Um svæðið


Mynd: Edda Kristín Eiríksdóttir

Nyrst við Breiðafjörð, á vestasta tanga Íslands rís Látrabjarg úr sjó. Alla jafna er talað um Látrabjarg sem eitt og hið sama en í raun skiptist það í fernt og draga hlutar þess nöfn sín af bæjarnöfnum í nágrenninu. Hlutarnir fjórir frá vestri til austurs eru: Látrabjarg (Hvallátur), Bæjarbjarg (Saurbær á Rauðasandi), Breiðavíkurbjarg og Keflavíkurbjarg. Bjargið allt er um 14 km langt og yfir 440 m hátt þar sem það er hæst en sá hluti sem er innan friðlandsmarka er um 9,7 km langur og þar eru þéttustu sjófuglabyggðirnar. Látrabjarg er eitt stærsta fuglabjarg í Evrópu og flokkast sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Líffræðileg fjölbreytni er mikil og á varptíma er þar að finna fjölskrúðugt fuglalíf sem byggir á góðu fæðuframboði og búsvæðum fyrir fugla.  

Mörk friðlandsins liggja um Brunnanúp í vestri, í Hálsegg, um Lambalág, Djúpadalsbrekkur og að Urðarhjalla, þaðan eftir landamerkjum Bæjarbjargs utan Geldingsskorardals og Melalykkju. Mörk friðlandsins ná tvo kílómetra út í sjó frá ystu mörkum á landi. 

Reglur

  • Gangið vel um svæðið og náttúru þess. Farið ekki út fyrir öryggisgirðingu vegna hrunhættu og fuglaverndar. 
  • Sýnið fugli tillitssemi. Notið aðdráttarlinsur við ljósmyndun. Otið ekki selfístöngum að fugli sem situr efst í bjarginu.
  • Notið göngustíga þar sem þeir eru fyrir hendi til að lágmarka ágang á gróður og fuglalíf. 
  • Notkun göngustafa er óheimil nema sem hjálpartæki aldraðra eða fatlaðra.
  • Skiljið ekkert eftir og takið allt sorp með ykkur af svæðinu. Þ.m.t. sígarettustubba, matarleifar og salernispappír, og skilið á næsta móttökustað fyrir úrgang.
  • Umferð reiðhjóla er einungis heimil á vegum og stígum. 
  • Bjargsig almennings er óheimilt.
  • Akstur utan vega og ómerktra slóða er óheimill.
  • Á varptíma (15. maí – 15. september) eru gæludýr óheimil innan friðlandsins. Utan varptíma eru gæludýr leyfð í bandi. Fjarlægið ávallt úrgang frá þeim
  • Næturdvöl og tjöldun er óheimil á svæðinu. Nálægasta tjaldstæði er í Breiðuvík
  • Öll meðferð elds er bönnuð, ef ætlunin er að hita mat eða elda skal nota eldunarstæði á Brunnum
  • Ekki má fljúga flygildum/drónum nema með leyfi Umhverfisstofnunar.
  • Óheimilt er að lenda þyrlum og öðrum mönnuðum loftförum innan friðlandsins nema með leyfi Umhverfisstofnunar.
  • Öll meðferð skotvopna er bönnuð innan friðlandsmarka, nema til refa- og minkaveiða í samræmi við villidýralög. 
  • Umferð og landtaka skipa og báta er óheimil ef reglur um undantekningar eiga ekki við.