Reykjanesfólkvangur var friðlýstur sem fólkvangur árið 1975. Mikið er um jarðhitasvæði og margskonar náttúruminjar innan fólkvangsins. Eldfjöll eru mörg innan fólkvangsins einkum lágar hraundyngjur og gossprungur. Móbergs- fjöll og stapar í óteljandi myndum er einkennandi fyrir landslag á svæðinu. Innan marka fólkvangsins er náttúruvættið Eldborg undir Geitahlíð. Naðurtunga finnst innan fólkvangsins og er hún á válista NÍ og talin talsvert útbreidd við hveri norðan Trölladyngju.
Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha.
Auglýsing nr. 520/1975 í Stjórnartíðindum B.
Jarðfræði svæðisins er merkileg á heimsvísu en þar eru eldstöðvar af ýmsum gerðum ásamt gömlum og nýjum hraunum. Mikið er af minjum um lífshætti fólks á fyrri tímum. Svæðið er mikilvægt útivistarsvæði. Geysileg fjölbreytni er þar í jarðmyndunum, landslagi og litum, óvenjuleg vötn, fjölbreytt hraun, grösugir balar og vellir og jarðhiti með tilheyrandi litskrúði einkenna svæðið. Innan fólkvangsins eru svæði sem gætu fallið undir skilgreiningu um víðerni. Svæði á borð við Reykjanesfólkvang, svo nærri miklu þéttbýli, eru mjög verðmæt. Sett hafa verið upp upplýsingaskilti á undanförnum árum. Landvörður starfar á sumrin á vegum stjórnar Reykjavíkurfólkvangs. Sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar hafa unnið að margvíslegum verkefnum, m.a. við að fjarlægja rusl, í fólkvanginum í samvinnu við landvörð. Stjórn fólkvangsins kynnti stjórnaráætlun fyrir árin 2012-2022 í apríl 2012 og var unnið út frá henni árið 2013.
Innan fólkvangsins er að finna hverasvæði og ummyndanir sem eru mjög viðkvæmar. Landið var víða vel gróið en hefur verið ofnýtt og gróður er nú víða mjög illa farinn vegna ofbeitar og landeyðingar. Jarðvegseyðing er töluverð innan fólkvangsins. Ýmsir áhugahópar hafa helgað sér svæðið m.a. til torfæruaksturs og er landið víða illa farið. Svæðið er nálægt stórum þéttbýliskjörnum og fylgir því mikill ágangur. Áætlanir eru um rannsóknir og nýtingu jarðhita í samræmi við Rammaáætlun. Innan fólkvangsins eru u.þ.b. 23 námur, flestar ófrágengnar eða í notkun.