smiðjuvíkurháls í Smiðjuvík og áfram norður Almenninga að Axlarfjalli. Fátt er um vegmerkingar á þeirri leið. Af Axlarfjalli er haldið niður að Hornbjargsvita í Látravík og þaðan í Hornvík (2-3 dagar).

Úr Furufirði er einnig hægt að ganga um Svartaskarð í Þaralátursfjörð og Reykjafjörð og þaðan áfram í Ófeigsfjörð og Ingólfsfjörð (4-5 dagar).

Hornvík - Hornbjarg

Gengið er fyrir víkina að Hafnarósnum. Þegar yfir ósinn er komið er haldið út með fjörunni á nyrsta hluta bjargsins og á Miðfell. Brattkleifir geta lagt leið sína á Kálfatind (534 m), hæsta hluta bjargsins, og virt fyrir sér tindinn Jörund (8-10 klst).