Seljahjallagil

Seljahjallagil, Bláhvammur, Þrengslaborgir og nágrenni í Skútustaðahreppi var friðlýst sem náttúruvætti árið 2012. Markmiðið með friðlýsingu Seljahjallagils, Bláhvamms, Þrengslaborga og nágrennis sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir, auk þess sem svæðið hefur mikið fræðslu- og útivistargildi. Náttúruvættið tekur einnig til búsvæðaverndar fálka í Mývatnssveit að hluta.

Í náttúruvættinu er að finna merkar minjar frá jarðeldunum sem skópu Mývatn og umgjörð þess. Fyrir tæpum 4.000 árum rann Laxárhraun eldra frá Ketildyngju um Seljahjallagil, breiddi úr sér á Mývatnssvæðinu og rann áfram niður Laxárdal og Aðaldal. Við það stíflaðist afrennsli Mývatns-svæðisins og stöðuvatn myndaðist, álíka stórt og Mývatn, en með ólíka lögun. Fyrir um 2.300 árum rann Laxárhraun yngra frá Lúdentarborgum, Þrengslaborgum og Borgum í Grænavatnsbruna. Einn gíganna frá þessu gosi er í Seljahjallagili. Hraunið rann um Mývatnssvæðið, niður Laxárdal og Aðaldal allt að Skjálfanda. Dimmuborgir mynduðust í þessu gosi sem og gervigígar við Mývatn, í Laxárdal og í Aðaldal. Í gosinu varð Mývatn til í núverandi mynd.

Í Bláfjalli og Bláfjallsfjallgarði eru fjölbreyttar móbergs- og grágrýtismyndanir frá ísöld með giljum og hvömmum sem grafist hafa út við lok ísaldar. Seljahjallagil er víða 100-150 m djúpt og um 500 m á breidd að meðaltali. Nyrst í gilinu hefur leysingavatn grafið nýtt gil ofan í hraunið og koma þar fram miklir klettadrangar með einhverju fegursta og fjölbreyttasta stuðlabergi á austan-verðu Norðurlandi. Bláhvammur er gróðurríkt hlíðasvæði suður af Seljahjallagili vaxinn birkiskógi og blómgróðri. Hvammurinn er klettahvilft sem jökulvatn hefur grafið í móbergið og er þar greinilegt gamalt fossstæði. Í náttúruvættinu er einnig að finna fálkaóðul sem eru setin árlega.

Hið friðlýsta svæði er 1.880,7 ha að stærð.