Eftirlit

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með aðstöðu fyrir móttöku úrgangs og farmleifa frá skipum í höfnum. Reglubundið eftirlit með höfnunum fer fram að lágmarki á fimm ára fresti og sinnir Umhverfisstofnun eftirlitinu samkvæmt eftirlitsáætlun sem sett er fram til fimm ára í senn. Í eftirlitinu  skal farið yfir hvort starfsemi sé í samræmi við áætlanir hafna um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa, hvort með­höndlun úrgangs í móttökuaðstöðu sé í samræmi við kröfur laga og reglugerða um með­höndlun úrgangs og að samræmi sé á milli afhendingar úrgangs og tilkynninga skipa um úrgang og farmleifar. Umhverfisstofnun hefur heimild til að fara í aukaeftirlit með móttökuaðstöðu í höfnum ef fyrirliggjandi upp­lýsingar benda til þess að ákvæði reglugerðar nr. 1200/2014 um móttöku á úrgangi og farmleifum frá skipum séu ekki uppfyllt.

Ef frávik koma fram í eftirliti eru gerðar athugasemdir og farið fram á að úrbætur verði gerðar eða tiltekin höfn getur sent inn úrbótaáætlun, þar sem fram kemur til hvaða ráðstafana verði gripið til að bæta úr í samræmi við athugasemdir og hvenær þeim aðgerðum á að vera lokið.

Umhverfisstofnun fer yfir úrbótaáætlanir þegar þær berast og samþykkir þær ef tilefni er til. Ef höfn hvorki sendir úrbótaáætlun né gerir þær úrbætur sem farið er fram á getur stofnunin gripið til þvingunarúrræða sbr. 14. gr. reglugerðarinnar sbr. V. kafla laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Umhverfisstofnun skal fyrir 1. maí ár hvert gefa út skýrslu um niðurstöður eftirlits fyrir undangengið ár og birta á vefsetri sínu.